Ríkisreikningur 1989
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Kristinn Pétursson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að koma hér með fsp. til fjmrh. um ríkisreikning fyrir árið 1989. Fyrirspurnin orðast svo:
    ,,Hvað veldur því að ríkisreikningur fyrir árið 1989 hefur ekki verið lagður fram á Alþingi?``
    Örstuttur rökstuðningur hvers vegna fsp. er lögð fram. Það voru uppi deildar meiningar milli mín og fjmrh. um bókun á bókhaldsfærslum á Verðjöfnunarsjóði m.a. og ég sá mig knúinn til að skrifa forsetum Alþingis bréf 29. mars 1990 og óska eftir því að Ríkisendurskoðun svaraði ákveðnum spurningum varðandi bókhald og gerð ríkisreiknings. Svar við því fékkst 18. apríl 1990, þar sem var tekið undir flest þau sjónarmið sem sá er hér stendur setti fram varðandi gerð ríkisreiknings. Átti ég von á því að hann kæmi í október eins og venja er, en var að spyrjast fyrir um það fyrir jól og fékk þau svör þá að hann væri væntanlegur í janúar. Nú er langt liðið á febrúar og ríkisreikningur ekki kominn. Þess vegna þykir mér eðlilegt að hæstv. fjmrh. geri grein fyrir því hvort reikningur ríkissjóðs fyrir árið 1989 sé væntanlegur fljótlega.