Leikskóli
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki hafa mjög langt mál að þessu sinni um það frv. sem hér er til umræðu þar sem hér í þinginu var í liðinni viku allítarleg umræða um hlutverk leikskóla þegar rætt var um frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ég lýsti þá þeirri meginafstöðu okkar kvennalistakvenna að leikskóli eigi að vera eðlilegur þáttur í menntun barna, réttur allra barna, en ekki geymslustofnun eða félagslegt úrræði. Mér finnst þetta í raun svo sjálfsögð sannindi að það þurfi ekki að fjölyrða mikið um þau. Í samræmi við það styðjum við þingkonur Kvennalistans eindregið að leikskólinn heyri áfram undir menntmrn. og það eitt og áréttum þá skoðun okkar að leikskólamenntun eigi að standa öllum börnum til boða. Við teljum að í lögum um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sé nógu fast kveðið á um skyldur sveitarfélaga í þessum efnum, skyldur sem þau eiga að vísu mjög misauðvelt með að rækja miðað við núverandi ástand. Það út af fyrir sig er ámælisvert að þau skuli ekki öll geta sinnt þeim skyldum sem þeim ber en við sjáum ekki á hvern hátt frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga bætir þar nokkru við.
    Það mætti hugsa sér, ef frv. um félagsþjónustuna bætti einhverjum viðbótarskyldum á herðar sveitarfélögum, að það væri íhugunarvert hvort það væri leið til þess að ná þeim áfanga að leikskólar verði byggðir upp í öllum sveitarfélögum hér á landi. Því er ekki til að dreifa og virðist ekki vera nokkur áhugi fyrir þannig að ég sé ekki að sú deila sem er nú um forræði þessa málaflokks, alla vega að hluta til, skili nokkru fyrir þau börn sem þurfa á leikskólum að halda og ættu að hafa aðgang nú þegar að þeim.
    En vegna þess frv. sem hér er til umræðu er það ljóst að markmið þau sem í því koma fram eru í samræmi við stefnu Kvennalistans og að sjálfsögðu styðjum við það. Hins vegar skýtur mjög skökku við og er mjög alvarlegt mál að frv. skuli vera sett hér fram aðeins með góð áform um fjármögnun og að allar raunhæfar fjármögnunartillögur skuli aðeins vera birtar sem fylgiskjal. Ég tek undir það með dagvistarhópi BSRB að slíkt plagg hefur ekkert vægi og er mjög ósammála hæstv. menntmrh. um að það dugi að setja fram fylgiskjal til að fjármagna eða koma í kring að einhvern tíma muni vera fjármögnuð sú uppbygging sem á þarf að halda hér. Við byggjum enga leikskóla úr fylgiskjölum og fóstrur þiggja fylgiskjöl áreiðanlega ekki í laun þannig að börn eru engu bættari þótt það sem ætti að vera tillögur sé nú fylgiskjal.
    Ég vil enn einu sinni ítreka það að kvennalistakonur hafa komið með hugmyndir um fjármögnun við uppbyggingu leikskóla, bæði áður en verkaskipting ríkis og sveitarfélaga varð með núverandi hætti og eins í nefndarstarfi við undirbúning þess plaggs sem hér er til umræðu, stórlega og alvarlega skert. Grundvallaratriðið er auðvitað að stefna sé sett fram sem einhver hefur trú á að hægt verði að framkvæma.
    Ég fagna því vissulega að þetta frv. skuli vera hér til umræðu til þess að vekja umræður um rétt barna

til leikskóla, en mér þykir að vísu mjög alvarlegt mál hve fáir sýna þessu áhuga í þinginu. Ég get af þeim ástæðum og ýmsum öðrum ekki verið svo bjartsýn sem hæstv. menntmrh. virðist vera um að fjármögnunarmálin verði leyst vegna mikils skilnings eða vilja þingmanna í þessum efnum.
    Mig langar til þess að varpa spurningu til síðasta ræðumanns ef hann heyrir orð mín, hv. 3. þm. Austurl., og bið hæstv. forseta að gera ráðstafanir til þess að athuga hvort hann er hér í húsinu. Áður en ég vík að því sem tengist ekki síst fjármögnunarþætti þessa frv. langar mig til þess, vegna orða hæstv. menntmrh. í umræðunni um félagsþjónustu sveitarfélaga, að spyrja þeirrar spurningar hvort hann telji vega þyngra í sambandi við uppbyggingu leikskóla að börn þurfi að komast á einhvern stað á meðan foreldrar eru í útivinnu, sem er fullgilt sjónarmið, eða að leikskóli sé fyrst og fremst réttur barna vegna þess að þau þurfi á því að halda að hafa aðgang að þeirri menntun og því uppeldisstarfi sem unnið er á leikskólum. Því miður er ég ekki með ræðu hæstv. menntmrh. en mér þótti í röksemdafærslu hans hér fyrir helgina og raunar að nokkru leyti nú í dag eins og hann væri að tala um tvö aðskilin málefni, þ.e. vanda þeirra fjölskyldna sem eru ofhlaðnar af vinnuálagi nú þegar, hafa ekki í nokkur hús að venda með börn sín og þurfa því á jafnvel heilsdagsgæslu fyrir ungbörn að halda. Ég er ekki viss um að þetta sé ósk allra foreldra, að leikskóli sé fyrst og fremst til vegna þess að mæta þurfi fjarvistum foreldra frá heimili vegna mikils vinnuálags. En það má vera að ég hafi oftúlkað orð hæstv. menntmrh. hér fyrir helgi er hann blandaði saman þessum tveim atriðum, löngum vinnudegi foreldra annars vegar, sem er staðreynd og vissulega áhyggjuefni að ekki skuli einu sinni vera hægt að tryggja að börn fái örugga dagvistun á þeim tíma, því þar er bara verið að tala um dagvistun en ekki leikskóla sem menntastofnun, og svo hins vegar það að leikskóli sé menntastofnun fyrir börn sem öll börn eigi að eiga rétt á en í samræmi við aldur barna og vilja foreldra. Það er í rauninni um tvennt ólíkt að ræða í þessu efni.
    Ég sé að hv. 3. þm. Austurl. er hingað kominn og mig langar því til að beina spurningu til hans sérstaklega, vegna þessa frv. og frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga og vænti þess að hann muni geta upplýst okkur sem hér erum stödd um það hvort Framsfl. telji að þau frv. sem hér liggja fyrir nú muni njóta stuðnings Framsfl. heils og óskipts og þá með hvaða hætti. Gerir hann ráð fyrir, eins og mér heyrðist á orðum hans, að það sé með þeim hætti að þetta frv. verði samþykkt óbreytt nú á þessu þingi og félagsþjónustufrv. sömuleiðis eða með því að kaflarnir um málefni leikskóla verði felldir út úr félagsþjónustufrv., eins og er vilji margra þingmanna, og frv. bæði samþykkt með þeim hætti? Mig langar einnig að fá skýrari svör um hvort hann telur að lausir endar í sambandi við fjármögnun fyrir sveitarfélög séu of margir til þess að framsóknarmenn geti stutt þessi frumvörp, annað hvort eða bæði.
    Ég mun ekki hafa fleiri orð um þetta mikilvæga

frv. að sinni. Vissulega væri full ástæða til þess að fara nánar út í umræðu um uppeldisgildi leikskóla og leikskóla sem menntastofnanir, uppbyggingu leikskóla og hvert okkar framtíðarmarkmið er. En ég tel að hér sé aðeins um frv. að ræða sem lýsir því hvernig þessi stefna ætti að líta út en ekki um að eitthvað verði gert vegna þess að það vantar þennan veigamikla fjármögnunarþátt inn í dæmið.