Þroskaþjálfaskóli Íslands
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Geir H. Haarde :
    Herra forseti. Hv. 10. þm. Reykv. hefur kosið að breikka þessa umræðu eilítið frá því sem ég hafði í huga. Ég var að tala um tiltekið ástand á tilteknum tíma en ekki þá almennu, stjórnskipulegu spurningu hvort þingið eigi að starfa sjálfstætt eða breyta stjfrv. svona almennt séð. Ég tel að þingið hafi fullan rétt til þess og mætti gjarnan gera betur í mörgum tilvikum. Ekki síst þau stjfrv. sem sést hafa frá núv. ríkisstjórn í mörgum málum. Við höfum verið að ræða sum þeirra í mörgum nefndum þingsins í dag.
    En ég tel hins vegar að afgreiðsla þessa frv., þar sem 75% af efni frv. er kastað í öskutunnuna af nefnd þingsins, sé lýsandi ástand um hvernig staðið er að undirbúningi mála af hálfu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr. Það er út af fyrir sig fagnaðarefni, enda tók ég fram að ég geri ekki efnislegan ágreining við það að hv. heilbr.- og trn. hefur treyst sér til þess að hafa vit fyrir stjórninni í þessu máli, ef það má orða það þannig.
    En ég tel, eins og ég segi, að þetta sé lýsandi dæmi um hvernig staðið er að undirbúningi mála. Auðvitað er málflutningur hv. 10. þm. Reykv. líka lýsandi dæmi um það hvaða afstöðu einstakir þingmenn í stjórnarliðinu hafa og hvaða trú þeir hafa á málafylgju núv. ríkisstjórnar. En fyrr má nú rota en dauðrota þegar verið er að breyta stjfrv. og 75% brottfall er óvenjulega mikið. ( Gripið fram í: Það hefur orðið 90% einu sinni.) Hefur orðið 90% einu sinni, segir hér reyndur þingmaður úr sæti sínu, hv. 1. þm. Vesturl. Ég þykist vita að hann sé með nokkur önnur frv. í huga sem hann vildi gjarnan afgreiða með þeim hætti hjá núv. stjórn.
    Þetta var það sem ég vildi sagt hafa, virðulegur forseti. Ég skal ræða við hv. 10. þm. Reykv. um verkaskiptingu löggjafans og framkvæmdarvaldsins, stjfrv. og meðferð þeirra við betra tækifæri. Það passar kannski ekki alveg í umræðum um frv. um það hvort það eigi að flytja Þroskaþjálfaskólann frá heilbrrn. til menntmrn.