Kostnaðaráætlun Fljótsdalsvirkjunar
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Það er rétt skilið hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. að það stendur ekki til að gera orkusölusamninga sem ekki endurheimta virkjunarkostnaðinn og skila eðlilegum ávöxtum af fjármagninu. Hins vegar er það ekki rétt að þessar tölur sem ég nefndi hér um virkjunarkostnað við Fljótsdalsvirkjun og línubyggingar frá henni að Keilisnesi feli það í sér að þar sé um meiri kostnað að ræða en hér var áður nefndur vegna Blönduvirkjunar eða vegna þess sem fyrr hefur fram komið. Sannleikurinn er sá að með nýrri tilhögun við virkjun á Fljótsdalsheiði og því fyrirkomulagi sem þar er nú að stefnt er Jökulsárvirkjun í Fljótsdal ein hin hagstæðasta sem landið hefur upp á að bjóða og kostnaður við þá virkjun á hverja orkueiningu verður mun lægri en talan sem nefnd var hér vegna Blönduvirkjunar. En vegna ýmissa aðstæðna í þessu máli, óvissu um gengismál og fleira, er ekki tímabært og eðlilegt að setja fram um það tölur að svo stöddu.