Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla
Miðvikudaginn 20. febrúar 1991


     Frsm. meiri hl. félmn. (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 671 frá meiri hl. félmn. um frv. til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og brtt. sem meiri hl. nefndarinnar flytur á þskj. 672.
    Frv. þetta var lagt fram í Nd. á síðasta þingi og afgreitt þaðan á allra síðustu starfsdögum þingsins. Ekki vannst tími til að ljúka umræðu og afgreiðslu þess hér í Ed. og var það því lagt hér fram aftur núna í vetur eins og það var afgreitt frá Nd. í lok síðasta þings.
    Frv. byggir að stofni til á tillögum nefndar sem hæstv. félmrh. skipaði í maí 1988. Þeirri nefnd var ætlað að endurskoða núgildandi lög um jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna, en þau lög voru sett 1985. Hæstv. félmrh. lagði síðan fram hér á Alþingi frv. sem byggt var á tillögum nefndarinnar. Það frv. tók nokkrum breytingum í meðförum félmn. Nd. og voru þær breytingar gerðar í samræmi við þær umsagnir sem bárust og þær viðræður sem nefndarmenn áttu við fulltrúa sem komu á fund nefndarinnar. Málið var síðan afgreitt með fullu samkomulagi frá þeirri nefnd.
    Engu að síður komu fram ýmsar athugasemdir við umfjöllun um frv. nú í félmn. Ed. og flytur meiri hl. nefndarinnar brtt. á sérstöku þskj. eins og ég gat um áðan.
    Því er ekki að leyna að ýmsar aðrar hugmyndir komu fram innan nefndarinnar um breytingar á frv. sem nefndin varð síðan sammála um að bíða með og leggja þær hugmyndir frekar í dóm jafnréttisþing sem frv. kveður á um að skuli halda a.m.k. á þriggja ára fresti.
    Þær breytingar, sem meiri hl. félmn. leggur til og lýst er á þskj. 672, eru eftirfarandi, með leyfi forseta:     Við 13. gr. Á eftir orðinu ,,frumkvæði að`` í 2. málsl. bætist: sérstökum tímabundnum.
    Breytingar við þessa grein eru aðeins til að undirstrika að þær aðgerðir, sem Jafnréttisráð og jafnréttisnefnd hafa frumkvæði að til að bæta stöðu kvenna, hljóti að vera sérstakar tímabundnar aðgerðir.
    Við 14. gr. leggjum við til að í stað orðanna ,,jafnréttismál kvenna og karla`` í lok greinarinnar komi: framkvæmd laga þessara.
    Við 16. gr. Á eftir orðinu ,,frumkvæði að`` í 2. tölul. bætist: sérstökum tímabundnum. Er það eins og við 13. gr. til þess að undirstrika að þær aðgerðir, sem Jafnréttisráð og jafnréttisnefndir hafa frumkvæði að til að bæta stöðu kvenna, hljóti að vera sérstakar tímabundnar aðgerðir, enda samræmist það vel 3. gr. frv.
    Við 18. gr. frv. gerir meiri hl. nefndarinnar eftirfarandi brtt. Greinin orðist svo:
    ,,Félagsmálaráðherra er heimilt að ráða jafnréttisráðgjafa. Hann skal vinna í samvinnu við Jafnréttisráð að leiðréttingu á stöðu kvenna, m.a. í stofnunum og fyrirtækjum um land allt í samvinnu við starfsmenn og stjórnendur.``
    Nefndin taldi rétt að heimild til að skipa jafnréttisráðgjafa væri bundin við einn slíkan ráðgjafa en ekki ótölusettan fjölda eins og hefði mátt skilja á því frv. sem við fjölluðum um.
    Við 19. gr. laganna gerir nefndin eftirfarandi tillögu. 1. mgr. orðist svo:
    ,,Félagsmálaráðherra skipar kærunefnd jafnréttismála til þriggja ára í senn. Hæstiréttur tilnefnir formann nefndarinnar, sem skal vera lögfræðingur, félmrh. skipar tvo án tilnefningar og Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands tilnefna einn nefndarmann hvor. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Þegar kæruefni varðar aðra aðila vinnumarkaðar en sæti eiga í nefndinni skal leita umsagnar þeirra samtaka sem hlutaðeigandi eiga aðild að.``
    Við lögðum til að þessi breyting yrði gerð á skipan kærunefndar jafnréttismála. Í fyrsta lagi að nefndarmönnum yrði fjölgað úr þremur í fimm. Sem áður er gert ráð fyrir að Hæstiréttur skipi formann nefndarinnar og skal hann vera lögfræðingur, en í stað fulltrúa Kvenréttindafélags Íslands telur nefndin rétt að komi fulltrúi skipaður af félmrh. og þannig skipar félmrh. tvo nefndarmanna. Þá taldi nefndin eðlilegt að fulltrúar stærstu heildarsamtaka launþega og atvinnurekenda, þ.e. ASÍ og VSÍ, eigi aðild að nefndinni. Jafnframt er kveðið á um að þegar kæruefni varðar aðra aðila vinnumarkaðarins en sæti eiga í nefndinni skuli leitað umsagnar þeirra samtaka sem hlutaðeigandi eiga aðild að.
    Í sjötta lagi leggjum við til breytingu við 22. gr. frv., þ.e. að í stað orðsins ,,gáleysi`` í fyrri málsl. komi: vanrækslu. Okkur fannst það orð eiga betur við og lýsa því sem þar er átt við heldur en það orð sem fyrir var í greininni.
    Virðulegi forseti. Hér hefur verið gerð grein fyrir þeim brtt. sem meiri hl. félmn. leggur til að gerðar verði á frv. til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
    Undir nál. meiri hl. félmn. rita auk frsm. hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson, Karl Steinar Guðnason, Salome Þorkelsdóttir, Jón Helgason og Jóhann Einvarðsson.