Leikskóli
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þær ítarlegu umræður sem þetta mál hefur fengið hér í dag og þær fróðlegu upplýsingar sem fram hafa komið í þeim umræðum um afstöðu einstakra flokka og þingmanna. Mér þykir til að mynda mjög vænt um að það kom fram hjá hv. 1. þm. Vesturl. skilningur á nauðsyn þess að afla sérstaklega fjármuna í því skyni sem hér er verið að tala um, eins og reyndar er lagt til í frv. um uppbyggingu og fjármögnun leikskóla. Og ég segi það alveg eins og er að ég tel að það mættu gjarnan vera fleiri en hann og við úr þingflokkum ríkisstjórnarinnar sem hefðu aðeins fyrr kveikt á því. En það er auðvitað ekki öll nótt úti enn vegna þess að það er greinilegt að margir vilja gjarnan ganga undir þessu merki og það er vel.
    Hv. 1. þm. Vesturl. sagði hér áðan að þetta mál væri kannski sérstaklega vandasamt núna vegna þess að stutt væri eftir af þinginu, málin væru tvö og það væru deilur um þau. Ég vil segja við þingið í fullri vinsemd: Ég held að það sé algerlega óhjákvæmilegt, því miður þó að tíminn sé stuttur fyrir Alþingi, að taka á þessum málum. Ég tel að það sé óþolandi fyrir ráðuneytin, hvort sem það er menntmrn. eða félmrn., að þetta séu togstreitumál. Það getur enginn kveðið upp dóm í þessu efni annar en Alþingi, enginn kveðið upp dóm. Ég mun fyrir mitt leyti hlíta niðurstöðu meiri hluta Alþingis í þessum efnum en það er útilokað annað en að þingið kveði upp þennan dóm. Og ég fer fram á það í fullri vinsemd við þingmenn að menn íhugi það mjög vandlega að taka af skarið um bæði þessi mál og afgreiða þau. Þau eru þannig undirbúin að það er hægt út af fyrir sig að taka afstöðu til þeirra með tiltölulega einföldum og skýrum hætti, a.m.k. á það við um leikskólafrv. og a.m.k. á það við um deilumálið í frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga.
    Það er rangt að setja þetta mál þannig upp eins og stundum er gert og hefur jafnvel aðeins verið vikið að hér að hérna hafi einhverjir tveir ráðherrar fyrst og fremst verið að takast á um þessi mál. Staðreyndin er auðvitað sú að hér er um að ræða átök um grundvallarsjónarmið sem geysilega stór hópur manna hefur fylkt sér um að því er varðar uppeldissjónarmiðin annars vegar og reyndar þó nokkur hópur hefur fylkt sér um í sambandi við félagslega þáttinn og áhersluna þar hins vegar. Og ég tel að fyrir menntmrn., fyrir uppeldiskerfið í landinu, fyrir skólana í landinu, sé nauðsynlegt að Alþingi taki af skarið í þessu máli. Eftir þessa umræðu, bæði um þetta frv. og frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga, á þingið leikinn og það á að vera hægt að komast að niðurstöðu þó að skammur tími sé til þinglausna.