Leikskóli
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Aðeins út af orðum hv. þm. Sólveigar Pétursdóttur þá verð ég nú að segja eins og er að ég er ekki sammála því áliti að yngri börnin eigi ekki heima í þessu almenna kerfi sem hér er um að ræða. Ég held að svo sé. Og það dugir þeim skammt að segja að það eigi að mæta þörfum fólks með yngri börn á annan hátt. Það verður þá að svara því hvernig það á að gerast og það gerði hv. þm. ekki.
    Það er rétt að í gildi hefur verið um langt skeið uppeldisáætlun sem var samþykkt í menntmrn. árið 1985 á grundvelli lagabreytingar sem var ákveðin á Alþingi að frumkvæði Guðrúnar Helgadóttur árið 1984. Eftir þessari uppeldisáætlun hefur verið starfað síðan og hún hefur gefist vel. Aðvitað er hún í endurskoðun og verður alltaf stöðugt að breyttu breytanda.
    Hv. þm. Sólveig Pétursdóttir kom hins vegar inn á að það væri mjög sorglegt að fjármuni skyldi vanta til að framkvæma þessa stefnu. Auðvitað vantar ekki fjármuni til að framkvæma það sem er í þessu frv., það er alveg skýrt að þar er séð fyrir hlutunum. En ég geri ráð fyrir því líka að hv. þm. hafi ekki átt við það heldur hafi hv. þm. átt við það að það vantaði fjármuni til að byggja upp leikskólakerfið í landinu yfirleitt. Um það má ýmislegt segja.
Í fyrsta lagi það sem áður hefur komið fram, að samkvæmt gildandi lögum er þetta á verksviði sveitarfélaganna og þannig háttar til, a.m.k. í sveitarfélaginu Reykjavík, að þar er fullt af seðlum. Það er aðeins spurning um það hvaða forgangsröð menn vilja hafa. Vilja menn eyða 4,5 milljörðum í það að byggja út í Tjörnina og 1,5 í það að byggja uppi á hitaveitutönkunum eða vilja menn eyða peningum í leikskóla? Og hv. þm. getur ekki sagt við mig: Það er þitt mál að koma með tillögur vegna þess að hún er alveg eins og ég í framboði hér í Reykjavíkurkjördæmi í þeim kosningum sem í hönd fara, nema þá að hv. þm. sé að snúast gegn stefnu Sjálfstfl. Það væri fínt vegna þess að Sjálfstfl. hefur þá stefnu, samkvæmt yfirlýsingum Þorsteins Pálssonar, í kosningabaráttunni sem nú er fram undan að það eigi að skera niður alla skatta sem hinn vondi maður, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur lagt á. Og það er engin smátala. Það eru 13 þús. millj. kr. Fyrir utan það eigi að reka ríkissjóð í jafnvægi, eins og sagt er, til viðbótar, þannig að þar eru menn komnir upp í 15 -- 20 þús. millj. kr. Menntakerfið allt kostar 13 -- 14 milljarða kr. Menn eru þá að tala um það að skera úr verulegan hluta af hinni félagslegu þjónustu sem er í dag og menn eru líka að segja við landsmenn: Engin ný þjónusta á vegum ríkisins. Og það er hræsni, með leyfi að segja, virðulegi forseti, það er hræsni þegar þingmenn Sjálfstfl. eru að kvarta undan því að það vanti peninga til félagslegrar þjónustu, sama lið og ætlar að ganga til kosninga með hnífinn á lofti til að skera þá sömu þjónustu niður eftir nokkra mánuði, ef þeir fá völd til. Við ætlum hins vegar, bæði ég og hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson, að gera það sem við getum til að koma í veg

fyrir það í sameiningu eftir kosningarnar.