Efling heimilisiðnaðar
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Þegar þáltill. um heimilisiðnaðarráðgjafa var flutt af Snjólaugu Guðmundsdóttur, sem þá sat á þingi, og okkur öðrum kvennalistaþingmönnum höfðum við að vísu þó nokkuð annað í huga heldur en nú er komið fram frá atvmn. Við höfðum í huga að stofnað væri embætti manneskju sem ekki bara gæfi ráð og kannaði, heldur virkilega yrði drifkraftur í því að heimilisiðnaður yrði efldur í landinu.
    Þó að svo sé komið að búið sé að draga pínulítið tennurnar úr þessari ágætu tillögu okkar, þá lítum við svo á að tillaga atvmn. sé mjög góðra gjalda verð og miði í rétta átt. Við hefðum gjarnan eða a.m.k. hefði ég gjarnan viljað að hún gengi þó nokkuð lengra, en það að þetta mál skuli þó komast á eitthvert skrið með því að kannað verði hvernig efla megi heimilisiðnaðinn tel ég að sé til mikilla bóta og fagna því í sjálfu sér. Ég hefði gjarnan viljað að tillagan hefði verið samþykkt með minni breytingum af hálfu atvmn. en tel að þetta sé þó í mjög svo jákvæða átt. Auðvitað hefði tillaga okkar um að ráða heimilisiðnaðarráðgjafa gjarnan mátt vera tekin til greina.
    En vonandi verður einmitt sú niðurstaða af könnuninni, sem þeir í atvmn. vilja láta gera.