Drauganet
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til umhvrh.:
    ,,Má vænta þess að ráðherra beiti sér fyrir því að drauganet séu slædd upp eða verður allt við það sama í þeim efnum?``
    Varla verður um það deilt að við Íslendingar eigum mikið undir því að okkar lífríki sé umgengið með fullri virðingu. Eitt af því sem verður að gera, ef við ætlum að tryggja að fiskklak sé eðlilegt við landið og að við höfum full not af okkar fiskstofnum, er að tryggja að veiðarfæri séu ekki skilin eftir í sjó og þau haldi áfram að veiða.
    Fyrir nokkrum árum gerðist það við Breiðafjörð að menn tóku sig til og fóru að draga upp net sem skilin höfðu verið eftir í sjó, það voru grásleppunet. Það var verulegt magn sem þeir drógu upp. Þetta varð til þess að ég fór að halda uppi njósnum um það hvort það væri e.t.v. víðar sem slík net væru í sjó. Og það merkilega kom í ljós að mér voru sagðar hinar ótrúlegustu sögur í þeim efnum. Þess vegna er það ekki skrýtið þó á mann sæki sú hugsun: Hvað með önnur net, eins og t.d. þorskanetin, sem mikið er lagt af í sjó á hverju ári? Margir halda e.t.v. að þessi net séu þannig að þau verði endanlega óklár í sjónum og veiði ekki. Ég ætla aftur að víkja að grásleppunetunum.
    Ég veit um mann sem dró úr sjó grásleppunet sem var búið að vera þar eitt ár. Netið hafði árið áður sokkið af því að þari settist í það. Þegar það var dregið upp ári síðar var enginn þari til í netinu, aðeins beinagrindur, beinagrindur m.a. af fiski og fugli. Hann dró þetta net upp í aprílmánuði.
    Af þorskanetunum er það að segja að á sumum svæðum þar sem þorskanet eru lögð við landið hafa togarar rétt á að toga á öðrum tímum ársins. Ég hef séð myndir þar sem mikið af netum hefur verið dregið upp og bæði nýr fiskur og úldinn verið í þessum netum en þau hafa komið upp á trollinu þegar togskip hafa farið um þessa veiðislóð.