Leikskóli
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Alexander Stefánsson :
    Herra forseti. Því miður gat ég ekki verið hér við fyrstu ræður sem hafa komið hér og framsögu um þetta mikilvæga frv., frv. til laga um leikskóla, og hef því ekki hlustað á þær umræður sem hér hafa farið fram. Það eru e.t.v. einhver örlög að ég eigi ekki að ræða þessi mál hér í þingsölum að ég óskaði eftir frestun á frv. um félagslega þjónustu sveitarfélaga vegna þess að ég var boðaður á annan fund í mínu kjördæmi sem ég eða við þingmenn gátum ekki án verið og á sama tíma var umræðan hér um það frv. Hins vegar hefur komið hér fram að í félmn. í morgun lýsti ég afstöðu Framsfl. til þessara mála. Ég verð að segja það alveg eins og er hér og nú að ég tel að þær deilur sem hófust milli ráðherra í hæstv. ríkisstjórn, þ.e. hæstv. menntmrh. og félmrh., muni verða til þess að þessi tvö mikilvægu mál dagi uppi hér á hv. Alþingi.
    Þessi frumvörp voru bæði til meðferðar á sl. hausti í ríkisstjórn og í þingflokkum. Það var ljóst að hér var um mjög mikilvægan ágreining að ræða sem þurfti að leysa á farsælan hátt. Annars vegar var um að ræða rammalöggjöf um félagslega þjónustu sveitarfélaga og hins vegar um þá afstöðu að leikskólinn skyldi vera samkvæmt lögum undir menntmrh. sem er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt þegar litið er á það að sú aðgerð sem þetta frv. fjallar um gerir ráð fyrir því að ung börn og allt upp að skólastigi sæki leikskóla. Þar af leiðandi er þetta nokkurs konar forskóli fyrir grunnskólann og ekkert óeðlilegt við það að hann heyri að öllu leyti undir yfirumsjón menntmrh.
    Þetta tengist auðvitað sveitarstjórnarlögum og lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Þess vegna var náttúrlega alveg augljóst mál að það þurfti í ríkisstjórn að gera sér fulla grein fyrir því hvað þyrfti að koma í sambandi við hvor tveggja þessi lög til þess að það væri meira en orðin tóm því að enginn gerir það átak sem nauðsynlegt er að gera í sambandi við uppbyggingu leikskólakerfisins miðað við þá breytingu sem hér er lagt til nema til þess komi nýtt fjármagn. Og ég vil taka það fram að ég er algerlega sammála því að leikskólinn fái það hlutverk sem hér kemur fram í þessu frv. til laga um leikskóla. Á því er enginn vafi að við þurfum að stefna að því. Það er margt í þessu frv. sem gerir það að verkum að við þurfum að sjá árangur þannig að sveitarfélög landsins, sem ber skylda til að annast þetta hlutverk samkvæmt lögum, hafi til þess möguleika. Það er aðalatriðið. Ég tel að sú deila sem upp hefur komið og er raunar enn í gangi geri það að verkum að hér þarf að vanda sig vel til að ekki verði úr því klúður, sem gerir það að verkum að ekkert gerist í þessum málum. Algerlega er útilokað að ætla sér að setja rammalöggjöf um jafnmikilvægan málaflokk og félagsþjónusta sveitarfélaga er sem ber í sér það
að aðgerðarleysi er algert. Og ég vil benda á það, ekki aðeins með leikskólann, heldur tenging við aðra málaflokka ef um er að ræða að þetta eigi að vera

rammalöggjöf eins og um félagslegu þjónustuna, þá þarf að tengja það ýmsum öðrum lögum sem í gildi eru. Til hvers þurfum við félagsmálaráð eða félagsmálanefnd sveitarfélaga til að sjá um húsnæðismál sveitarfélaga þegar jafnhliða er í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sérstök húsnæðisnefnd á vegum sveitarfélaga sem sér um alla félagslega þætti þeirra mála í bæjum og sveitarfélögum landsins? Þarna er bara eitt lítið dæmi um það hvert við erum að ana með svona löggjöf sem ekki tengist því einu sinni sem fyrir er í lögum.
    Ég ætla ekki að ræða þetta mál efnislega hér vegna þess að ég heyrði ekki framsöguræðu hæstv. ráðherra, sem hefði verið nauðsynlegt. En ég vil bara benda á afstöðu Framsfl. Við fengum þessi mál hvor tveggja, þessi frumvörp upp á borð á sl. hausti og það var enginn vafi á því að skoðanir voru skiptar eins og er í öllum flokkum. Sumir vildu halda sig við það einvörðungu að sveitarfélögin ættu að sjá um þetta hlutverk og þeim væri í sjálfsvald sett hvenær og hvernig þau byggðu upp þessa þjónustu samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Aðrir vildu ganga lengra og ganga í það verk að semja frv. um leikskólann sem fullnægði öllum þeim kröfum sem nútíminn krefst í sambandi við þessi mál. Þar af leiðandi væri eðlilegt að þessi þáttur í þjónustu sveitarfélaga landsins heyrði undir menntmrn. og væri algerlega undir forræði þess ráðuneytis. En hins vegar varð málamiðlun. Þingflokkurinn tilkynnti ríkisstjórninni um þessa afstöðu sem ég geri ráð fyrir að hafi komið fram frá öðrum þingflokkum einnig. Niðurstaðan varð sú að félmrh. hafði tilkynnt að það hefði verið samkomulag um það að breyta frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga þannig að draga úr vægi þess að sveitarfélögin hefðu algert forræði eða sjálfræði um það hvernig þau kæmu inn í þetta mál. Miðað við þá niðurstöðu taldi þingflokkurinn ekki eðlilegt að við værum að sitja á þessum málum. Það var í desember sem þessi afstaða var tilkynnt ríkisstjórninni og þar af leiðandi hefðu þessi frumvörp alveg getað komið fram í desember eins og núna í febrúar. Hins vegar þori ég ekkert að segja um það hvort þingmenn flokksins almennt muni taka þá afstöðu að samþykkja annað og fella hitt. Ég geri ekki ráð fyrir því. En niðurstaðan er sú að núna, þegar komið er að þinglokum, að það er alveg útilokað að þessi frumvörp nái fram að ganga hér í gegnum Alþingi. Það er kannski kjarni málsins í dag og það verður þá að nýta þann tíma sem eftir er til þess að reyna að átta sig á því hvernig er hægt að standa að þessum lagafrumvörpum þannig að það verði þá a.m.k. fljótlegt verk fyrir Alþingi þegar það kemur næst saman að afgreiða þessi mikilvægu mál.
    En ég vil endurtaka það að ég tel að bæði þessi frumvörp séu mikilvæg. Annað er rammalög sem þarf að semja að verulegu leyti upp á nýtt eins og þau liggja fyrir í frv. og hitt er frv. til laga um leikskóla sem allir eru sammála um að við þurfum að hafa mjög góða löggjöf hér um. Aðalatriðið er að við tryggjum hvernig á að standa að fjárhagslegu hliðinni. Og til þess að það sé hægt þarf annaðhvort að breyta

lögum um tekjustofna sveitarfélaga eða verkaskiptingu sveitarfélaga og gera þá um leið algeran tilflutning til baka um það að ríkið sjái um a.m.k. verulegan hluta af leikskólauppbyggingunni, annaðhvort rekstrarlega eða stofnkostnaðarlega. Ég tel að það sé visst spor aftur á bak í sjálfu sér en alla vega þurfa sveitarfélögin að fá tryggt fjármagn til þess að þau geti gert að veruleika það sem er hægt að vænta í gegnum þessa löggjöf. Á það vil ég leggja mikla áherslu.