Vetnisframleiðsla
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Mér er ljúft að svara þessari fsp. hv. 6. þm. Norðurl. e. um athuganir á vetnisframleiðslu og hagkvæmni slíkrar starfsemi hér á landi í samstarfi m.a. við Þjóðverja.
    Eins og reyndar hefur komið fram áður hér í þinginu við umræður um þáltill. hv. 6. þm. Reykv. og annarra hv. þm. Kvennalistans um framleiðslu vetnis, sem er 134. mál þessa þings, vinnur iðnrn. nú að þessu máli og nýtur við það liðsinnis markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar og hefur einnig verið gott samstarf um það mál við prófessora Háskóla Íslands og reyndar fleiri. Þannig var að fyrir milligöngu iðnrn. komu hingað til lands í júlí í fyrra fulltrúar frá þýsku fyrirtækjasamtökunum Dechema frá Hamborgarstað og frá Evrópubandalaginu til að ræða þetta mál. Í lok október sl. var svo haldin í Hamborg ráðstefna um möguleika til samstarfs milli Íslendinga og Þjóðverja um vetnisframleiðslu. Á þessa ráðstefnu fóru sex menn af Íslandi á vegum iðnrn., þar af voru þrír prófessorar við Háskóla Íslands. Af hálfu Þjóðverja sátu ráðstefnuna fulltrúar frá opinberum aðilum, háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum. Á þessari ráðstefnu var kynnt staða rannsókna í báðum löndunum og möguleikar til þess að nýta orkulindir á Íslandi til vetnisframleiðslu og reyndar fleira sem þarna var rætt.
    Í lok ráðstefnunnar skrifuðu forseti Vetnisfélagsins í Hamborg, en þar starfar sérstakt félag sem vinnur að því að hvetja til notkunar á vetni sem orkubera, og stjórnarformaður markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar undir minnisblað um það að stefna að sameiginlegum rannsóknum á sviði vetnistækni og fleiri atriða sem tengjast hugsanlegri vetnisframleiðslu á Íslandi. Við vinnum nú að því í samráði og samvinnu við þessa þýsku aðila að skilgreina þetta verkefni betur.
    Mér finnst líka ástæða til að geta þess að nú er unnið að því að koma á formlegu samstarfi milli Íslendinga og Evrópubandalagsins um orkunýtingu hér á landi og m.a. um vetnismál.
    Þar sem nú er verið að stofna til formlegs samstarfs við erlenda aðila, bæði þýska aðila og Evrópubandalagið, um möguleikana til þess að nýta innlenda orkuframleiðslu til eldsneytisframleiðslu, þá hafa orðið nokkur þáttaskil í þessu máli. Ég hef því talið ástæðu til að skipuleggja okkar starf að því að nýju og hef þess vegna skipað sérstakan hóp ráðgjafa sem í eiga sæti menn og konur frá stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum og Háskólanum. Þetta hef ég gert m.a. í samráði við rektor Háskóla Íslands, til þess að fylgjast með og fjalla um samstarfsverkefni, hugsanleg og raunveruleg, við erlenda aðila um framleiðslu eldsneytis og stuðla að því að slíkt samstarf styrkist og nýtist sem best til þess að tryggja okkur arð af okkar orkulindum. Þessum hópi er m.a. ætlað að taka þátt í viðræðum við erlenda aðila um eldsneytisframleiðslu, þar á meðal vetnis, á vegum iðnrn. Þessi hópur mun í sínu starfi hafa náið samráð við alla sem tengjast þessu verkefni, bæði Háskóla Íslands og

stofnanir hans, umhverfisyfirvöld, Landsvirkjun, Orkustofnun, Iðntæknistofnun og Rannsóknaráð ríkisins.