Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 20. febrúar 1991


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Það frv. er ég mæli hér fyrir varðar breytingar á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins að því er tekur til stjórnsýslulegrar stöðu stofnunarinnar. Frv. er tvíþætt. Fyrri hluti þess varðar breytingar á skipan húsnæðismálastjórnar og öðrum þáttum í skipulagi stofnunarinnar. Síðari hlutinn felur í sér þau nýmæli að landinu verði skipt niður í 8 húsnæðisumdæmi. Í hverju húsnæðisumdæmi verði umdæmisstjórnir sem taki við hluta af verkefnum húsnæðismálastjórnar og annist einnig ný verkefni.
    Um nokkurt skeið hefur stjórnsýsluleg staða Húsnæðisstofnunar verið fremur óljós. Árið 1987 framkvæmdi Ríkisendurskoðun endurskoðun á reikningsskilum þeirra sjóða sem Húsnæðisstofnun hefur umsýslu með, en það eru Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá árinu 1988 kemur m.a. fram að vafi virðist leika á því hver sé stjórnsýsluleg staða Húsnæðisstofnunar ríkisins og lögð áhersla á að niðurstaða þurfi að fást um það hver hafi vald til að gera hvað og hver beri ábyrgðina.
    Ríkisendurskoðun telur að þær skipulagsbreytingar, sem gera þurfi, eigi að fela í sér að yfirstjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins sé alfarið á einni hendi.
    Eins og margoft hefur komið fram hér á Alþingi telja þingmenn félmrh. bera ábyrgð á framkvæmd húsnæðisstefnunnar á hverjum tíma. Þeir ráðherrar sem með húsnæðismál hafa farið hafa sætt gagnrýni fyrir framkvæmdir á þessu sviði sem umdeilanlegt er hvort voru innan valdmarka ráðherra.
    Í þeim breytingartillögum sem hér eru lagðar til er m.a. lagt til að valdmörk ráðherra og húsnæðismálastjórnar verði skýrari en verið hefur og lögð áhersla á að valdið sé hjá þeim sem ábyrgðina ber. Í frv. er jafnframt lögð áhersla á valddreifingu með því að koma á átta umdæmisstjórnum sem munu hver í sínu umdæmi hafa veruleg áhrif á húsnæðismál í sínu umdæmi. Það munu þær í fyrsta lagi gera með áætlanagerð um húsnæðisþörf og umfjöllun sinni um umsóknir um félagslegar íbúðabyggingar frá húsnæðisnefndum. Umdæmisstjórnirnar munu enn fremur móta stefnuna um uppbyggingu félagslegs íbúðarhúsnæðis í einstökum sveitarfélögum innan umdæmisins. Þá má ekki gleyma því hversu mikið þjónusta við einstaklinga og sveitarfélög mun aukast við það að komið verði á fót umdæmisskrifstofum.
    Þær tillögur, sem hér eru lagðar fram um að komið verði á fót umdæmisstjórnum og umdæmisskrifstofum í húsnæðismálum, miða fyrst og fremst að því að bæta þjónustu Húsnæðisstofnunar ríkisins við landsbyggðina og stuðla að valddreifingu í húsnæðismálum.
    Í nefnd þeirri, sem ég skipaði til að endurskoða og gera tillögur um framtíðarskipan félagslega hluta húsnæðiskerfisins og skilaði niðurstöðum sínum í febrúar á síðasta ári, kom fram að bæta þyrfti skilvirkni húsnæðislánakerfisins. Fram kom að nefndin taldi að Húsnæðisstofnun væri nú á ýmsan hátt vanbúin til að mæta þeim kröfum sem gerðar eru til lánakerfisins.

Nefndin tók sérstaklega fram að einstaklingar og sveitarfélög á landsbyggðinni eigi erfitt með að nálgast þær upplýsingar og þá ráðgjöf sem stofnunin veitir og íbúar og sveitarfélög sem nær eru eiga aðgang að. Nefndin taldi brýnt að þjónusta Húsnæðisstofnunar við landsbyggðina yrði bætt þannig að allir sætu við sama borð. Frv. þetta miðar að því. Þetta er í samræmi við þær breytingar sem verið er að gera á afgreiðslu í húsbréfakerfinu. Áætlað er að frá og með 15. apríl nk. hefjist móttaka umsókna í húsbréfakerfinu hjá bönkum og öðrum fjármálastofnunum. Við það mun þjónustan batna verulega frá því sem nú er. Umsækjendur munu ekki þurfa að leita til Reykjavíkur með hvert erindi sem þeir eiga við Húsnæðisstofnun.
    Á sl. þremur til fjórum árum hefur stóraukin áhersla verið lögð á félagslegar íbúðabyggingar. Á þriggja ára tímabili, 1988 -- 1990, voru heimiluð lán til 2076 félagslegra íbúða og almennra kaupleiguíbúða. Til samanburðar voru á öllu tímabilinu 1980 -- 1987 eða á 8 árum veitt 1764 lán til félagslegra íbúða. Þetta hefur gert það að verkum að verkefni Húsnæðisstofnunar hafa stóraukist frá því sem var.
    Vandinn í húsnæðismálum á undanförnum árum hefur ekki síst stafað af því að framboð á félagslegu íbúðarhúsnæði hefur verið of lítið. Of margar fjölskyldur hafa neyðst til að festa kaup á íbúðarhúsnæði á hinum almenna markaði án þess að hafa til þess fjárhagslega getu. Langt er í að þessi vandi hafi verið leystur þrátt fyrir mikla aukningu á félagslegu íbúðarhúsnæði. Óhjákvæmilegt er að uppbygging á félagslega íbúðakerfinu verði á næstu árum enn meiri en verið hefur. Fyrirsjáanlegt er því að Húsnæðisstofnun muni engan veginn geta annað þeirri þörf sem verður fyrir þjónustu stofnunarinnar á næstu árum.
    Á félagsíbúðadeild Húsnæðisstofnunar starfa fjórir starfsmenn og á tækniþjónustu eru 8,7 stöðugildi. Það er ekki við því að búast að svo fátt starfsfólk nái því að svara öllum fyrirspurnum um jafnviðamikil verkefni og fylgja umsóknum og afgreiðslu lána úr Byggingarsjóði verkamanna jafnframt því að afgreiða öll þau mál frá stofnuninni. Einfaldasta leiðin til að bæta þjónustu Húsnæðisstofnunar er að dreifa henni um landið eins og lagt er til í frv. þessu. Þjónustan mun án efa batna þannig að einstaklingar og sveitarfélög á landsbyggðinni munu eiga sama aðgang að upplýsingum og ráðgjöf frá umdæmisstjórnum og veitt hefur verið í Húsnæðisstofnun hingað til en sem allir hafa ekki haft jafngreiðan aðgang að.
    Samkvæmt frv. verða verkefni húsnæðismálastjórnar og Húsnæðisstofnunar fyrst og fremst yfirumsjón og eftirlit. Ég vil fyrst greina frá þeim breytingum sem lagt er til að verði á Húsnæðisstofnun og húsnæðismálastjórn. Hér er lagt til að þess sé sérstaklega getið að félmrh. fari með yfirstjórn húsnæðismála til að taka af allan vafa um stjórnsýslulegt samband félmrh. og húsnæðismálastjórnar.
    Hvað varðar hlutverk Húsnæðisstofnunar er lagt til að fellt verði brott það ákvæði í lögunum að stofnunin hafi forustu um stefnumótum í húsnæðismálum. Öll forusta um stefnumótun kemur að áliti Ríkisendurskoðunar annars vegar frá félmrh. og ríkisstjórn og hins vegar frá Alþingi. Lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins veita stofnuninni ekkert svigrúm til slíkrar stefnumótunar og því á ofangreint ákvæði ekki rétt á sér að mati Ríkisendurskoðunar.
    Í lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins er kveðið skýrt á um skiptingu hennar í deildir. Lagt er til að deildaskipting sé ekki tilgreind í lögunum heldur sé það ráðherra að ákveða hana með reglugerð um skipulag Húsnæðisstofnunar ríkisins. Þegar breytingar verða á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins þykir nauðsynlegt að geta aðlagað innra starf stofnunarinnar að breytingum hverju sinni. Með því að ákveða deildaskiptingu og annað er varðar innra fyrirkomulag stofnunarinnar í reglugerð ætti með stuttum fyrirvara að vera unnt að gera þær breytingar sem tryggja að stofnunin uppfylli þær þjónustukröfur sem gerðar eru til hennar.
    Húsnæðismálastjórn er nú skipuð tíu fulltrúum, þar af sjö kjörnum af sameinuðu þingi. Lagt er til að þeim verði fækkað í fimm og verði fjórir þeirra kjörnir af sameinuðu Alþingi en ráðherra skipi formann án tilnefningar. Fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands eigi ekki lengur sæti í stofnuninni, en hins vegar fái launþegahreyfingin tvo fulltrúa af fimm í hverri umdæmisstjórn.
Launþegahreyfingin mun því fá, samkvæmt því sem hér er lagt til, 16 fulltrúa í umdæmisstjórnir. Áhrif verkalýðshreyfingarinnar eiga því til muna að aukast á stefnuna í húsnæðismálum. Tíu manna stjórn er að mínum dómi of fjölmenn til að tryggja skilvirkni auk þess sem sú valddreifing sem hér er lögð til með umdæmisstjórnum mun minnka verulega umsvif húsnæðismálastjórnar.
    Sú nefnd, sem ég skipaði til þess að fjalla um félagslega húsnæðiskerfið og í áttu sæti m.a. fulltrúar ASÍ, BSRB og Sambands ísl. sveitarfélaga, lagði einmitt til skipan slíkra umdæmisstjórna og í skýrslu þeirrar nefndar sem var gefin út í febrúar 1990 kemur fram eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin leggur til að landinu verði skipt í sex til átta umdæmi og kosin sérstök umdæmisstjórn húsnæðismála í hverju umdæmi. Gert er ráð fyrir að ýmis verkefni sem Húsnæðisstofnun og húsnæðismálastjórn hafa nú með höndum verði færð til umdæmisstjórnanna. Þess vegna þykir eðlilegt að fækka stjórnarmönnum í húsnæðismálastjórn.``
    Hér er því um að ræða að hluta til tillögur nefndar sem ég skipaði á sínum tíma og í áttu sæti fulltrúar ASÍ, BSRB og Sambands ísl. sveitarfélaga.
    Þá er lagt til að í stað þess að framkvæmdastjóri húsnæðismálastjórnar sé æviráðinn verði hann skipaður til sex ára í senn. Tillaga þessi raskar þó ekki stöðu núverandi framkvæmdastjóra þar sem hún er ekki afturvirk.
    Rekstrarkostnaður Húsnæðisstofnunar ríkisins er verulegur enda mikil umsvif hjá stofnuninni. Til að draga úr þeim kostnaði fyrir ríkissjóð er lagt til að kostnaður við tæknileg málefni stofnunarinnar og þjónusta við lántakendur verði borin uppi af sölu á þjónustu stofnunarinnar.
    Lagt er til að í fjárhagsáætlun stofnunarinnar verði mun nánari sundurliðun en nú tíðkast. Áætlun rekstrarkostnaðar verði sundurliðuð og að í fjárhagsáætlun komi fram fyrirhuguð skipting ráðstöfunarfjár milli útlánaflokka og meginsjónarmið um ráðstöfun þess. Fjárhagsáætlun verði lögð fyrir ráðuneytið fyrir 1. apríl ár hvert fyrir næsta ár á eftir. Með þessu á að vera unnt að tryggja til muna samband húsnæðismálastjórnar og ráðuneytis og á það að gera félmrh. unnt að sinna þeirri yfirstjórn sem ætlast er til.
    Ekki hefur til þessa verið sérstaklega kveðið á um upplýsingaskyldu húsnæðismálastjórnar í lögum. Lagt er til nú að kveðið verði á um skyldu hennar til að koma á framfæri upplýsingum um hlutverk og störf Húsnæðisstofnunar.
    Eins og áður getur er síðan lagt til að landinu verði skipt í átta húsnæðisumdæmi sem fylgja kjördæmaskiptingunni að undanskildu höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Umdæmin eru, eins og lagt er til í þessu frv.: Höfuðborgarsvæðið, Vesturlandsumdæmi, Vestfjarðaumdæmi, Norðurlandsumdæmi vestra, Norðurlandsumdæmi eystra, Austurlandsumdæmi, Suðurlandsumdæmi og Suðurnesjaumdæmi.
    Nauðsynlegt er talið að sérstök umdæmisstjórn verði fyrir höfuðborgarsvæðið þrátt fyrir nálægð húsnæðismálastjórnar við það svæði. Skýr verkskipting verður að vera á milli húsnæðismálastjórnar og umdæmisstjórnar. Umdæmisskrifstofur verði í öllum umdæmum en hins vegar er ekki óeðlilegt að umdæmisskrifstofa höfuðborgarsvæðisins yrði í húsnæði Húsnæðisstofnunar og samnýti þá aðstöðu sem þar er. Slíkt yrði að sjálfsögðu ákvörðunaratriði umdæmisstjórnar höfuðborgarsvæðis og húsnæðismálastjórnar.
    Kveðið er á um að skipaðar verði fimm manna umdæmisstjórnir húsnæðismála í hverju umdæmi sem félmrh. skipar að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Tveir skulu tilnefndir af landshlutasamtökum sveitarfélaga, tveir af ASÍ og BSRB, en einn skipaður af ráðherra eftir tilnefningu húsnæðismálastjórnar. Umdæmisstjórnir munu fara með verkefni í umboði húsnæðismálastjórnar í hverju umdæmi fyrir sig. Þau verða annars vegar á sviði félagslega hluta húsnæðislánakerfisins og hins vegar ýmis önnur verkefni er varða áætlanagerð og upplýsingamiðlun. Nánar tilgreind eru verkefnin eftirfarandi samkvæmt frv.:
    1. Áætlunargerð um byggingarþörf.
    2. Móttaka umsókna sveitarfélaga um byggingu félagslegra íbúða.
    3. Tillögugerð til húsnæðismálastjórnar um heildarlánsfé vegna félagslegra íbúða.
    4. Að annast lánveitingar til sveitarfélaga eða annarra framkvæmdaaðila félagslegra íbúða.
    5. Að afla upplýsinga um stöðu og horfur í húsnæðismálum.
    6. Kostnaðareftirlit og úttektir á félagslegum íbúðum.
    7. Ráðgjöf og fræðsla um lána - og húsnæðismál almennt til einstaklinga, sveitarfélaga og félagasamtaka.
    Umdæmisstjórnum verði heimilt að ráða starfsmann eða starfsmenn að fengnu samþykki húsnæðismálastjórnar. Laun þeirra starfsmanna skulu greidd af Húsnæðisstofnun. Kostnaður af rekstri umdæmisstjórnar og umdæmisskrifstofu skal greiddur af landshlutasamtökum sveitarfélaga og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga er heimilað að greiða framlag til landshlutasamtakanna á móti þessum útgjöldum samkvæmt reglum sem ráðherra staðfestir.
    Þar sem þjónustan flyst frá Húsnæðisstofnun til umdæmisstjórna er eðlilegt að störfum á Húsnæðisstofnun fækki og ætti því ekki að verða um að ræða aukin rekstrarútgjöld ríkisins, auk þess sem lagt er til að þjónusta Húsnæðisstofnunar verði kostuð að mestu leyti af þeim sem njóta hennar.
    Lögð er til breyting á 70. gr. laganna. Er kveðið á um að sveitarstjórn eða framkvæmdaraðili skuli tilkynna umdæmisstjórn ákvörðun sína um að sækja um lán úr Byggingarsjóði verkamanna.
    Nú tilkynna þessir aðilar þetta til Húsnæðisstofnunar. Kveðið er á um í frv. að umsóknir sveitarfélaga eða annarra framkvæmdaaðila skuli berast umdæmisstjórnum fyrir 1. sept. ár hvert og tillögur umdæmisstjórnar þurfa að berast húsnæðismálastjórn fyrir 1. nóv. ár hvert.
    Kveðið er á um það að húsnæðismálastjórn ákveði skiptingu ráðstöfunarfjár Byggingarsjóðs verkamanna til einstakra umdæma --- hér er um veigamikla breytingu að ræða --- en að umdæmisstjórnir úthluti síðan lánunum til sveitarstjórna og annarra framkvæmdaraðila.
    Þá er fjallað um upphaf byggingarframkvæmda. Umdæmisstjórn skal tilkynna húsnæðismálastjórn ákvörðun um lánveitingu til sveitarstjórnar eða annars framkvæmdaraðila telji umdæmisstjórnin að skilyrðum laga sé fullnægt. Húsnæðisstofnun hefur tilkynnt sveitarstjórnum og öðrum framkvæmdaraðilum þetta hingað til.
    Lagt er til að kostnaðareftirlit verði í höndum umdæmisstjórna undir yfirstjórn húsnæðismálastjórnar. Húsnæðisstofnun hefur haft allt eftirlit með höndum til þessa.
    Gerð er breyting á 77. gr. þar sem umdæmisstjórn er ætlað að staðfesta lok framkvæmda og byggingarkostnað með úttekt sinni í stað Húsnæðisstofnunar.
    85. gr. er breytt á þann veg að tekið er fram að umdæmisstjórn skuli staðfesta byggingarkostnaðinn með úttekt sinni í stað Húsnæðisstofnunar áður.
    Lögð er til breyting á 102. gr. þannig að umdæmisstjórn skal í stað Húsnæðisstofnunar staðfesta útreikninga á söluverði félagslegra íbúða. Húsnæðismálastjórn skal skera úr um ágreining sem kann að koma upp.
    Þá er lagt til að 109. og 110. gr. laganna verði felldar brott sem hefur það í för með sér að ekki verður lengur í lögum kveðið á um sérstaka tækni - og þjónustudeild. Eins og kemur fram í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir að deildaskiptingin verði ákveðin í reglugerð og þar nánar skilgreint verksvið deilda.
    Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir helstu atriði þessa frv. sem fela í sér veigamiklar breytingar á

stjórnsýslulegri stöðu Húsnæðisstofnunar og stofnun umdæmisskrifstofa og umdæmisstjórna um land allt til þess að auka þjónustu í húsnæðismálum við landsbyggðina og stuðla að aukinni valddreifingu í því efni.
    Ég vil svo leggja til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.