Málefni geðsjúkra afbrotamanna
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Sólveig Pétursdóttir :
    Hæstv. forseti. Sú umræða, sem hér fer fram um málefni geðsjúkra afbrotamanna, er mjög þörf og því ber að fagna henni. Undanfarin ár hefur verið gert stórt átak til að byggja upp nútímageðlæknisþjónustu hér á landi. Þó hefur ekki verið hægt að sinna sem skyldi málefnum geðsjúkra afbrotamanna þar sem algjör skortur hefur verið á aðstöðu fyrir svonefndar réttargeðlækningar en það er mjög sérhæfð þjónusta. Því er það fagnaðarefni að nú standi til að koma upp aðstöðu fyrir slíka þjónustu eins og hæstv. heilbrrh. hefur skýrt hér frá og hæstv. dóms - og kirkjumrh. tók undir. Þetta á að gerast nú loksins í kjölfarið á áratuga umræðu þegar ljóst er að þjónusta við geðsjúka hefur verið allt of neðarlega á forgangslista stjórnvalda.
    Það er enn fremur staðreynd að þótt ýmislegt hafi verið vel gert í þessum málum, þá þarf að gera enn betur til þess að þörfum geðsjúkra sé vel mætt. Því betur sem staðið er að þörfum þessa fólks, bæði á sviði heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu, því meiri líkur eru á því að dragi úr fordómum og að skilningur almennings aukist á þessum sjúkdómum.
    Tómas Zoëga, formaður Geðlæknafélags Íslands, ritar mjög athyglisverða grein um þetta málefni í Morgunblaðinu í morgun undir fyrirsögnini ,,Þögul barátta``. Þessi orð held ég að séu nokkuð lýsandi fyrir erfiðleika þessara sjúklinga og aðstandenda þeirra. Læknirinn bendir á að margir kjósi að afneita því hversu algengir geðsjúkdómar séu og skýrir frá því að gera megi ráð fyrir að a.m.k. tveir af hverjum þremur landsmönnum fái geðsjúkdóma fyrir 81 árs aldur ef þeir lifi svo lengi. Þessar truflanir eru vafalaust misalvarlegar en engu að síður er þetta mjög há tala, ekki síst í ljósi þess að innan við helmingur þessa hóps fær meðferð. Enn fremur segir orðrétt í grein geðlæknisins, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þó að geðtruflanir séu meðal algengustu sjúkdóma sem hrjá fólk í dag hafa yfirvöld, ríkisstjórn og alþingismenn, sýnt þeim ótrúlegt tómlæti á seinni árum. Þessu verður að breyta.``
    Þeir voveiflegu atburðir, sem átt hafa sér stað undanfarna daga, draga skýrt fram þá brýnu þörf að komið sé upp aðstöðu fyrir geðveika afbrotamenn. En eins og ég nefndi áður, þá er einnig þörf á því að koma meira til móts við þarfir geðsjúkra almennt. Það hlýtur að koma öllum þjóðfélagsþegnum til góða.