Málefni geðsjúkra afbrotamanna
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir að leyfa mér að koma hér aftur því líklega hef ég talað allan minn tíma áðan og skal nú reyna að vera stuttorður. Það eru aðeins örfá atriði sem hér hafa komið fram. Hv. 17. þm. Reykv. nefndi það að stórátak hafi verið gert að undanförnu til að byggja upp nútímageðlæknisþjónustu og það vil ég undirstrika, það hefur verið gert þó svo að við höfum ekki getað leyst öll vandamálin sem við hefur verið að glíma. Kannski vantar það að félagslega þjónustan hafi síðan tekið við af þessari uppbyggingu í geðlæknisþjónustunni vegna þess að hún hefur einmitt miðað að því að loka ekki lengur einstaklinga inni. Það er eitt af því sem menn hafa verið að leggja áherslu á, að það væri ekki læknisaðferðin, það ætti að reyna að koma fólkinu aftur út í þjóðfélagið en þá hefur e.t.v. vantað þann stuðning sem nauðsynlegur var þegar þangað kom á nýjan leik.
    Það var einmitt út af seinustu orðum hv. málshefjanda, 13. þm. Reykv., um það að í einu dagblaðanna í dag kemur fram að við þurfum að bíða e.t.v. eitt ár enn og haft eftir landlækni, Ólafi Ólafssyni. Ég vil láta það koma hér skýrt fram að þetta hlýtur að vera einhver misskilningur. Hér er beinlínis sagt: ,,Að sögn landlæknis er ósennilegt að þessi deild taki til starfa fyrr en á næsta ári.`` Við munum leggja alla áherslu á að það geti gerst hið fyrsta. Það verður innan tíðar gengið frá ráðningu yfirlæknisins og við höfum fjármuni til reksturs og heimild til húsnæðiskaupa. Auðvitað verður það að gerast í samráði við væntanlegan yfirlækni en það verður vonandi --- og ég vil leyfa mér að fullvissa hv. þm. um að við munum ekki bíða svo lengi eins og hér er nefnt eftir að málið er loksins komið á þennan rekspöl.
    Síðan það að ósakhæfir afbrotamenn séu sendir erlendis í fangelsi, sagði hv. málshefjandi. Ég vil segja við ágætan hv. þm. að þar erum við í samstarfi við sænska réttargeðdeild, en ekki fangelsi. Ég vona líka, eins og ég sagði áðan og tek undir með hv. 13. þm. Reykv., að það verði í síðasta sinn sem við þurfum að grípa til slíkra úrræða, því bæði er það afar kostnaðarsamt, þar er um að ræða tungumálaerfiðleika, og þá auðvitað félagsleg vandamál og samskiptavandamál sem því fylgja, að til slíkra hluta þurfi ekki að koma og við getum nú litið til nokkuð bjartari framtíðar hvað þetta varðar, þennan erfiða málaflokk sem við erum hér að fjalla um eins og ég reyndar lauk máli mínu með áðan.