Kostnaðaráætlun Fljótsdalsvirkjunar
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Hv. 6. þm. Norðurl. e. ber fyrir mig tvær spurningar. Hin fyrri: Hver er áætlaður byggingarkostnaður Fljótsdalsvirkjunar miðað við það að framkvæmdir hefjist á þessu ári? Svarið við þeirri spurningu er að á verðlagi í desember 1990 er áætlaður byggingarkostnaður við virkjun Jökulsár í Fljótsdal 19.850 millj. kr., 19,9 milljarðar.
    Seinni spurningin var: Hver er áætlaður kostnaður við byggingu háspennulínu ásamt spennivirkjum og öðrum tilkostnaði frá Fljótsdalsvirkjun til Keilisness á Reykjanesi? Og svarið er: Á verðlagi í desember nemur áætlaður byggingarkostnaður við þessi mannvirki 9,2 milljörðum kr., 9.176 millj. svo að ég telji þetta í milljónum.