Listamannalaun
Miðvikudaginn 20. febrúar 1991


     Frsm. meiri hl. menntmn. (Ragnar Arnalds) :
    Herra forseti. Það frv. til laga um listamannalaun sem hér er til umræðu felur í sér margar mikilvægar breytingar frá núverandi kerfi listamannalauna.
    Á árinu 1989 voru veitt listamannalaun og starfslaun úr Launasjóði rithöfunda af sérstakri fjárveitingu sem kennd var við starfslaun, samtals 764 mánaðarlaun, eða 64 árslaun, alls um 45 millj. kr. Auk þess hafa verið veitt heiðurslaun til listamanna sem nema á árinu 1991 14,4 millj. til 18 listamanna.
    Samkvæmt því frv. sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að auk heiðurslauna verði starfslaun til listamanna samanlagt 840 mánaðarlaun og bætast 60 mánaðarlaun við á ári næstu fimm árin.
    Hv. menntmn. Nd. hefur fjallað ítarlega um þetta frv. og fengið um það fjöldamargar umsagnir, auk þess sem nefndin ræddi við forseta og varaforseta Bandalags íslenskra listamanna, Brynju Benediktsdóttur og Hjálmar H. Ragnarsson.
    Ein helsta breytingin, sem nefndin leggur til að gerð verði á frv., er að starfslaunin aukist frá því sem frv. gerir ráð fyrir, úr 840 mánaðarlaunum, sem ég nefndi hér áðan, í 900 mánaðarlaun, eða samtals 75 árslaun.
    Önnur helstu ákvæði frv. eru þau að sett er upp sérstök stjórn listamannalauna sem hefur yfirumsjón með kerfi listamannalauna. Þrír sérgreindir sjóðir verða starfandi, þ.e. Launasjóður rithöfunda, Tónskáldasjóður og Starfslaunasjóður myndlistarmanna en auk þess almennur sjóður sem ber heitið Listasjóður.
    Starfslaun verða nú miðuð við lektorslaun við Háskóla Íslands í staðinn fyrir að miðað hefur verið við laun framhaldsskólakennara og listamenn sem njóta starfslauna munu eiga kost á aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og stendur þá launagreiðandi skil á iðgjaldshluta þeirra ásamt mótframlagi sínu.
    Í frv. var gert ráð fyrir því að sett yrði ákvæði um heiðurslaun listamanna á þann veg að nýir heiðurslaunahafar skuli hafa náð 65 ára aldri. Það var niðurstaða nefndarinnar að þetta frv. ætti ekki að hreyfa við heiðurslaunakerfinu á einn eða neinn hátt og því er það tillaga nefndarmanna, sem ég hygg að sé eining um, að 2. gr. falli niður.
    Eins og ég gat um áðan er frv. þannig upp byggt að gert er ráð fyrir þremur sérgreindum sjóðum en Listasjóður er almennur sjóður í þágu allra listgreina.
    Í ákvæðum um Listasjóð var gert ráð fyrir því að hann veitti verkefnastyrki, náms- og ferðastyrki og jafnframt sérstök framlög til listamanna, m.a. til þeirra sem hafa notið listamannalauna undanfarin ár og náð hafa 60 ára aldri. Umræður í nefndinni hafa mjög snúist um verkefni Listasjóðs. Er óhætt að segja að nefndin hafi verið sammála um að sá sjóður væri of þröngur miðað við verkefni sín og því gerir meiri hl. menntmn., sem ég mæli hér fyrir, það að tillögu sinni að Listasjóður veiti ekki náms- og ferðastyrki til allra listamannahópanna heldur verði það verkefni hvers sjóðs fyrir sig. Þannig skapast auðvitað aukið svigrúm í Listasjóði.

    Í öðru lagi gerir meiri hl. menntmn. tillögu um að Listasjóður sé aukinn úr 180 mánaðarlaunum í 240 mánaðarlaun. Þannig eykst heildarupphæð starfslauna, eins og ég nefndi hér áður, úr 840 mánaðarlaunum í 900 mánaðarlaun.
    Þegar á það er litið hverjir það eru sem einkum munu njóta styrkja úr Listasjóði er að sjálfsögðu ljóst að það eru fyrst og fremst þeir hópar sem ekki tilheyra hinum sérgreindu sjóðum sem ætlaðir eru rithöfundum, myndlistarmönnum og tónskáldum. Það þótti rétt við samningu frv. að ætla þessum hópum sérstaka fyrirgreiðslu með sérgreindum sjóðum vegna þess að þessir hópar eiga þess síst kost að vinna að list sinni í fastlaunuðu starfi. En hverjir eru það þá sem fyrst og fremst mundu sækja um starfslaun í Listasjóð? Jú, það mundu einkum og sér í lagi vera leikhúslistafólk hvers konar og einnig
túlkendur lista, flytjendur tónverka og að sjálfsögðu allir aðrir listamenn sem ekki falla undir það að vera annaðhvort rithöfundar, myndlistarmenn eða tónskáld.
    Í ýmsum umsögnum sem bárust nefndinni, einkum frá leikhúslistafólki, voru óskir uppi um það að sérstakur sjóður yrði stofnaður í þágu þess þannig að sjóðunum yrði fjölgað. Á þetta gat meiri hl. nefndarinnar ekki fallist vegna þess að okkur virtist að það væri þörf á einum almennum sjóði og að það væri ekki til bóta að fara að skipta öllum listamönnum upp í tilgreinda hópa. Það yrði of flókið mál og Listasjóðurinn ætti að geta gegnt sínu hlutverki í þágu leikhúslistafólks alveg eins þó að sjóðurinn væri ekki sérstaklega kenndur við þann hóp. Ég get því alls ekki fallist á það að leikhúslistafólk sé með einum eða öðrum hætti sett til hliðar þó að ekki sé stofnaður sérgreindur sjóður í þágu þess. Þvert á móti er auðvitað ljóst að Listasjóðurinn mun sérstaklega gegna því hlutverki að sinna þörfum þess, en hann er að vísu almennur sjóður og hefur fleiri skyldum að gegna.
    Til þess að koma til móts við þau sjónarmið að meira þyrfti að gera fyrir leikhúslistafólk, þá var ákveðið af þeim sem skipa meiri hl. menntmn. að bæta við úthlutunarfé Listasjóðs, eins og ég hef þegar gert grein fyrir, og hann stækkar því verulega frá því sem frv. gerði ráð fyrir. Auk þess gerir meiri hl. nefndarinnar ráð fyrir því að helmingur af starfslaunum úr Listasjóði gangi til leikhúslistafólks því að í lok 8. brtt. við 10. gr. frv. er bætt inn setningunni: Að minnsta kosti helmingur starfslauna úr Listasjóði skal veittur leikhúslistamönnum. Að sjálfsögðu er ekki alveg gott að átta sig á því hversu há þessi upphæð er vegna þess að sjóðurinn hefur líka því verkefni að sinna að veita sérstök framlög til listamanna sem notið hafa listamannalauna undanfarin ár og náð hafa 60 ára aldri, en ég hygg að það sé ekki fjarri lagi að í kringum 90 mánaðarlaun gangi til leikhúslistafólks skv. þessu ákvæði.
    Í nál. meiri hl. nefndarinnar er gerð tilraun til að skilgreina hverjir falli undir þetta heiti, leikhúslistamenn. Er þar sagt að það sé átt við alla þá sem semja eða flytja leikhúsverk og vinna hvers konar önnur listræn störf við uppfærslu danssýninga, leik - og

söngverka. Um þetta atriði varð hins vegar ágreiningur í nefndinni og má segja að þrjú sjónarmið hafi komið fram í þeim tillögum sem fyrir liggja. Í fyrsta lagi þetta sjónarmið meiri hl. menntmn. sem ég nú hef gert grein fyrir. Í öðru lagi sjónarmið 1. minni hl. nefndarinnar sem leggur til að stofnaður sé sérstakur sjóður í þágu leiklistarfólks með 120 mánaðarlaunum. Og svo í þriðja lagi sjónarmið Ragnhildar Helgadóttur og Sólveigar Pétursdóttur, sem skipa meiri hl. menntmn. og skrifa undir nál. meiri hl., en flytja brtt. um þetta atriði þar sem segir: ,,Listasjóður veitir starfslaun og verkefnastyrki til sviðslistamanna og annarra túlkandi listamanna.`` Skil ég það svo að í þeirri tillögu felist að flytjendur tillögunnar vilji ekki binda ákveðinn hluta Listasjóðs við leikhúslistafólk, en hins vegar sé það skýrt tekið fram að Listasjóðurinn sé fyrst og fremst ætlaður fyrir sviðslistamenn og aðra túlkandi listamenn.
    Eins og ég hef þegar getið var í upphaflega frv. gert ráð fyrir því að Listasjóður veitti náms - og ferðastyrki til allra listamanna en hér er gerð tillaga um að á því verði gerð breyting þannig að allir sjóðirnir veiti starfslaun, svo og náms - og ferðastyrki. Meiri hl. nefndarinnar gerir líka tillögu um það að stjórn listamannalauna sé kosin til þriggja ára í senn, en láðst hafði að geta þess í frv. til hversu langs tíma stjórnin skyldi skipuð.
    Um 5., 6. og 7. brtt. meiri hl. nefndarinnar þarf ekki að fara mörgum orðum. Það felst ekki nein efnisbreyting í þeim tillögum. Það er fyrst og fremst verið að gera það alveg ljóst að menntmrh. beri að skipa úthlutunarnefndir skv. tillögum viðkomandi samtaka listamanna, þ.e. Rithöfundasambandsins, Sambands ísl. myndlistarmanna og Tónskáldafélags Íslands. En þetta var ekki nægilega ljóst eins og það birtist í frv.
    9. brtt. er síðan leiðrétting í samræmi við þá breytingu sem felst í 6., 7. og 8. brtt.
    Eins og ég hef þegar tekið fram, þá mæli ég hér fyrir meiri hl. menntmn. Hann skipa Ragnar Arnalds, Sólveig Pétursdóttir, með fyrirvara, Árni Gunnarsson, Guðmundur G. Þórarinsson, Ólafur Þ. Þórðarson og Ragnhildur Helgadóttir, með fyrirvara. Það er sérstaklega tekið fram að einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. er fram kunna að koma og hef ég þegar gert grein fyrir því að tveir af þeim sem skrifa undir nál. flytja sérstakar brtt. á þskj. 695.
    Áður en ég lýk máli mínu vildi ég fara örfáum orðum um brtt. þeirra en ég tel að 1. brtt. sé í fullu gildi og eigi fullan rétt á sér, enda hefur meiri hl. flutt sams konar tillögu á sérstöku þskj.
    2. brtt. þeirra snýst um það að listamenn skuli að öðru jöfnu ekki gegna öðru föstu starfi meðan þeir njóta starfslauna en í frv. er hreinlega sagt að menn skuli ekki gegna öðru föstu starfi og sú hefur verið reglan í sambandi við veitingu starfslauna jafnt úr Launasjóði rithöfunda sem úr Starfslaunasjóði. Sé ég persónulega ekki ástæðu til að hverfa frá því skipulagi sem verið hefur. Menn geta að sjálfsögðu haft aukatekjur af aukastörfum en þarna er gerð sú krafa

að menn sinni list sinni óskiptir á meðan þeir njóta starfslaunanna.
    Ég er búinn að fjalla um 3. brtt. þeirra og 4. brtt. er fyrirkomulagsbreyting sem kannski felur nú ekki í sér mikla efnisbreytingu. Ég tel betra að það verði eins og það er í frv., að starfslaun séu veitt til hálfs eða eins árs, til þriggja eða fimm ára og miða skuli við að fjórðungur heildarstarfslauna verði að jafnaði veittur til listamanna sem taka laun í meira en eitt ár. Ég vil taka það sérstaklega fram að Bandalag ísl. listamanna hefur lagt mjög þunga áherslu á það að starfslaun til listamanna séu ekki bútuð niður í svo smáar einingar og veitt svo mörgum að engir njóti þess í lengri tíma og þess vegna var það upphaflega sett í frv. að miða skyldi við að fjórðungur heildarstarfslauna skyldi vera a.m.k. árslaun. Þetta tel ég að sé skynsamlegt og get því ekki mælt með brtt. hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur og Sólveigar Pétursdóttur hvað þetta varðar.
    Við 13. gr. flytja þær brtt. um að í stað Rithöfundasambands Íslands, Sambands ísl. myndlistarmanna og Tónskáldafélags Íslands komi hugtökin samtök rithöfunda, samtök myndlistarmanna og samtök tónskálda. Ég vil sérstaklega taka það fram að ég treysti mér ekki til að standa að þessari tillögu eða mæla með samþykkt hennar. Ég hygg að þessi breyting mundi vekja upp mikil andmæli hjá Bandalagi ísl. listamanna. Ég get nefnt sem dæmi að það eru til tvö tónskáldafélög. Annað er Tónskáldafélag Íslands og hins vegar er til Félag tónskálda og textahöfunda og hefur frá upphafi verið gengið út frá því að það væri fyrst og fremst verið að veita starfslaun til félaga frá Tónskáldafélagi Íslands. Ég hef alltaf heyrt þá túlkun á þeirri fyrirætlun sem hér er á ferðinni að starfslaunin sem verið er að veita ættu fyrst og fremst að nýtast þeim sem vinna að sígildri tónlist og að sjálfsögðu er hér einkum og sér í lagi verið að skapa listamönnum skilyrði til þess að semja listaverk sem erfitt yrði að fá greiðslur fyrir á hinum almenna markaði framboðs og eftirspurnar og því óvíst að þau listaverk yrðu til ef starfslauna nyti ekki við. Það er sem sagt álit þeirra sem undirbjuggu frv. og þeirra sem ekki standa að þessari brtt. í nefndinni að með þessu væri verið að færa starfslaunin verulega út og á þann hátt sem Bandalag ísl. listamanna mundi ekki geta fallist á.
    Með þessum athugasemdum læt ég skýringum menntmn. lokið og legg til að með þessum breytingum verði frv. samþykkt.