Listamannalaun
Miðvikudaginn 20. febrúar 1991


     Sólveig Pétursdóttir :
    Virðulegi forseti. Við Ragnhildur Helgadóttir skrifuðum undir nál. meiri hl. hv. menntmn. með fyrirvara og leggjum því fram brtt. Ég vil byrja á að gera hér stuttlega grein fyrir þessum tillögum. Auðvitað er þörf löggjafar af þessu tagi en ég hygg að hér hafi því verið gerð nokkuð greinargóð skil hvað felst í því frv. til laga um listamannalaun sem hér er til umræðu.
    Brtt. eru á þskj. 695. Í 1. lið segir:
    ,,Við 4. gr. Á eftir orðunum: ,,Stjórnin skal skipuð af menntamálaráðherra`` í 2. málsl. komi: til þriggja ára í senn.`` Þetta ákvæði er samhljóða tillögu meiri hl. menntmn. og þarf því ekki að koma til atkvæða.
    Í 2. tölul. segir:
    ,,Við 5. gr. 3. málsl. orðist svo: Þeir skulu að öðru jöfnu ekki gegna öðru föstu starfi meðan þeir njóta starfslauna og skila skýrslu um störf sín.``
    Þarna er verið að útvíkka aðeins ákvæði frv. en í 5. gr. þess segir: ,,Þeir skulu ekki gegna öðru föstu starfi meðan þeir njóta starfslauna.`` Þarna er því gert ráð fyrir ákveðinni víkkun þar sem er bætt við orðunum: að öðru jöfnu.
    Í 3. tölul. segir:
    ,,Við 10. gr. Greinin orðist svo: Listasjóður veiti starfslaun og styrki er svara til 240 mánaðarlauna og bætast við 24 mánaðarlaun á ári næstu fimm ár.`` Þarna er líka um að ræða ákveðna útvíkkun á frv. þar sem er aðeins um að ræða 12 mánaðarlaun á ári næstu fimm ár. Síðan segir: ,,Listasjóður veitir einnig sérstök framlög til listamanna, m.a. til þeirra sem notið hafa listamannalauna undanfarin ár og náð hafa 60 ára aldri.`` Þá kemur viðbótin: ,,Listasjóður veitir starfslaun og verkefnastyrki til sviðslistamanna og annarra túlkandi listamanna.`` Hér er lögð áhersla á það að víkka út verksvið Listasjóðs og veita fleiri listamönnum tækifæri til þess að sækja eftir launum í þennan sjóð.
    4. tölul. Þar segir: ,,Við 11. gr. Fyrri málsl. orðist svo: Starfslaun skulu veitt til hálfs eða eins árs en heimilt er að framlengja starfslaunatímann til þriggja ára.``
    11. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Starfslaun skulu veitt til hálfs eða eins árs, til þriggja eða fimm ára. Miða skal við að fjórðungur heildarstarfslauna verði að jafnaði veittur til listamanna sem taka laun í meira en eitt ár.``
    Það var skoðun okkar nefndarmanna að þarna væri um of langt tímabil að ræða, að hægt væri að veita starfslaun til fimm ára. Einnig viljum við að það sé aðeins heimildarákvæði að framlengja starfslaunatímann til þriggja ára.
    Í 5. og síðasta tölul. segir við 13. gr.: ,,Í stað orðanna Rithöfundasamband Íslands, Samband ísl. myndlistarmanna og Tónskáldafélags Íslands`` komi: samtök rithöfunda, samtök myndlistarmanna og samtök tónskálda.`` Er þá ætlunin að útvíkka og hafa þau samtök sem hafa á samráð við fleiri þar sem við teljum

ástæðu til þess.
    Virðulegi forseti. Þetta mál var afgreitt í nokkrum flýti út úr hv. menntmn. og þess vegna vil ég taka það strax fram að fluttar verða fleiri brtt. við 3. umr. Af þessum sökum eru tillögurnar kallaðar til baka til 3. umr.