Leikskóli
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Ég vildi áður en þetta frv. sem hér um ræðir, um leikskóla, fer til nefndar leggja örfá orð inn í 1. umr. málsins hér í þessari hv. deild.
    Að frv. er nokkur forsaga. Það hefur verið rakið í ítarlegri framsöguræðu hæstv. menntmrh. og það hefur verið ágreiningur um þátttöku sveitarfélaganna og hlutverk þeirra og hlutverk ríkisins varðandi leikskóla. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga hefur blandast inn í þá umræðu. Óþarft er að endurtaka þá umræðu alla en hins vegar vil ég láta koma fram að áður en umrædd frumvörp voru lögð fram, frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga og frv. um leikskóla og dagvistarstofnanir, voru þessi mál rædd ítarlega í þingflokki Framsfl., einkum hvort leikskólar ættu í eðli sínu að vera menntastofnanir eða hvort þeir væru félagsmál.
    Ég vil láta koma fram við þessa umræðu bókun þingflokksins sem var samþykkt þegar samþykkt var framlagning frv. til laga um félagslega þjónustu sveitarfélaga því að þessi bókun varðar þetta mál einnig. Við í þingflokki Framsfl. samþykktum 18. des. sl. bókun sem er svohljóðandi:
    ,,Þingflokkur framsóknarmanna hefur fyrir sitt leyti samþykkt að frv. um félagslega þjónustu sveitarfélaga verði lagt fram. Samþykktin var gerð með svofelldri bókun:
    Leikskólar og dagvistarstofnanir eru í eðli sínu menntastofnanir. Þar sem félmrh. hefur fallist á að fagleg yfirstjórn leikskóla verði áfram undir menntmrh. heimilar þingflokkurinn að frv. um félagslega þjónustu sveitarfélaga verði lagt fram.``
    Þetta þýðir með öðrum orðum að þingflokkurinn er þeirrar skoðunar að fagleg yfirstjórn leikskóla sé undir menntmrn. og leikskólinn og dagvistarstofnanir séu í eðli sínu menntastofnanir.
    Þetta varðar grundvallarmál í sambandi við þetta frv. og ég vildi ekki láta þessa umræðu líða hjá án þess að þessi skoðun kæmi fram.
    Hvað varðar yfirstjórn sveitarfélaga og ríkisins yfir þessum málaflokki, þá hafa þær skoðanir heyrst og verið nokkuð háværar, ég man m.a. eftir þeim í umræðum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga en ég tók þátt í þeirri vinnu, að sveitarfélögin ættu að hafa algjöra yfirstjórn þessara mála þar sem þau greiddu af þeim kostnað alfarið. Ríkið ætti ekki að hafa nein afskipti af þeim og sveitarfélögunum væri fullkomlega treystandi til þess að sjá fyrir þessum málum.
Þessar röksemdir voru háværar.
    Ég er ósammála þessu. Með því er ég ekki að vantreysta sveitarfélögunum að neinu leyti til þess að gera vel í þessum málaflokki. Ég veit að margir hafa vilja til þess. Hins vegar getum við ekki gert börnunum það að hafa ekki einhverjar almennar viðmiðunarreglur í þessum efnum, hvað má bjóða upp á og eins að þetta séu í eðli sínu menntastofnanir en ekki geymslustaðir fyrir börn meðan foreldrarnir eru að vinna. Eins og kom fram hjá hæstv. menntmrh. er ekki samkomulag um það að breyta kostnaðarskiptingunni aftur en það er tvímælalaust hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eins og nú er í pottinn búið að jafna aðstöðu sveitarfélaga til að vinna að þessum verkefnum.
    Ég held að þetta frv. sé til bóta og ég styð það. Ég held að það sé skref í áttina til betri tíðar í þessum efnum þó að samþykkt þess leysi að sjálfsögðu ekki úr öllum vanda í þessum viðkvæmu málum.