Málefni geðsjúkra afbrotamanna
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherrum fyrir þau svör sem hér hafa komið fram. Það er vissulega gleðilegt að nú loksins skuli vera í sjónmáli einhver lausn á þessu átakanlega vandamáli. Fyrir þremur árum birtist í tímaritinu Mannlíf, 7. tölubl. 1987, grein sem hét ,,Skógarmenn okkar tíma``. Þar átti greinarhöfundur við það fólk sem ósakhæft hafði orðið fyrir því að fremja afbrot og var um árabil búið að sitja í fangavist þó það hefði verið dæmt ósakhæft. Í þeirri grein fór landlæknir hörðum orðum um yfirvöld fyrir meðferðina á þessu fólki. Ég verð því að lýsa vonbrigðum mínum yfir því að heyra það enn og aftur að hæstv. ráðherra boðar að enn skuli slíkur einstaklingur sendur í fangelsi erlendis. Það getur hver ímyndað sér hvernig er fyrir slíkan mann að þurfa að dveljast erlendis, hugsanlega án þess að vera fær um að tjá sig á því tungumáli sem í landinu er talað. Ég hef þekkt tilvik, vegna minna fyrri starfa, um fólk sem varð fyrir því að þurfa að fara í slíka vist án þess að skilja eitt aukatekið orð af því sem við það var sagt og að sjálfsögðu ófært um að tjá sig við það fólk sem það umgekkst daglega. Það er auðvitað engin lausn og vanlíðan þessa fólks er áreiðanlega næg til þess að á það bætist ekki með þessum hætti. Ég vona því að við þurfum aldrei að vita af því aftur að fólk sé sent til slíkrar vistunar í öðrum löndum.
    Þegar þessi þróun mála er skoðuð varðandi þær aðgerðir sem nú eru á döfinni þá hlýtur maður að undrast það dálítið að sú nefnd sem tillöguna gerði upphaflega um réttargeðdeild skyldi hvergi nærri koma þegar ný nefnd var skipuð átta árum seinna. Í hinni fyrri nefnd, sem Ingvar Kristjánsson læknir stýrði, voru þjóðkunnir kunnáttumenn á sviði geðheilbrigðismála og vissulega eru fulltrúar þeirra mála líka í hinni síðari nefnd, en það vekur athygli að enginn sem var í fyrri nefndinni skyldi vera í hinni síðari. Ég get þess vegna tekið undir þau orð sem hæstv. forseti sameinaðs þings sem nú situr viðhafði einmitt í umræðu sem átti sér stað hér í nóvember sl., en þar sagði hún, með leyfi hæstv. forseta: ,,Það er alltaf verið að skipa nefndir, alltaf verið að gera kannanir en það er ekkert gert til þess að bæta úr.`` Nú skal ég ekki taka svo djúpt í árinni þar sem horfur eru nú á að eitthvað sé verið að gera. Þó las ég það í einu dagblaðanna að líklega væri eitt ár í það að slík réttargeðdeild gæti tekið til starfa og það er of langur tími. Við höfum illilega orðið þess vör á síðustu dögum.
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki fara fram yfir leyfðan tíma. Ég held að við séum öll sammála sem hér erum inni að úr þessum málum verði að bæta því það hlýtur að vera skylda okkar sem teljumst með ráði og rænu að við berum ábyrgð á og sjáum til þess að þeir sem orðið hafa fyrir þeirri ógæfu að missa vit sitt vegna sjúkdóms fái þá meðhöndlun sem sæmileg er í einu ríkasta þjóðfélagi veraldar.