Raðsmíðaskip
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Sem svar við spurningu númer þrjú vil ég geta þess að söluverð á skipinu Oddeyri EA var 193 millj. 299 þús., á skipinu Nökkvi HU 202 millj. 210 þús. kr., á skipinu Gissur ÁR 211 millj. 866 þús. kr. og á skipinu Jöfur KE 281 millj. 68 þús. kr.
    Þá var einnig spurt hvert væri söluverðið á núvirði. Svarið er: Miðað við verðlag í febrúar 1991 er það á skipinu Oddeyri EA 376 millj. 444 þús. kr., á skipinu Nökkvi HU 381 millj. 140 þús. kr., á skipinu Gissur ÁR 394 millj. 197 þús. kr. og á skipinu Jöfur KE 391 millj. 851 þús. kr.
    Þá var spurt að því hvert væri áætlað söluverð skipanna í dag ef ekki er meðtalinn sá fiskveiðikvóti sem fluttur hefur verið á skipin.
    Fjmrn. telur sig ekki hafa upplýsingar sem gera okkur kleift að meta eða áætla slíkt söluverð, sérstaklega vegna þess að markaður á skipum sem ekki hafa fiskveiðikvóta er satt að segja mjög óverulegur. Ýmsir halda því fram að slík skip séu óseljanleg, aðrir halda því fram að fyrir þau fáist mjög lítið. Allt fer það eftir því hver á í hlut sem kaupir, þannig að fjmrn. treystir sér ekki til þess að setja fram einhverja marktæka áætlun um slíkt söluverð því það getur verið frá því að vera nánast ekki neitt upp í það að skipta einhverjum tugum eða fáeinum hundruðum milljóna.
    Spurning númer sex var: ,,Hve miklar skuldir hvíla á skipunum hjá Ríkisábyrgðasjóði?`` Svarið er: Á skipinu Oddeyri EA 241 millj. kr., á skipinu Nökkvi HU 257 millj. kr., á skipinu Gissur ÁR 265 millj. kr. og á skipinu Jöfur KE 320 millj. kr.
    Að lokum var spurt: ,,Hvernig og hvenær hyggst ríkisstjórnin koma þessu máli á hreint þannig að skipin fái viðunandi rekstrargrundvöll og unnt verði að gefa út afsöl?`` Svarið er að það mál hefur ekki verið tekið til slíkrar umfjöllunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar að hægt sé að veita viðhlítandi svar við þessari spurningu. Málið er mjög flókið, m.a. vegna þess að það kann að skapa fordæmi varðandi ýmis önur mál og ég get því miður ekki hér og nú skýrt frá niðurstöðum í því máli.