Leikskóli
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Sólveig Pétursdóttir :
    Hæstv. forseti. Mig langar aðeins til að segja að mér þykir mjög miður að þörf umræða um málefni barna í þessu þjóðfélagi skuli blandast ágreiningi, einkum milli ríkisstjórnarflokkanna. Þar á ég við deilur um leikskóla, hvort þeir eigi að heyra undir menntmrn. eða félmrn. Það er því miður allt of sjaldan sem málefni barna eru rædd hér á hinu háa Alþingi og er því miður að slíkar deilur eigi sér stað. En í þessu sambandi tel ég þó óhætt að lýsa því yfir að sjálfstæðismenn eru á þeirri skoðun að málefni leikskólanna heyri undir menntmrn. Þetta frv. má og þarf að ræða efnislega og það verður væntanlega skoðað vandlega í menntmn. þessarar hv. deildar.
    Það eru ýmsar athugasemdir gerðar í fylgiskjölum og langar mig m.a. til að benda á bls. 38 í þessu frv. þar sem er umsögn frá Foreldrasamtökum og Félagi áhugafólks um málefni barna. Þar segir m.a. í lokin, með leyfi virðulegs forseta: ,,Ekki er nauðsynlegt að tiltaka aldursskeiðið hálfs árs til sex ára, eins og gert er í 1. gr. frv. Rannsóknir Foreldrasamtakanna hafa leitt í ljós að 55% foreldra (barna, í Reykjavík, sem fædd eru árið 1988) vilja fyrst nýta sér þjónustu dagvistarheimila er barnið hefur náð u.þ.b. tveggja ára aldri. Heillavænlegra er því að skylda ríki/sveitarfélög til að sinna þörf leikskóla fyrir börn á aldrinum tveggja til sex ára, og mæta þörfum fólks með yngri börn á annan hátt.``
    Það verður ekki litið fram hjá slíkum atriðum því foreldrar hljóta að öðru jöfnu að vera best fallnir til að meta þessa þörf.
    Að öðru leyti langar mig til að benda á bls. 6 í frv. þar sem vitnað er til uppeldisáætlunar, sem er starfsrammi í þessu frv. að því er ég fæ best séð. Er greint frá því þar að Ragnhildur Helgadóttir, fyrrv. menntmrh., sendi öllum dagvistarheimilum á landinu í maí 1985 bréf þar sem gerð er grein fyrir uppeldisáætlun sem þá var nýkomin út. En í bréfi Ragnhildar segir m.a.: ,,Í uppeldisáætlun þessari eru sett fram markmið sem nefndin telur að stefna beri að í uppeldisstarfi á dagvistarheimilum, og síðan er fjallað um helstu uppeldissvið, grundvallarviðhorf og meginleiðir í uppeldi ungra barna.`` Síðan er þetta rætt hér nánar en ég tala ekki meira um það í einstökum atriðum. En þar segir í lokin: ,,Á grundvelli þessa leiðarvísis og með markmiðin í huga geta forstöðumenn og fóstrur sérhvers dagvistarheimilis gert sínar eigin áætlanir og mótað uppeldisstarfið í samræmi við þroska og þarfir barnanna og þær aðstæður sem fyrir hendi eru.``
    Ég tel þetta merkilegt mál að mörgu leyti og ég fagna því að þessi umræða kemur hér upp. Efnislega ætla ég hins vegar ekki að tjá mig um þetta frv. öllu frekar en það er vissulega þörf á úrbótum í málefnum barna í þjóðfélaginu. En eins og hér hefur verið um rætt þá þarf til þess fjármögnun. Orð hæstv. menntmrh. breyta þar engu um þrátt fyrir bjartsýni hans um veru Alþb. í næstu ríkisstjórn. ( Menntmrh.: Hefur þingmaðurinn tillögu til fjármögnunar?) Þær tillögur gætu komið, já, hæstv. menntmrh., þó það sé náttúrlega á hans verksviði.