Húsnæðisstofnun ríkisins
Miðvikudaginn 20. febrúar 1991


     Þorv. Garðar Kristjánsson :
    Hæstv. forseti. Hér er um að ræða frv. sem fjallar um skipulag Húsnæðisstofnunar ríkisins og æðstu stjórn húsnæðismála. Það verður því ekki undan því vikist að fjalla nokkuð um húsnæðismálin í víðara samhengi. Húsnæðiskerfið sem búið hefur verið við er að stofni til frá 1953. Þá var sett á fót hið almenna veðlánakerfi og húsnæðismálastjórn sem var undanfari Byggingarsjóðs ríkisins og Húsnæðismálastofnunar ríkisins. Þetta markaði tímamót í lánveitingum til húsbygginga.
    Hin fyrstu skref voru tekin af varúð og gætni. En mjór er mikils vísir. Íbúðalánakerfið var smám saman aukið og eflt til þess að það gæti sem best náð tilgangi sínum. Markmiðið var að gera fólki kleift að koma sér upp þaki yfir höfuðið af almennum launatekjum. Einungis með þeim hætti gat séreignastefnan í húsnæðismálum haft raunhæft gildi. Að því marki sem almenningur hafði ekki efni á að eignast eigin íbúðir hlutu félagslegar ráðstafanir að koma til því að íbúðarþörfinni varð að sinna með einhverju móti.
    Uppbyggingu hins almenna íbúðalánakerfis voru takmörk sett. Ferðinni hlaut að ráða það fjármagn sem til reiðu var. Það var ekki hægt að ætla lánakerfinu meiri verkefni en fjárhagurinn leyfði. Þess vegna var verkefnunum haldið innan þeirra marka sem nauðsyn krafði til þess að kerfið gæti staðist. Þetta var gert með því móti að lánin voru bundin við þá sem byggðu íbúð í fyrsta sinn og innan ákveðinna stærðarmarka. Með þessu móti voru lánveitingar takmarkaðar við þá sem ekki áttu íbúðir fyrir og ekki voru þeim efnum búnir að geta ætlað sér stærri íbúðir en lánað var út á.
    Þannig var sinnt hinum breiða fjölda húsbyggjenda, þeim sem mest reið á hagkvæmum íbúðarlánum og þannig tryggðar nauðsynlegar nýbyggingar til að fullnægja íbúðarþörf þjóðarinnar, jafnframt því sem þetta var grundvöllur þess að viðhaldið yrði sjálfseignarstefnunni í húsnæðismálunum.
    Með þessum hætti var komið á því öryggi í húsnæðismálunum að þeir sem fullnægðu skilyrðum gátu reiknað með að fá lán og þeir sem fengu lán gátu reiknað með að fá það útborgað án þess að standa í biðröð. Þá þekktist ekki það öngþveiti sem nú ríkir og verið hefur um langt skeið. En þetta íbúðarkerfi, sem búið var að koma á fót, var ekki fullkomið. Kom þar ýmislegt til. Íbúðarlánin voru ekki nægilega há, ekki nógu stór hluti af byggingarkostnaði. Þau voru ekki til nægilega langs tíma, lánstíminn of stuttur. Þau voru ekki með nægilega hagkvæmum kjörum, vextirnir of háir. Viðfangsefnið var því að hækka lánin, lengja lánstímann og lækka vextina. Þetta voru forgangsverkefnin. Að þessu var unnið eftir því sem efni stóðu til. Lánin voru hækkuð, lánstíminn lengdur og kjörin bætt.
    En grundvöllurinn fyrir þessari þróun var fjárhagur lánakerfisins, ráðstöfunarfé þess. Þess vegna var það alltaf höfuðatriðið að styrkja kerfið fjárhagslega, efla grundvöll þess. Þannig varð til skyldusparnaður ungs

fólks til að auka ráðstöfunarfé kerfisins og launaskatturinn sem lögfestur var til að auka eigið fé Byggingarsjóðs ríkisins. Með þessu móti var þess gætt að verkefni þau sem lögð voru á kerfið færu ekki fram úr fjárhagslegri getu þess. Þetta var á sinni tíð svo sjálfsagt að ekkert annað þótti koma til mála. Menn voru sér meðvitandi að allt annað kæmi lánakerfinu í koll til ómetanlegs skaða öllum þeim sem á það treystu.
    Þannig var lengi vel haldið á húsnæðismálunum. Lánakerfið var smám saman endurbætt og eflt eftir því sem efni leyfðu. Það var víðtæk samstaða um þessa stefnu sem fylgt var. Allir stjórnmálaflokkarnir áttu hér hlut að máli. Þannig var fram haldið fyrstu tvo áratugi sem lánakerfið var við lýði. En upp úr 1970 fór að bera á því að menn yrðu andvaralausir um grundvallarþýðingu þess að lánakerfið hefði fjárhagslega getu til að sinna þeim verkefnum sem því yrðu fengin. En í þessu efni kastar samt ekki tólfunum fyrr en 1980 og síðan hefur verið óslitinn hrakfallabálkur. --- Asninn var kominn í herbúðirnar. Og í hverju voru asnaspörkin fólgin?
    Byggingarsjóði ríkisins voru fengin ný og aukin verkefni án þess að honum væri séð fyrir fjármagni til að standa undir hlutverki sínu. Þvert á móti var fjárhagsleg undirstaða sjóðsins veikt. Af þessu er slík saga að með miklum ólíkindum er. Í stað þess að lána aðeins til þess sem var að byggja í fyrsta sinn íbúð af takmarkaðri stærð var nú öllum lánað, út á allar íbúðir. Af nýjum verkefnum sem auk þess var hlaðið á sjóðinn má nefna: Kaup á eldri íbúðum, lán til byggingar íbúða eða heimila fyrir aldraða og dagvistarstofnanir fyrir börn og aldraða, lán til meiri háttar viðbygginga, endurbóta og endurnýjunar á eldra húsnæði, sérstök viðbótarlán til einstaklinga með sérþarfir, lán til orkusparandi breytinga á húsnæði, lán til tækninýjunga í byggingariðnaði --- og er þá ekki allt til talið.
    Hver getur haft á móti því að þessum verkefnum sé sinnt? Ég ætla enginn. Spurningin er aðeins með hverjum hætti skuli séð fyrir þeim þörfum sem hér er um að ræða. Það er hins vegar engin spurning hvaða áhrif það hefur haft að leggja þá kvöð á Byggingarsjóðinn að svara þessum þörfum án þess að sjá honum fyrir fjármagni til að standa undir því. Það má með sanni segja með tilliti til Byggingarsjóðsins í þessu efni að vegurinn til vítis er varðaður fögrum fyrirheitum.
    En ábyrgðarleysið í húsnæðismálunum hefur ekki riðið við einteyming. Nóg var nú komið þó að ekki þyrfti á sama tíma að koma til þess að Byggingarsjóðurinn væri sviptur þeim mikilvæga tekjustofni sem launaskatturinn gaf. Breytir þar engu þó að lofað væri í staðinn framlagi af fjárlögum hvers árs. Verður ekki saman jafnað reikulu ráði fjármálaráðherra hvers tíma við fastan tekjustofn sem launaskatturinn var, enda hefur reynslan sýnt sig.
    Það er svo kapítuli út af fyrir sig að byggja ráðstöfunarfé ríkisins mest á lánsfé frá lífeyrissjóðunum með þeim vaxtamismun Byggingarsjóðnum í óhag sem

fær með engu móti staðist. Það var því að bíta höfuðið af skömminni að leggja skyldur á Byggingarsjóðinn sem ekki er hægt að standa undir nema með lánsfjármagni sem reyndist gjörsamlega gera út af við fjárhagslegan grundvöll sjóðsins.
    Hvernig má þetta allt saman ske? Er einhver skýring á feigðargöngu húsnæðismálanna? Ef þetta er ekki óskýranlegt er helst að leita að hinstu rökum, annars vegar í séreðli húsnæðismálanna og hins vegar í leyndardómum manneðlisins.
    Húsnæðismálin eru að ýmsu leyti sérstaks eðlis. Þau snerta persónulega hagi mannsins meira en flest önnur mál. Húsnæði er ekki einungis nauðsynlegt. Það getur haft afgerandi áhrif á það sem varðar mestu fyrir gæfu mannsins, svo sem hjónaband, heimilislíf og heilbrigði. Fá mál eru því viðkvæmari en einmitt húsnæðismálin. Þau geta þess vegna höfðað meira til tilfinninga, réttlætis og siðgæðis en önnur mál. Hver hefur ekki samúð með manni sem er í nauðum staddur vegna húsnæðisvanda? Hver vill ekki koma til hjálpar í slíkum nauðum? Ekkert er líka jafnþakksamlega þegið og að láta gott af sér leiða í húsnæðismálunum. Það er vinsælt. Það er til að efla fylgi stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna. Ekkert er óeðlilegt við þetta í sjálfu sér. Hver á að uppskera svo sem hann hefur sáð. Hins vegar má ekki þjónustuköllunin við málstaðinn bera ofurliði ábyrgðartilfinningu og fyrirhyggju svo það sem unnið er sé unnið fyrir gýg eða geri illt verra. Freistingin til fylgisaukningar eða vinsældar má ekki verða svo mikil að menn sjáist ekki fyrir. En ekki verður betur séð en það sé einmitt þetta sem hefur skeð. Menn hafa ekki sést fyrir í góðverkunum sem þeir vildu gera. Saga húsnæðismálanna á undanförnum árum verður naumast skýrð á annan veg.
    Margt er athyglisvert þegar þessi saga er skoðuð. En ætli það sé ekki einkennilegast við þetta allt saman hve rík tilhneigingin hefur verið til að leggja undir almenna íbúðarlánakerfið og Byggingarsjóð ríkisins verkefni sem ætla mátti að betur ættu heima á öðrum vettvangi? Það er rétt eins og það hafi ekki verið gert ráð fyrir almennri bankastarfsemi í landinu eða frjálsum peningamarkaði. Gleggsta dæmið um þetta, og það langþýðingarmesta, er sú ráðstöfun að Byggingarsjóður ríkisins veiti lán til eldri íbúða. Þetta kom eins og skollinn úr sauðarleggnum á þann megintilgang húsnæðislöggjafarinnar að tryggja nauðsynlegar nýbyggingar til að fullnægja íbúðarþörfinni og gera séreignastefnuna í húsnæðismálum mögulega í framkvæmd.
    Í staðinn fyrir að efla Byggingarsjóðinn til að ná þessum grundvallartilgangi sínum hefur ráðstöfun á fjármagni sjóðsins til lána út á eldri íbúðir gert meira en nokkuð annað til að eyðileggja sjóðinn til þess sem hann var upphaflega ætlaður. Sama má segja um önnur þau verkefni sem hlaðið hefur verið á íbúðarlánakerfið þó að áhrif þeirra hvers og eins hafi vegið minna en lánin út á eldri íbúðir.
    Það er einkennandi hve mikil samstaða hefur verið milli stjórnmálaflokkanna í húsnæðismálunum. Þessi samstaða var eindregin framan af árum almenna íbúðarlánakerfisins og Byggingarsjóðs ríkisins og sama má

segja eftir að halla tók undan fæti. Hér er ekki átt við einstök ágreiningsatriði, sem alltaf er deilt um, heldur meginatriði sem valda þeirri þróun sem orðið hefur. Hér er átt við það meginatriði að hlaða verkefnum á Byggingarsjóð ríkisins án þess að sjá fyrir fjármagni til þess. Hér er átt við þær aðgerðir sem hafa komið Byggingarsjóðnum í rúst.
    Það er ljót sagan af húsnæðismálunum. Sárast kemur hún við þá sem sviknir hafa verið með einum eða öðrum hætti um loforð og væntingar sem hið opinbera lánakerfi hefur gefið. Þetta snertir á einn eða annan veg hverja fjölskyldu í landinu. Ástandið hefur verið óviðunandi fyrir þjóðina í heild og til skammar. Ábyrgðina bera þeir sem hafa stjórnað. Um þetta eiga stjórnmálaflokkarnir óskipt mál. Í raun og sannleika hafa þeir keppst um að hlaða verkefnum á Byggingarsjóðinn. Sá hefur þóst bestur sem lengst hefur gengið í ábyrgðarlausum yfirboðum af þessu tagi.
    Ég geri ekki upp á milli stjórnmálaflokkanna í þessu efni. Ég mæli þetta ekki í ádeilu á einn fremur en annan. Allir eru samsekir. Það sem hefur skeð eru ein mestu mistök í stjórnun opinberra mála sem átt hafa sér stað, a.m.k. hin síðari ár. Meðferð húsnæðismálanna er hneyksli hvernig sem á það er litið. Þjóðin í heild geldur fyrir syndir landsfeðranna. Það er eftir að bíta úr nálinni fyrir þann skaða sem valdið hefur verið. Þetta eru stór orð sem ég viðhef. Þó eru þau ekki nógu stór. Það eru ekki til nógu stór orð yfir þetta athæfi. Látum því staðreyndirnar tala sínu máli.
    Í september sl. kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar um fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Sú skýrsla er nú vel kunn enda verið mikið í umræðu fjölmiðla. Þar segir að þó að útlánastarfsemi byggingarsjóðanna væri hætt nú þegar yrði ekki komið í veg fyrir að eigið fé Byggingarsjóðs ríkisins gengi til þurrðar eftir 15 ár eða á árinu 2005 og eigið fé Byggingarsjóðs verkamanna eftir 11 ár eða á árinu 2001. Eftir sem áður mun sjóðina skorta verulegt fé á þessu tímabili til þess að standa undir skuldbindingum sem þá mundu hvíla á þeim. Hætti sjóðirnir strax útlánastarfsemi sinni, jafnframt því sem framlög ríkisins féllu niður, þyrfti í árslok árið 2028 að leggja sjóðunum til 62 milljarða kr. til þess að gera upp skuldir þeirra við lánardrottna.
    Þá segir einnig í skýrslu þessari að haldi sjóðirnir áfram starfsemi sinni óbreyttri frá því sem nú er til ársloka 2028, jafnframt því sem framlög A-hluta ríkissjóðs haldist óbreytt frá því sem þau eru í ár eða á síðasta ári og þörf sjóðanna fyrir lánsfé verði svarað allan tímann, þá mundi vanta 400 milljarða kr. til að sjóðirnir gætu gert upp að fullu við lánardrottna sína í árslok 2028. En fjárhæð þessi jafngildir fjórföldum tekjum A-hluta ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum ársins 1991.
    Það þarf ekki að rekja frekar skýrslu Ríkisendurskoðunar til þess að sjá að búið er að gera húsnæðiskerfið gjaldþrota og rústirnar blasa við. Spurningin er ekki hvernig ástandið sé nú heldur hvað nú sé til ráða.

    Með tilliti til þessa hefði mátt ætla að við stæðum nú frammi fyrir því að ræða stjórnarfrumvarp um Húsnæðisstofnun ríkisins þar sem tekið væri á hinum raunverulega vanda sem við er að fást í húsnæðismálunum. Það er komið að skuldadögunum. Það verður að gera upp þrotabú lánakerfisins og ákveða hvað við á að taka. Enn hefur ástand húsnæðismálanna, nú sem fyrr, grundvallarþýðingu fyrir lífshamingju og heilbrigði þjóðarinnar.
    Það er ekki nægilegt að setja á stofn húsbréfakerfið og starfrækja það eftir því sem reynslan sýnir að henti best. Húsbréfaviðskiptin taka ekki til allra lánaflokka Byggingarsjóðs ríkisins. Það verður ekki gengið fram hjá því að taka húsnæðismálin til endurskoðunar í heildarsamhengi. Þetta frv. sem hér er til meðferðar fjallar ekki um slíkt. Það gerir ekki tillögur til úrlausnar hinum raunverulega vanda. Það ræðst ekki að rótum vandans. Því fer ég hér ekki út í þá sálma sem ætti að vera aðalatriðið í umræðum um húsnæðismálin í dag. Hins vegar fjallar þetta frv. sem hér er á dagskrá um hrein aukaatriði. Ég endurtek: Hrein aukaatriði samanborið við grundvallarvandann sem við er að glíma í dag í húsnæðismálunum.
    Ég verð að viðurkenna að mér hefur ekki unnist tími til að fara vandlega yfir frv., athugasemdir við greinar þess og greinargerð. Hins vegar hef ég þó litið það á þetta plagg, þetta frv., svo mikið að ég leyfi mér að lýsa nú strax miklum efasemdum um margt sem í þessu frv. er að finna.
    Þetta frv. gerir tillögur um breytingu á kosningu og skipun húsnæðismálastjórnar og fjölda stjórnarmanna. Ég er samþykkur þessu ákvæði. Ég tel að þetta sé sjálfsagt og mæli sannarlega með því. Ég kemst þó ekki hjá því að láta þess getið að mér finnst engin ástæða til þess að allir stjórnarmenn Húsnæðisstofnunar ríkisins séu ekki kosnir af Alþingi, þ.e. allir fimm, þó að frv. geri ráð fyrir að ráðherra skipi einn án tilnefningar og hann sé formaður. Það eru færð þau rök fyrir þessu að með því sé tryggt að ráðherra, hver sem hann er, hafi sem formann húsnæðismálastjórnar mann sem hann óskar að bera ábyrgð á og vill hafa í þessu starfi. Mér sýnist ekki betur en það sé fullkomin mótsögn í þessu vegna þess að þó að allir stjórnarmenn Húsnæðisstofnunar væru kosnir af Alþingi er tekið fram að það eigi að kjósa þá að loknum almennum kosningum. Með því móti getur ráðherra alltaf haft það í hendi sinni hver verður formaður húsnæðismálastjórnar. Þetta er nú ekki stórt atriði í sjálfu sér.
    Ég skal ekki fara hér orðum um það sem þetta frv. felur í sér varðandi skilgreiningar á hlutverki ráðherra og húsnæðismálastjórnar og verkaskiptingu á sviði húsnæðismála. Ég leyfi mér að koma til hugar að það sé nú ekki veigamikið atriði og skipti ekki sköpum um stöðu húsnæðismálanna hvort heldur að það sé látið standa sem nú gildir í þessum efnum eða þó að breytt verði að tillögu þessa frv.
    Þá er ákvæði um að það séu gerðar meiri kröfur til fjárhagsáætlana Húsnæðisstofnunar ríkisins samkvæmt þessu frv., ef að lögum verður. Já, það kann að vera

en ég hefði nú látið mér detta í hug að það þyrfti ekki að breyta lögum til þess að ná slíkum tilgangi.
    En ég geri alveg ráð fyrir því að sumt í þessu frv. sé til bóta og ég er búinn að tala um í því sambandi breytingu á stjórnarkjörinu í húsnæðismálastjórn.
    En svo er annað sem ég tel svo vafasamt að mig í raun og veru furðar á því að það skuli koma fram tillaga um það. Og þá á ég sérstaklega við að frv. gerir ráð fyrir að landinu verði skipt í átta húsnæðissvæði eftir kjördæmum og að það verði komið á fót kjördæmisstjórn í húsnæðismálunum í öllum kjördæmum.
    Það var kostur að fækka í húsnæðismálastjórn, eins og ég var búinn að koma að áður, úr tíu í fimm. Það var kostur. En að fjölga húsnæðismálastjórnarmönnum og stjórnarmönnum í þessum kjördæmissamtökum úr tíu í fjörutíu og fimm, það þykir mér ekki til bóta.
Og ég held, og vil raunar varla trúa því að þessi fjarstæða verði nokkurn tímann lögfest. (Gripið fram í.) Auka þjónustuna við landsbyggðina. Það er gott og það er sérstaklega gott að hafa það í huga þegar þjónustan við landsbyggðina í húsnæðismálunum er þannig að það er í stórum landshlutum og stærstum hlutum landsins utan þéttbýlissvæðanna hér á suðvestursvæðinu þar sem þykir til tíðinda draga ef það er byggt nýtt hús. Það er ekki þessi þjónusta sýndarmennskunnar sem skiptir máli fyrir landsbyggðina. Það er allt annað og ég veit að hæstv. ráðherra er mér sammála um það. En það gæti verið að einhver á landsbyggðinni léti sér detta í hug að þetta væri framför og til bóta, en ég leyfi mér að efast um það, ég held að menn séu það raunsæir.
    Það er talað um það einhvers staðar í þessari greinargerð að með þessu geti menn komist hjá því að þurfa að ferðast til þess að koma á héraðsskrifstofu húsnæðismálastjórnar. Það er rétt eins og fólk í hverju kjördæmi fyrir sig sé allt staðsett á einum punkti og það þurfi ekki að ferðast til þess að komast á þessa skrifstofu. Það er oft miklu auðveldara fyrir menn úr hvaða kjördæmi sem er að fara í höfuðstöðvar húsnæðismálastjórnar í Reykjavík heldur en að fara á einhvern tiltekinn stað í kjördæminu. Þannig að það eru nú ýmsar hliðar á þessu máli.
    En auðvitað á landsbyggðin að fá sem besta þjónustu. En hún liggur í því að hafa sem virkast lánakerfi. Það er númer eitt, númer tvö og númer þrjú í þessu efni. Og það er oft og tíðum ekki betra skipulag að fjölga milliliðum milli fólksins í landinu og þeirrar stofnunar sem fer með æðsta vald á hverju sviði.
    Ég sagði að ég hefði ekki farið nákvæmlega yfir frumvarpið og greinargerð þess. Það var lagt fram í gær, það hefði verið betra að hafa lengri tíma til þess að kynna sér málið. En af því sem ég hef orðið vísari við að líta á frv. og greinargerðina, þá sýnist mér að þar sé jafnvel flest ekki til bóta í þessu frv. heldur þvert á móti.
    En ég ætla ekki að ræða einstakar greinar frv. nú, ég ætla að geyma mér að gera það ef þessu frv. verður hugað líf og það kemur úr nefnd aftur hér í hv. deild, en ég leyfi mér að efast um að við eigum eftir að sjá það.