Málefni aldraðra
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég átti þess auðvitað ekki kost að taka þátt í umræðum þegar þetta frv. var lagt fram, en gerði við það nokkrar athugasemdir þegar það var sýnt þingflokkum. Ég held að þetta frv. sé dæmi um að nokkuð skortir á hér í landi að menn skipuleggi mál fyrir fram og hafi einhverja heildarhugmynd um út í hvað er verið að leggja.
    Þær greinar frv. sem ég set stórt spurningarmerki við eru 2. gr. og 4. gr. Ég held að það sé ljóst að ef verulegur hluti af fjármunum Framkvæmdasjóðs aldraðra á að nýtast í viðhald og endurbætur þá verði ekki langt þangað til að stærri hluti af sjóðnum verði nýttur til þess. Hver maður getur vitaskuld sagt sér fyrir fram að hús þarfnast viðhalds og endurbóta og menn hefðu átt að sjá það fyrir hvernig ætti að sinna því.
    4. gr. gerir ráð fyrir að veitt sé tímabundið rekstrarfé til stofnana fyrir aldraða og eins og þar segir, með leyfi hæstv. forseta: ,, . . . sem breyta eða hefja starfsemi eftir að fjárlagaár hefst.``
    Ég hlýt nú að spyrja: Hvernig getur slíkt gerst? Menn hefja ekki starfsemi stofnana á örfáum mánuðum án þess að að því sé verulegur aðdragandi þannig að það má nú vera lítil framsýni ef menn gera sér ekki grein fyrir að til stendur á næsta fjárlagaári að hefja rekstur eða breyta starfsemi. Ég held að þetta sé alveg gjörsamlega út í hött.
    Þetta er auðvitað angi af miklu stærra máli. Greinargerðin með þessu frv. er t.d. afar óljós. Það er ákaflega erfitt að fá engar upplýsingar um einfaldar staðreyndir eins og: hvað eru margar slíkar stofnanir til í landinu, hvað er margt fólk á þeim stofnunum, hvað greiðir ríkið, þ.e. Tryggingastofnun ríkisins, mikinn hluta rekstrarins? Dæmi eru þess í okkar góða þjóðfélagi að menn hafa orðið
ríkir af því að reka elliheimili fyrir peninga frá Tryggingastofnun ríkisins. Er þessi rekstur með eðlilegum hætt? Er eytt of miklum peningum í hann, o.s.frv.?
    Ég held að miðað við hvað við höfum byggt mikið af þessum stofnunum sé mál til komið að við fáum eitthvert yfirlit yfir hvernig þessi rekstur hefur gengið, hvað hann hefur kostað, hvað hann er orðinn mikill að vöxtum. Ég hef, hæstv. forseti, áður lyft þeirri skoðun minni að varla sé hægt að ætlast til að allt fullorðið fólk á Íslandi eigi kost á slíku húsrými. Ég hef minnst á hvort ekki væri nær að miða fyrirgreiðslu Húsnæðisstofnunar ríkisins að því að hygla því fólki sem óskaði þess að hafa minni íbúð í sínu eigin húsi þar sem aldraðir foreldrar gætu verið, eða leitað yrði annarra leiða en þeirrar að setja allt fólk sem komið er um og yfir sjötugt inn á stofnanir. Mér finnst það óeðlilegt og hef alltaf sagt það.
    Mér er fullkunnugt um að það er ástæða fyrir gagnrýni sem upp hefur komið um rekstur þessara stofnana. Ég sá í blöðum bæjarins nýlega að gagnrýnd var lyfjanotkun á þessum stofnunum. Ég hef séð það með eigin augum, það skal enginn voga sér að mótmæla því, að fólk sem aldrei á ævi sinni hefur sett

upp í sig svefnlyf hefur fengið svefnlyf um leið og það hefur komið inn á slíka stofnun. Og ég er andvíg þessu. Ég er andvíg þessu með öllu. Þetta viðgengst og ég veit það. Ég held að menn ættu aðeins að bíða með að afgreiða þetta góða frv. og fá eitthvert yfirlit yfir hvar við erum stödd í þessum rekstri. Það er ákaflega óheppilegt þegar verið er, eftir örfárra ára reynslu, að breyta merkri löggjöf eins og hún vissulega var þegar Framkvæmdasjóður aldraðra var stofnaður án þess að fyrir liggi hvar skórinn kreppir. Hvað er nákvæmlega margt fólk á t.d. stofnunum fyrir aldraða sem gæti allt eins búið á annan hátt?
    Við skulum horfast í augu við að þetta er mjög dýr rekstur. Og auðvitað vil ég taka það skýrt fram að ekki skal ég hafa á móti því nema síður sé að við séum manneskjur til að búa öldruðu fólki góð og ánægjuleg lífskjör. En ég held að það eins og annað verði að gerast með dálítilli skynsemi. Ég hef marginnt hæstv. fjmrh. t.d. eftir því: Hverju hefur Lottóið breytt í uppbyggingu stofnana fyrir fatlaða? Ég hef engin svör fengið við því. Ég veit bara eitt: að það er búið að kaupa fyrir ágóðann af því á milli 60 og 70 íbúðir. Þess vegna vil ég vita hvaða áhrif það hefur á annað það fé sem veitt er til þessara hluta. Það er nefnilega afskaplega erfitt að stjórna löndum og þjóðum án þess að hafa heildaryfirsýn yfir hvernig þetta fé er nýtt og fyrir hvern. Það er jafnljóst að fleira gamalt fólk á sín vandamál óleyst sem þyrfti að komast á hjúkrunar- og sjúkradeildir. Ég er jafnsannfærð um að fjöldinn allur af fullorðnu fólki sem hefur ekkert að gera inn á stofnun er þar. Þess vegna er ég dauðhrædd við að fara nú, án nokkurrar heildarumræðu um þessi mál, að breyta verkefnum Framkvæmdasjóðs aldraðra vegna þess að grunur minn er sá að þetta gæti farið út í mjög svo óskipulagðar fjárveitingar. Og eins og hv. þm. Ólafur Kristjánsson kom hér inn á áðan þá held ég að það sé afskaplega erfitt að gera sér grein fyrir því hvað þetta í raun og veru þýddi. Hvort þetta yrði ekki fljótlega til þess að nær allar nýframkvæmdir legðust af. Þess vegna vil ég fara þess á leit við hæstv. forseta, og þá nefnd sem kemur til með að fjalla um þetta mál, sem er auðvitað hv. heilbr.- og trn., þar á ég ekki sæti og get þess vegna ekki beitt áhrifum mínum þar, en áður en ég samþykki eða hafna þessu frv. kysi ég að sjá athugun á því hvað umfang þessa máls er mikið. Hvað eru þessar stofnanir margar? Það hlýtur að vera auðvelt að gera áætlun um nauðsynlegar endurbætur og viðhald þannig að við vitum í raun og veru út í hvað við erum að fara.
    Ég vil leggja á það áherslu, hæstv. forseti, að ég tel að okkur sé nokkur þörf á að fara að hafa einhverja heildaryfirsýn yfir þær stofnanir sem við höfum byggt á síðasta áratug. Það vill nefnilega svo til, eins og hv. þm. Ólafur Kristjánsson nefndi hér áðan, að það kostar líka rekstur þegar stofnanir eru teknar í gagnið. Allt þarf það að liggja nokkurn veginn fyrir hvort þetta eru viðráðanleg verkefni eða hvort við erum að fara út í blindgötu þar sem við komumst ekki á leiðarenda.