Þroskaþjálfaskóli Íslands
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Frsm. heilbr.- og trn. (Guðmundur G. Þórarinsson) :
    Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð vegna þeirrar ræðu sem hv. 14. þm. Reykv. hefur flutt hér.
    Ég er ekki sammála þeim kjarna sem mér fannst leynast í hans ræðu að undirbúningur stjfrv. ætti að vera slíkur eða stjfrv. afgreidd með þeim hætti að þingið gerði sem minnstar athugasemdir við þau og þau færu þá væntanlega í gegn með sem allra minnstum breytingum.
    Ég er í rauninni þeirrar skoðunar að Alþingi Íslendinga hafi verið og sé í allt of ríkum mæli afgreiðslustofnun ríkisstjórna. Að ríkisstjórnir leggi sín stjfrv. fram og þingið telji það skyldu sína að afgreiða þau með tiltölulega litlum breytingum. Ég tel það vera grundvallaratriði fyrir lýðræði í þessu landi og það stjórnskipulag sem við viljum helst búa við að Alþingi Íslendinga sé svo sjálfstætt að það treysti sér til hverju sinni að taka þau frv. sem fyrir koma með gagnrýnum huga, fjalla um þau og breyta þeim eftir því sem meiri hluti þingsins telur rétt vera en líti ekki svo á að stjfrv. skuli fara í gegn óbreytt eða að menn séu alfarið bundnir af því sem ríkisstjórn leggur fram.
    Í rauninni er ég í grundvallaratriðum ósammála hv. 14. þm. Reykv. í þessu máli og hygg að ef hann hugsar sig betur um sannfærist hann um hvílíkt gríðarlegt atriði það er einmitt í lýðræði Íslendinga og stjórnskipun að Alþingi starfi sjálfstætt og taki frv. fyrir með þeim hætti að þegar nýjar upplýsingar berast og málflutningur og rök liggja á þann hátt þá sé það þingið sem er í raun löggjafarsamkunda Íslendinga sem tekur ráðin í sínar hendur. Því tel ég, burt séð frá þessu máli, að hér hafi eðlilegir hlutir gerst sem e.t.v. ættu að gerast oftar, að Alþingi taki gagnrýnum huga við þeim frv. sem ríkisstjórnin leggur fram.