Öryggi fjarskiptaþjónustu í Húnavatnssýslum
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Það hefur verið unnið markvisst að því að bæta öryggi í fjarskiptakerfinu, jafnt í Húnavatnssýslum sem og reyndar um allt land á undanförnum áratug. Eitt stærsta skrefið væntanlega í þessa öryggisátt hefur verið að leggja niður allar loftlínur og byggja í staðinn jarðstrengjanet sem tengir alla notendur við almenna símakerfið. Þetta verk var unnið á árunum 1981 til 1986. Menn gætu hugleitt hvernig ástand símamála hefði verið í landinu ef við hefðum í janúarmánuði sl. búið við hinar gömlu loftlínur úti um allt land. Áður var örbylgjukerfi milli sjálfvirku stöðvanna í símkerfinu en á síðustu fimm árum hefur verið unnið að því, eins og menn þekkja, að leggja ljósleiðara sem á árinu 1993 munu ná hringinn í kringum landið. Með tilkomu ljósleiðarans fæst nýtt stafrænt samband milli símstöðvanna sem hefur meiri bandbreidd og getur annast allan fyrirsjáanlegan sjónvarpsflutning og efnisflutning af því tagi, auk allrar símaumferðar.
    Þegar hringtengingu ljósleiðarans lýkur á árinu 1993 næst fram það markmið að engin ein bilun á hringnum á að geta valdið útfalli símkerfisins. En það var einmitt ein slík bilun í byrjun janúar sem varð til þess að Húnavatnssýslur urðu sambandslitlar við umheiminn. Þessi bilun á ljósleiðara varð á stað þar sem hann er strengdur yfir árgil og verður strengurinn nú strax í vor lagður þar í jörð, lagður undir ána, sem ætti að draga verulega úr bilanahættu.
    Á fjárlögum fyrir árið 1991 er ný stafræn örbylgja: Reykjavík, Blönduós, Akureyri, sem verður nýtt varasamband fyrir tengingu Húnavatnssýslna við umheiminn. Þetta samband verður vonandi tilbúið fyrir næstu áramót.
    Það er ljóst að óveðrið í byrjun janúar hefði lítil sem engin áhrif haft á fjarskipti í Húnavatnssýslum ef ofannefndar aðgerðir hefðu þá verið komnar í framkvæmd.
    Næsta verkefni sem þegar er unnið að er uppsetning vararafmagns fyrir allar stöðvar á svæðinu. Á símstöðvunum eru alls staðar rafgeymar sem geta haldið almenna símkerfinu gangandi í minnst einn sólarhring og allt upp í þrjá sólarhringa. En til að tryggja kerfi gegn langvarandi rafmagnsleysi verður unnið að því að setja upp til viðbótar fastar vararafstöðvar fyrir stærri staðina og eiga til færanlegar rafstöðvar fyrir minni staðina. Á Skagaströnd verður sett upp í næstu viku lítil bensínvararafstöð, nægilega stór til þess að geta haldið símstöðinni í gangi í rafmagnsleysi. Allar símstöðvarnar í Húnavatnssýslum eru tengdar við móðurstöð eða hnútstöð á Sauðárkróki en tenging við aðra landshluta fer síðan fram í gegnum hana. Nú er unnið að því að skipuleggja neyðartengingu svo hægt sé að kúpla inn neyðartengingu allra símstöðvanna við aðra hnútstöð ef sambandið rofnar við Sauðárkrók, t.d. stöð eða stöðvar í Reykjavík, sem yrði þá hægt að grípa til ef jafnalvarleg bilun ætti sér stað og í janúarmánuði sl., ef slíkt kæmi fyrir aftur.

    Þá má þess geta að farsímakerfið verður betur nýtt í framtíðinni og myndar í raun og veru þriðja eða jafnvel fjórða öryggissambandið, eftir því hvernig á það er litið, með því að hafa farsíma til almenningsnota staðsetta á hverri símstöð. Þá er þegar byrjað að tengja inn á hverja símstöð númer úr öðrum stöðvum sem verður hægt að nota í neyðartilvikum. Með þessum ráðstöfunum öllum er í raun og veru verið að margfalda öryggið þannig að það á að vera orðið eftir þetta afar ólíklegt að stöð, hver símstöð, hafi ekki einhverja möguleika upp á að hlaupa.
Ég leyfi mér að fullyrða að þegar þessum framkvæmdum öllum lýkur og hringtengingu ljósleiðarans á sumrinu 1993 komum við til með að búa í raun og veru við afar fullkomið og öruggt fjarskiptanet hvað varðar símaumferð og fjarskipti innan lands.
    Það er sömuleiðis á dagskrá, eins og hv. þm. væntanlega muna, að reisa vararafstöð fyrir landið og talsverð fjárveiting reyndar ætluð til þeirrar framkvæmdar þegar á þessu ári í fjárfestingaráætlunum Pósts og síma.
    Ef ég fer síðan yfir þetta aftur til að skýra það þá verða í fyrsta lagi sett upp neyðarnúmer og neyðarsímar á öllum símstöðvum, bæði farsími og föst númer úr öðrum stöðvum. Í öðru lagi verður ljósleiðarinn grafinn í jörð í þessu nefnda árgili Laxár. Í þriðja lagi verður sett upp varaleið á örbylgjunni sem tengir svæðið við móðurstöðina á Sauðárkróki og önnur landsvæði þótt ljósleiðarinn bili. Í fjórða lagi verða símstöðvar á svæðinu útbúnar þannig að hægt verði að tengja þær við aðra móðurstöð þótt sambandið rofni við aðalmóðurstöð og í fimmta lagi verður vararafmagn aukið alls staðar strax í vetur.