Viðlagatrygging Íslands
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fsp. og fyrir það að
vekja á því athygli að þó nokkuð stór hluti íslenskrar þjóðar er með viðlagatryggingu, er skattlagður til þess að greiða tryggingariðgjald en jafnframt þannig frá því gengið þegar kemur að greiðslum að hann mun aldrei eiga rétt á því að fá krónu til baka. Það er vegna þess að þessir aðilar hafa ekki byggt hús sín þar sem snjóflóðahætta er. Þeir hafa ekki byggt hús sín þar sem sjór á eftir að granda þeim. Þeir hafa ekki byggt hús sín þar sem eldgos verða og þeir hafa ekki byggt hús sín þar sem jarðskjálftar munu setja þau um koll. En engu að síður eru þeir greiðendur.
    Hins vegar blasir það við að veðsetning á húsum er hreinlega í hættu ef það er látið vera frjálst hvort menn tryggi hús fyrir foki. Ég hygg að hætta á foki sé ekki minni en hætta á eldsvoða í dag, mjög víða. Og það fárviðri sem gekk yfir landið á sínum tíma hlýtur að segja okkur það að viðlagatryggingalögunum verður að breyta og Viðlagatrygging verður að einhverju leyti að koma inn í það dæmi.