Öryggi fjarskiptaþjónustu í Húnavatnssýslum
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Jón Sæmundur Sigurjónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég er með fsp. til hæstv. samgrh. um öryggi fjarskiptaþjónustu í Húnavatnssýslum. Tilefnið er það að 2. og 3. jan. gekk gífurlegt óveður yfir landið. Bilun varð í ljósleiðarastreng milli Sauðárkróks og Blönduóss meðal annarra mikilla skemmda sem urðu í því óveðri, en sá strengur rofnaði þar sem hann er strengdur yfir gil í Skálahnjúksdal á Laxárdalsheiði. Við þetta varð símasambandslaust vestan við strenginn, þ.e. á Blönduósi, Hvammstanga, Laugarbakka, Hólmavík og Skagaströnd. Þó gat fólk á svæðinu með höppum og glöppum talað innan svæðisins, en það má segja að báðar Húnavatnssýslur hafi verið nær símasambandslausar við aðra landshluta. Stjórnstöð þessa nýja hátæknilega útbúnaðar er á Sauðárkróki, austan við strenginn, en engu að síður var ekki hægt að hafa samband vestur fyrir og illa innan héraðs og alls ekki til Reykjavíkur þó stöðin væri fyrir austan. Þetta er einhver önnur tækni en var í gömlu símstöðvunum þegar var þó hægt að hringjast á öðru megin við bilunina. Það er ekki hægt, virðist manni, með þessum nýja hátæknilega útbúnaði.
    Það gat verið erfitt að ná símasambandi við Norðurland héðan þar sem margar línur voru óvirkar samkvæmt gamla kerfinu. Truflanir urðu einnig á útvarpssendingum og á sjónvarpssendingum. Á Norðurlandi eru engir viðgerðarflokkar sem hafa þá kunnáttu að gera við þennan nýja hátæknibúnað, þ.e. ljósleiðarana, og því verður að fá viðgerðarflokka frá Reykjavík þegar þessi útbúnaður bilar.
    Því er það forvitni mín að fá að vita, því ég geri nú ráð fyrir að Póstur og sími hafi einhverjar ráðstafanir uppi til að bæta úr þessu ástandi, hvenær og með hvaða hætti sé gert ráð fyrir því að úr þessu öryggisleysi verði bætt þegar útvarps-, sjónvarps- og tölvuþjónusta bilar og fellur niður, hvað á að gera til að bæta úr þeim skaða sem óveður geta valdið og sérstaklega þá á þessu svæði.