Málefni geðsjúkra afbrotamanna
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Hinn 10. des. 1987 bar ég fram fsp. til hæstv. heilbrrh. sem þá lá fyrir á þskj. 175 og var svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
 ,,1. Telur ráðherrann það samrýmast lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 59/1983, að geðsjúkt fólk sé vistað í fangelsum eins og tíðkað er?
    2. Hve margir geðsjúkir einstaklingar eru nú vistaðir í fangelsum þó að þeir hafi verið úrskurðaðir ósakhæfir vegna geðveiki?
    3. Eru einhverjar aðgerðir fyrirhugaðar til þess að geðsjúkir einstaklingar sem gerast brotlegir við lög vegna sjúkdóms síns fái nauðsynlega læknismeðferð?``
    Ég minnti á þáltill. hv. fyrrv. þm. Helga Seljans árið 1980 um úrbætur í geðheilbrigðismálum sem samþykkt
var svo breytt að skipuð skyldi nefnd til að gera tillögur um úrbætur. Þáv. hæstv. heilbrrh. skipaði sérstaka nefnd sem gera skyldi tillögur um úrbætur í málefnum geðsjúkra afbrotamanna og veittar voru tvær millj. kr. í því skyni og tillögum skilað árið 1982. Nefndin lagði til að stofnuð yrði réttargeðdeild ríkisins undir stjórn yfirlæknis sem væri starfsmaður dómsmrn. en sú tillaga er í rauninni í samræmi við 3. gr. laga um fangelsi og vinnuhæli, nr. 38/1973.
    Í svari sínu við fyrirspurn minni taldi hæstv. heilbrrh. að málið væri tæplega í verkahring heilbrigðisþjónustunnar samkvæmt lögum heldur heyrði það undir málefni dómsmrh. og skilja mátti að þar toguðust menn á um málið. Hæstv. þáv. dómsmrh., Jón Sigurðsson, taldi hins vegar geðsjúka afbrotamenn eiga heima í sjúkrahúsi og það mundi hann leggja til í frv. til nýrra fangelsislaga sem lagt yrði fram á næstunni. Þau lög tóku síðan gildi 1. jan. 1988.
    Tími minn er takmarkaður, hæstv. forseti, og því skal mál mitt stytt. Sannleikurinn er hins vegar að enn er engin raunhæf lausn fyrir hendi. Hinn 8. nóv. sl. bar hv. 4. þm. Reykn. Karl Steinar Guðnason fram fyrirspurn um hvað heilbrrn. hefði aðhafst í málefnum geðsjúkra afbrotamanna. Enn svaraði hæstv. núv. heilbrrh. að í kjölfar nýrra fangelsislaga hefði enn verið skipuð nefnd fyrir tilstilli tveggja ráðuneytanna sem ekki hefði lokið störfum en ljóst væri að hún legði til stofnun réttargeðdeildar eins og hin fyrri en beðið er eftir lokatillögu.
    Um árabil hafa geðsjúkir afbrotamenn alið aldur sinn í fangelsum landsins og nú hafa þeir atburðir gerst sem öllum eru kunnugir. Tveir fársjúkir einstaklingar og einn þroskaheftur eru þegar þetta er talað í gæsluvarðhaldi þó að slíkt varðhald sé fyrst og fremst til þess ætlað að auðvelda rannsókn mála sakhæfs fólks. Þessi sorglegu mál eru upplýst hvað varðar þá sem af sér brutu og öllum er ljóst að þeir þarfnast fyrst og fremst hjálpar og öryggisgæslu. En ábyrgðin er okkar. Angist aðstandenda þessa fólks verður ekki með orðum lýst, en miskunnarleysi samfélagsins sýnist á stundum algert, sbr. vinsælt fréttaefni sumarsins af íþróttavöllum borgarinnar. Á æskustöðvum mínum hefðu það ekki þótt góðir mannasiðir að skopast að

sjúklingum. Þar komum við hvert öðru við.
    Áðurnefndir atburðir, hæstv. forseti, valda því að ég krefst þess að hæstv. ráðherrar svari því hér og nú afdráttarlaust: Er þess að vænta að málefni þessara samborgara okkar, sem bágast eiga allra, verði leyst á þann hátt sem sæmir samfélagi siðaðra manna?