Vetnisframleiðsla
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin. En mig undrar þau algerlega vegna þess að það var Háskóli Íslands sem hafði allt frumkvæði í sambandi við þá í Hamborg um þetta mál. Og mig undrar ef það er staðreynd að hæstv. ráðherra er að taka þetta verkefni frá Háskólanum, sem er búinn að vinna að þessum málum í hvorki meira né minna en 30 ár. Ég hef fylgst með Háskólanum í þessu efni um 15 ára skeið og þekki þetta vel. Það var ekki markaðsskrifstofa iðnrn. sem kom þessu á og þeir vissu ekkert um það á fundinum á Akureyri, þegar verið var að ræða um álverksmiðju, þeir höfðu ekki hugmynd um að þarna væri verið að vinna að þessu máli. Þetta er því furðuleg ráðstöfun.
    Mér er kunnugt um það að Bragi Árnason prófessor hefur skrifað skýrslur og fylgst með bæði eldsneytisframleiðslu og vetnisframleiðslu allt frá árinu 1961, 50 að tölu, fyrir utan 18 erindi sem hann hefur flutt um þetta á ýmsum stöðum og þar fyrir utan útvarpserindi og í félögum. Mér er líka kunnugt um það að háskólinn í Hamborg hefur fyrst og fremst haft samband við Háskólann. Það var ekki að frumkvæði iðnrn. að þessi samskipti fóru fram, heldur Háskólans. Ég hef nefnilega öll þessi gögn í mínum höndum af því að ég hef sýnt þessu áhuga og þess vegna verð ég að segja það, þetta er alveg furðuleg ráðstöfun.