Heilbrigðiseftirlitsgjald
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Jón Sæmundur Sigurjónsson) :
    Virðulegi forseti. Við yfirlestur á lögum um heilbrigðisþjónustu hér fyrir nokkru tók ég eftir því að sá háttur er hafður á um greiðslu heilbrigðiseftirlitsgjalds að í raun og veru er heilbrigðissvæðunum í sjálfsvald sett með hvaða hætti þau setja á slíkt gjald fyrir þá þjónustu sem veitt er við heilbrigðiseftirlit. Við könnun í mínu kjördæmi við ýmis lítil iðnfyrirtæki var mér tjáð að heilbrigðiseftirlit sé að vísu með ágætum, þar komi heilbrigðiseftirlitsfulltrúi, gangi um fyrirtæki í 15 -- 20 mín. og staðfesti að allt sé í lagi. Síðan komi reikningar upp á 16 -- 18 þús. kr. fyrir þessa korters þjónustu. Í öðrum svæðum er mér tjáð að gjaldið farið jafnvel yfir 30 þús. kr. fyrir ekki meiri þjónustu en þarna er veitt. Það tekur kannski ekki lengri tíma að staðfesta að allt sé nú með þeim hætti að gott sé. Ég held ég hafi komið því til skila sem ég vil að komi fram með þessum spurningum. Þær hljóða svo:
    ,,1. Hvað veldur því að iðnfyrirtækjum á landsbyggðinni er gert að greiða heilbrigðiseftirlitsgjald, en iðnfyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu ekki?``
    Tilfellið er að höfuðborgarsvæðið notfærir sér ekki þessa heimild og þar þurfa fyrirtæki ekki að greiða þetta gjald, þar er strax mismunur á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis.
    ,,2. Hver er greiðsla samkvæmt gjaldskrá fyrir árlegt eftirlit í iðnfyrirtækjum?``