Ríkisreikningur 1989
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Kristinn Pétursson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka fjmrh. fyrir svarið en ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með það ef ríkisreikningur á ekki að birtast áður en þingi lýkur þannig að hægt sé að taka hann til umræðu hér á Alþingi.
    Í ljósi þeirra upplýsinga sem hæstv. fjmrh. gaf hefði verið full ástæða til þess að taka það mál til umfjöllunar hér á Alþingi, sérstaklega í ljósi þeirra staðreynda að það kemur í ljós að bókhald ríkissjóðs hefur ekki verið fært rétt síðustu árin og fyllsta ástæða er því til að taka þetta mál hér upp.
    Í raun og veru er það mikið fagnaðarefni ef hægt er að koma því í kring að bókhald ríkissjóðs verði fært í samræmi við ríkisbókhaldslög þannig að ríkisstjórn á hverjum tíma verði að færa bókhald í samræmi við það sem hún gerir. Í því sambandi ætla ég að minna á þessa hæstv. ríkisstjórn. Hún hefur gert hinar og þessar ráðstafanir sem margar hverjar voru nauðsynlegar, eins og t.d. framlag í Verðjöfnunarsjóð, fyrirgreiðsla Atvinnutryggingarsjóðs o.fl. sem var gert til þess að aðstoða atvinnulífið úti á landi og hér í Reykjavík og skal ekki deilt um það hvort það var rétt eða rangt. En bókhald ríkissjóðs á auðvitað að færa í samræmi við það sem verið er að gera á hverjum tíma. Þegar um er að ræða að verið er að afhenda verðmæti eða ríkissjóður tekur á sig skuldir eins og t.d. í Verðjöfnunarsjóðinn, þar er um 1,5 milljarða að ræða, þá er auðvitað alveg óþolandi annað en að bókhald ríkissjóðs sé fært í samræmi vð veruleikann þannig að ríkjandi stjórnvöld á hverjum tíma séu ekki að falsa bókhaldið og velta vandanum yfir á næstu ríkisstjórnir. Þjóðin á að fá að sjá það hvernig hver ríkisstjórn hagar sér á hverjum tíma og það sé ekki alltaf verið að fela fyrir borgurum landsins hvernig ríkisstjórnir haga sér.