Drauganet
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir hans svar og fyrir hans eftirgrennslan sem hann hefur nú þegar sett í gang vegna þessa máls. Það er frekar fátítt að ráðherrar taki fsp. og ábendingum með jafnopnum huga og með jafnmikilli ákvörðunarvissu um að það beri að gera eitthvað í málinu.
    Ég minnist þess að fyrir 1960 var talað um að það væri algjör nauðsyn að bæði uppihöld og einnig korkur og steinar á þorskanetum væru úr efni sem gæti fúnað svo að í tímans rás mundi netið af þeirri ástæðu ekki geta veitt fisk. Nú er búið að setja blý í teininn að neðan og flot inn í teininn að ofan þannig að netið heldur áfram að veiða. Ég er sannfærður um það að eitt af því sem í dag veldur því að fiskifræðingar mæla með minni og minni sókn í íslenska þorskstofninn er sú staðreynd að drauganetin fiska það mikið, utan kvóta vel að merkja, að við erum að eyðileggja ákveðin veiðisvæði við strendur landsins með þessum netum.