Heildarkostnaður Blönduvirkjunar
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. hefur lagt fyrir mig fyrirspurn í þremur liðum á þessa leið:
    Í fyrsta lagi hver sé heildarkostnaður orðinn við byggingu Blönduvirkjunar. Í öðru lagi hver sé áætlaður kostnaður við að ljúka virkjuninni. Og í þriðja lagi hver verið hafi kostnaðaráætlun við virkjunina þegar ákvörðun var tekin um að ráðast í hana.
    Ég mun svara þessum spurningum á grundvelli upplýsinga frá virkjunaraðilanum, Landsvirkjun. Svarið við fyrstu spurningunni er: Áfallinn kostnaður vegna Blönduvirkjunar var í árslok 1990 9.894 millj. kr. og er þá allt uppfært miðað við verðlag í árslok 1990.
    Svarið við annarri spurninginni er: Það er áætlað að kostnaður við að ljúka framkvæmdum við virkjunina verði 3.102 millj. kr. og er þá líka miðað við verðlag í árslok 1990.
    Ég kem þá að þriðja lið í spurningunni og svarið við þeim þætti málsins er að samkvæmt áætlun sem gerð var árið 1983 og hefur verið færð fram til verðlags í árslok 1990 skv. vísitölum virkjanakostnaðar er gert ráð fyrir að kostnaður við virkjunina verði 12.280 millj. kr. Samkvæmt því sem kom fram hjá mér hér áðan sem svar við fyrsta og öðrum þætti spurningarinnar er nú gert ráð fyrir að kostnaður við virkjunina verði 12.996 millj. kr. sem er 5,8% hærra en framreiknuð áætlun frá árinu 1983. Þarna munar langmestu að kostnaður við fjármögnun, vaxtakostnaður, er orðinn tæplega 600 millj. kr., 587 millj. skv. tölum Landsvirkjunar, hærri en hin framreiknaða áætlun frá árinu 1983.
    Ástæðan fyrir þessum mun liggur í augum uppi. Byggingartími virkjunarinnar verður sjö ár en ekki fjögur eins og reiknað var með. Við þekkjum ástæðurnar fyrir þessum drætti. Þær eru að væntingar og spár sem menn höfðu gert sér um markað og höfðu að leiðarljósi þegar ákveðið var að hefjast handa hafa ekki staðist. En ef við lítum á framkvæmdakostnaðinn við Blönduvirkjun annan en fjármagnskostnað, þá er hann nánast nákvæmlega skv. þessari framreiknuðu áætlun frá árinu 1983, eða 10.911 millj. kr., sem er 129 millj. kr., eða 1,2%, hærri en þessi áætlun. Allar fullyrðingar um það að þarna hafi framkvæmdakostnaðurinn gersamlega farið úr böndum og niðurstaðan orðið öll önnur en að var stefnt fá því ekki staðist. Hitt er því miður rétt að það hefur tekið óhóflega langan tíma að afla markaðar fyrir þessa virkjun, en að því máli er nú, sem kunnugt er, unnið. Fullyrðingin, sem hér kom fram áðan hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., um að reiknað í Bandaríkjadollurum væri áætlaður kostnaður á kwst. tala eins og 29 / 1000 úr Bandaríkjadollar eru ekki réttar. Þær fullyrðingar eru ekki réttar. Ég ætla ekki hér að nefna nákvæma tölu í því máli, enda margt sem athuga þarf þar, m.a. gengi, en þar eru tölur miklu nær 20 / 1000 úr Bandaríkjadollar en 30 / 1000 hinar réttu.