Leikskóli
Þriðjudaginn 19. febrúar 1991


     Sólveig Pétursdóttir :
    Hæstv. forseti. Hæstv. menntmrh. talar núna í sinni síðustu ræðu af fullri vinsemd til þingsins og er það vel. Ég hygg að hv. þm. sé það jafnljóst og hæstv. menntmrh. að hér er um mjög merkilegt mál að ræða og er nauðsynlegt að taka á því. En mér virðist þó að það sé farið að verða nokkuð auðvelt að ná sér í kosningaprik ef menn viðhafa sömu vinnubrögð og hæstv. menntmrh., hann er í aðstöðu til þess. Hann leggur fram hvert frv. á fætur öðru án þess að tryggja fjármögnun. Menn hljóta að vera sammála um að það er ekki vænlegt til árangurs nema e.t.v. í kosningabaráttu. En gott dæmi um þetta er frv. um grunnskóla sem nú liggur fyrir í hv. menntmn. Nd. þar sem leggja á greiðslubyrði á sveitarfélögin upp á líklega 8 milljarða. Það segir sig sjálft að varla er hægt að samþykkja frv. sem þessi án þess að litið sé nánar til þessa þáttar.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu öllu frekar, virðulegi forseti, en vegna orða sem hér féllu áðan varðandi 1. gr. þessa frv. langar mig til þess að geta þess að það hafa komið fram fleiri athugasemdir í þá átt sem ég minntist á, benti á þessi atriði. Það er t.d. á bls. 33 í frv. frá félagsmálaráði Akureyrar og dagvistarfulltrúa. Þar segir m.a. um 1. gr. að það sé hægt að sleppa ,,frá hálfs árs aldri eða`` og skýringin er sú: ,,Ekki teljum við rétt að tilgreina 1 / 2 árs aldur sem neðri aldursmörk í lögum. Nægir að taka fram að leikskóli skuli vera fyrir börn frá því að fæðingarorlofi lýkur, þar eð við hljótum að stefna að lengingu fæðingarorlofs um a.m.k. 1 / 2 ár.`` Það er því ljóst að það eru ýmis sjónarmið um þetta mál.
    En ég get alveg tekið undir það sem hér kom fram áðan að það vantar svo sannarlega markvissa fjölskylduumræðu. Það má segja að í stefnuskrám allra stjórnmálaflokka standi setning sem segir eitthvað á þá leið að fjölskyldan skuli vera hornsteinn samfélagsins. Mér finnst mikið vanta á að stjórnmálaflokkarnir hafi tekið upp þessa umræðu. Í sambandi við það sem við vorum að ræða hér áðan, 1. gr., finnst mér líka rétt að vekja athygli á því að það ætti að gera foreldri kleift að vera heimavinnandi, ef það vill vera heima með ung börn sín og annast þau. Þar þyrfti að taka til athugunar ýmis málefni, t.d. skattaleg. Er hægt að nefna atriði eins og persónuafslátt þar sem ekki er samræmi á milli hvort báðir foreldrar eru útivinnandi eða þar sem annað er heimavinnandi. Finnst mér rétt að litið sé til þessa þáttar og sú umræða höfð í huga einmitt varðandi þetta frv. um leikskólann þar sem fjallað er ekki einungis um þörf barna heldur líka um þörf foreldra í þessu þjóðfélagi.