Viðlagatrygging Íslands
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. hefur hér gert grein fyrir fsp. sinni sem er í þremur liðum. Eins og hann sagði réttilega er hún til komin vegna umræðna um Viðlagatryggingu og hlutverk hennar í þeim skaða sem óveður hefur valdið bæði nú nýlega og reyndar þar áður fyrir nokkrum vikum síðan og svo auðvitað oft áður.Í fyrravetur upp úr áramótum munum við eftir miklu tjóni sem vakti líka umræður um Viðlagatryggingu Íslands.
    Samkvæmt upplýsingum frá Viðlagatryggingu eru svör við fsp. hv. þm. á þessa leið. Í fyrsta lagi, þar sem spurt er: ,,Hvað voru tekjur Viðlagatryggingar Íslands miklar á síðasta ári?`` Samkvæmt upplýsingum frá Viðlagatryggingu Íslands hinn 19. febr., samkvæmt reikningum fyrir árið 1990, sem þó eru ekki endanlega frágengnir, kom í ljós að iðgjaldatekjur voru 322 millj. kr. og fjármagnstekjur 373 millj. kr. eða samtals 695 millj. kr.
    Annar liður fsp. var: ,,Hversu háum fjárhæðum námu tryggingabætur fyrirtækisins á síðasta ári?`` Tjónabætur félagsins námu 129 millj. kr. Önnur gjöld fyrirtækisins voru 149 millj. kr. og skiptust þessar 149 millj. kr. þannig að endurtryggingariðgjald var 79 millj. kr., innheimtuþóknum til tryggingafélaganna, sem innheimta iðgjaldið fyrir Viðlagatryggingu, eins og mönnum er kunnugt, var 32 millj. kr., varnaraðgerðir, styrkir og matskostnaður, sem að hluta til mætti kannski flokkast með tjónabótum en er ekki færður þar undir af því að það er ekki beinlínis heldur er hér um að ræða varnaraðgerðir sem Viðlagatrygging þó styður eða styrkir, voru 31 millj. kr. og almennur rekstrarkostnaður var 7 millj. kr. Þetta er sundurliðunin á útgjöldum fyrirtækisins, bæði tryggingabótum og öðrum kostnaði.
    Þriðji liður fsp. var síðan: ,,Hver var eignastaða fyrirtækisins þann 31. des. sl.?`` Hreinar tekjur ársins 1990 voru, eins og fram hefur komið af þessum upplýsingum, 417 millj. kr. og eigið fé í árslok 3 milljarðar 117 millj. kr.
    Vegna þess sem fyrirspyrjandi nefndi að auki um umræður um að endurskoða lög og verksvið tryggingarinnar vil ég láta það koma fram að sú vinna er í gangi. Það er nú unnið að endurskoðun á lögunum og hugmyndum um annað og víðtækara verksvið. En þó bið ég menn að hafa í huga að auðvitað er reynt að gæta þess að það séu skýrar línur, eins skýrar og þær geta verið, milli Viðlagatryggingar annars vegar og verkefna eða hlutverks hinna almennu vátryggingafélaga og þeirra bótaþátta eða áhættuþátta sem menn geta keypt sér tryggingar á hjá almennum vátryggingafélögum.
    Að lokum er auðvitað nauðsynlegt að staða Viðlagatryggingar sé sterk, að Viðlagatrygging hafi góða eiginfjárstöðu og sé reiðubúin að mæta áföllum sem kunna að verða enn þá stærri og meiri en þó þau sem við höfum horft upp á á undanförnum vikum, ef yfir ríða alvarlegir jarðskjálftar eða eldgos, svo eitthvað sé

nefnt. En ég vona að þetta hafi svarað nokkuð greinilega þeim fyrirspurnum sem bornar voru fram.