Ríkisreikningur 1989
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það að upplýsingar hæstv. ráðherra eru athyglisverðar. Vissulega er það framfaramál sem hann vék hér að, að taka inn í ríkisreikninginn allar þær skuldbindingar sem fyrir liggja og gera þar ákveðnar breytingar á uppgjöri.
    Þetta mál hefur hins vegar dregist úr hömlu að mínum dómi. Mér er kunnugt um það, sem einn af yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings, að ríkisbókhaldið hefur ekki getað lokað þessum reikningi á þeim tíma sem æskilegast hefði verið. Ég tel að það sé mjög óheppilegt, þó að þar kunni að vera einhverjar tæknilegar ástæður fyrir hendi, að komið skuli fram í febrúar þegar þessi mál koma hér til umræðu og ekkert bólar enn á reikningnum og fjmrh. segir að það geti verið að hann komi ekki fyrr en í apríl. Þá er alveg ljóst að hann verður ekki til umræðu á þessu þingi, verður ekki til umræðu fyrir kosningar.
    Hvort sem það er nú tilviljun eða ekki þá hlýt ég að benda á þetta atriði jafnframt sem ég rifja upp að við hv. þm. Pálmi Jónsson fluttum hér frv. í tvígang á tveimur undanförnum þingum þar sem gert er ráð fyrir því að endurskoðaðan ríkisreikning skuli leggja fyrir Alþingi og afgreiða svo skjótt sem verða megi á næsta ári eftir reikningsárið. Ég hlýt að rifja þetta upp og tel að það sé orðið tímabært að koma þessu í lög, gjarnan eftir að sú uppgjörsbreyting sem ráðherra gat um verður komin til framkvæmda.