Norrænt samstarf
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Ólafur G. Einarsson :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir skýrslu um norrænt samstarf frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Það er 341. mál þingsins og er á þskj. 600.
    Í þessari skýrslu er gerð grein fyrir störfum Norðurlandaráðs árið 1990 og fram í janúar þetta ár. Það er gerð grein fyrir störfum Íslandsdeildar, forsætisnefndar og fastanefndar ráðsins og störfum síðasta Norðurlandaráðsþings sem haldið var hér í Reykjavík dagana 27. febrúar til 2. mars 1990.
    Um þessi störf almennt vísa ég til skýrslunnar en ætla hér að fjalla með örfáum orðum um nokkur málefni, þ.e. samskipti Norðurlandaráðs við Eystrasaltsríkin, skipulagsmál Norðurlandaráðs, fjármögnun samstarfsins, Norrænu eldfjallastöðina og undirbúning næsta Norðurlandaráðsþings sem hefst nú um helgina og haldið er í Kaupmannahöfn.
    Eins og kunnugt er hafa störf Norðurlandaráðs á alþjóðavettvangi verið að aukast mjög undanfarið. Á liðnu ári heimsótti forsætisnefnd Norðurlandaráðs Evrópuráðið og gerði þar samning við Evrópuráðið um áframhaldandi samskipti. Í sömu ferð heimsóttu fulltrúar forsætisnefndar Mannréttindadómstólinn. Fulltrúar forsætisnefndarinnar sóttu fund Benelúx-landanna í Lúxemborg og formaður laganefndar ráðsins, Sighvatur Björgvinsson alþingismaður, átti á starfsárinu fund með fulltrúum frá laganefnd Evrópuþingsins. Sjö manna sendinefnd frá Norðurlandaráði heimsótti æðsta ráð Sovétríkjanna og Eystrasaltsríkin þrjú. Fulltrúar frá félags- og umhverfismálanefnd heimsóttu Eystrasaltsríkin og Leningrad. Og fulltrúar menningarmálanefndar áttu fund með fulltrúum Evrópuráðsins.
    För sjö manna sendinefndarinnar til Eystrasaltsríkjanna varð ekki fyrr en eftir miklar umræður og efasemdir frá mörgum um það hvort rétt væri að taka upp samskipti við þessi ríki. Förin var loks farin í október á sl. ári og var undir forsæti forseta ráðsins, Páls Péturssonar. Að mati allra sem hlut áttu að máli var þessi för gagnleg og til þess fallin að koma á árangursríku samstarfi við Eystrasaltsríkin. Það er ekki ólíklegt að förin geti leitt til þess að Eystrasaltsráðið, sem nú er samstarfsvettvangur ríkisstjórna Eystrasaltsríkjanna, verði einnig gert að þingmannaráði. Við það mundi skapast eðlilegur samskiptagrundvöllur milli Norðurlandaráðs og Eystrasaltsráðsins.
    Fulltrúar Eystrasaltsríkjanna sýndu að vonum mikinn áhuga á að þing þeirra fengju að senda áheyrnarfulltrúa á þing Norðurlandaráðs. Á því eru þau vandkvæði að reglur Norðurlandaráðs heimila ekki að neinum sé veitt staða áheyrnarfulltrúa og fremur ólíklegt er að breyting verði á því í nánustu framtíð. Hins vegar hefur þingum ríkjanna verið boðið að senda fulltrúa sem gesti á næsta þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn og verða það líklega þingforsetar ríkjanna þriggja sem þangað koma.
    Auk þessa má kannski segja að þessi för fulltrúa frá forsætisnefndinni hafi orðið til þess að 13 tillögur um aukið samstarf við Eystrasaltsríkin og Austur - Evrópu hafa verið lagðar fram í Norðurlandaráði og

eru þær á dagskrá þingsins nú í næstu viku.
    Auk fyrrnefndrar ferðar til Eystrasaltsríkjanna sendi forsætisnefnd þriggja manna nefnd að boði þingsins í Litáen til að fylgjast með þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fór þar fram nú í byrjun febrúar.
    Á árinu starfaði á vegum Norðurlandaráðs skipulagsnefnd sem nú hefur lagt fram tillögur um breytta starfshætti í Norðurlandaráði. Ástæður þess að nefndin var skipuð voru þær að mörgum sýndist að þær öru breytingar sem nú verða á alþjóðlegu samstarfi í Evrópu kölluðu á skilvirkari starfshætti hjá Norðurlandaráði. En Norðurlandaráð er nú kannski þekkt fyrir eitthvað annað en að taka skjótar ákvarðanir. Tillögur skipulagsnefndar liggja nú fyrir og verða til umræðu á þinginu í Kaupmannahöfn. Við í Íslandsdeild erum kannski ekki alls kostar sáttir við þessar tillögur allar þó við styðjum þær í aðalatriðum. Okkur þykir fremur lítið fara fyrir hagræðingu í starfi ráðsins en þeim mun meiri áhersla er lögð á að styrkja stöðu flokkahópanna í ráðinu á kostnað landsdeildanna. Þetta er þróun sem hófst fyrir nokkru og vekur ugg um að Ísland muni í framtíðinni ekki sitja við sama borð og hin ríkin, hvorki varðandi áhrif í störfum þess né um skiptingu um trúnaðarstöður. Það er svo sem ekki fullljóst hvernig við munum bregðast við nema að því leyti að við munum augljóslega ekki sætta okkur við að í okkar hlut falli færri trúnaðarstöður en í hlut hinna.
    Annað sem veldur okkur nokkrum áhyggjum er að ráðherranefndin hefur nú ákveðið að norrænu fjárlögin muni næsta ár ekki hækka að raunvirði en þau eru nú að fjárhæð tæplega 700 millj. danskra króna. Einnig ber þess að geta að norræna samstarfsáætlunin um efnahagsmál, sem fjármögnuð hefur verið utan við norrænu fjárlögin, rennur út árið 1992 og hvorki hefur ákvörðun verið tekin um að framhald verði á því starfi né stendur til að veita samsvarandi fjármunum til nýrra norrænna verkefna eftir 1992. Þessi stöðnun í norrænu fjárlögunum hefur það í för með sér að nýjum verkefnum fylgir að hætta þarf við önnur og gjarnan eru, eins og kunnugt er, skiptar skoðanir um mikilvægi verkefna og stofnana.
    Í fyrra kom upp sú staða að lagt var til að lagðar yrðu niður fjórar norrænar stofnanir, Nordplan, Asíustofnunin, Sjóréttarstofnunin og Norræna þjóðkvæðastofnunin. Þessum tillögum var illa tekið og fjölmargir aðilar höfðu samband við fulltrúana í Norðurlandaráði og lýstu áhyggjum yfir þessum áformum. Það er nefnilega þannig með norrænt samstarf eins og ýmislegt annað að margir sem finna því flest til foráttu mundu sakna margs ef það yrði lagt niður.
    Tillögurnar um að leggja niður þessar stofnanir hafa ekki komið til framkvæmda en ráðherranefndin hefur nú lagt fram tillögu um starfsáætlun, um breytingar á fjármögnun og skipulagi norrænna menningarstofnana o.fl. Samkvæmt þessari tillögu verður ætlast til að þau ríki þar sem stofnanirnar eru taki meiri þátt en hingað til í fjármögnun þeirra auk þess sem stofnanirnar skulu í auknum mæli fjármagna starfsemina með greiðslum fyrir veitta þjónustu. Einnig stendur til

samkvæmt tillögunni að leggja niður einhverjar stofnanir og ætlar ráðherranefndin að hafa náð því marki árið 1994 að lækka kostnað vegna stofnananna um 30 millj. danskra kr. árlega. Þetta þýðir einfaldlega það að allar norrænar stofnanir eru í vissri hættu.
    Þetta sem ég hef hér sagt leiðir hugann að Norrænu eldfjallastöðinni sem er hér á Íslandi. Ég vil í því sambandi nefna að forstöðumaður Norrænu eldfjallastöðvarinnar, Guðmundur Sigvaldason, hefur komið að máli við fulltrúa í Íslandsdeild, auk þess sem fulltrúar Íslandsdeildar hafa fengið afrit af bréfi, dags. 17. jan., sem forstöðumaðurinn sendi hæstv. menntmrh. Þar rekur forstöðumaðurinn nokkuð söguna, að þegar Norræna eldfjallastöðin var sett á stofn þá kom það í hlut íslenska ríkisins að sjá stofnuninni fyrir húsnæði en að öðru leyti kemur allt stofnfé og rekstrarfé stofnunarinnar frá fjárlögum Norðurlandaráðs. Stofnunin fékk í upphafi húsnæði í atvinnudeildarhúsnæðinu á háskólalóð þar sem fyrir var starfsemi Háskóla Íslands í jarðfræði og landafræði. Forstöðumaðurinn segir í þessu bréfi að tíu ár séu liðin síðan þetta húsnæði varð ófullnægjandi. En fyrir þremur árum hafi verið gert samkomulag milli Háskóla Íslands og ráðuneyta menntamála og fjármála. Þetta samkomulag er dagsett 10. nóv. 1988 og þar segir að Háskóli Íslands áformi að byggja jarðvísindahús árið 1991. Um það varð svo samkomulag að framlag ríkisins til þessarar húsbyggingar skyldi verða allt að 40 millj. kr. miðað við byggingarvísitölu í júlí 1988.
    Síðan gerðist það þann 11. jan. 1991 að fulltrúar Norrænu eldfjallastöðvarinnar voru boðaðir á fund byggingarnefndar Háskóla Íslands og þar upplýst að Háskólinn hefði ekki fjárhagslegt bolmagn til að fylgja þessum fyrri áformum og telur að a.m.k. tíu ár muni líða áður en hægt verði að hefja byggingu þessa húss.
    Forstöðumaðurinn lýsir þeirri skoðun sinni að vanefndir á þessu samkomulagi muni valda mjög hörðum viðbrögðum stjórnarmanna í Norrænu eldfjallastöðinni og vandséð að þeir eigi annarra kosta völ en að snúa sér hver til sinnar ríkisstjórnar. Hann telur að ekki þurfi að orðlengja að æskilegt væri að þetta verkefni íslenska ríkisins væri betur leyst til þess að ekki þurfi að koma til þessara viðbragða. Hann segir jafnframt að þetta sé þeim mun mikilvægara sem nú fari fram umræða um áherslubreytingar í dreifingu fjár til samnorrænna verkefna, eins og ég hef hér rakið fyrr í ræðu minni.
    Þetta vildi ég gera hér að þessu leyti að umtalsefni vegna þess að þetta hlýtur að vera áhyggjuefni þeirra sem vilja veg norrænna stofnana hér á landi sem mestan. Ég læt þess getið að við höfum rætt þetta mál á sameiginlegum fundi, fulltrúar í Íslandsdeild og hæstv. samstarfsráðherra, og mér er kunnugt um að þetta hefur einnig verið rætt í ríkisstjórninni og legg aðeins áherslu á að þetta mál fái farsæla lausn.
    Fyrir næsta þingi Norðurlandaráðs liggja 48 þingmannatillögur og 8 ráðherranefndartillögur. Margar þeirra eru hinar mikilvægustu en of langt mál yrði að telja þær upp. Ég vil sérstaklega þakka norrænu ráðherranefndinni fyrir eina tillögu. Það er tillaga um

norræna samstarfsáætlun um æðri menntun á Norðurlöndum. Þar er nefnilega fjallað um mál sem ég hef haft mikinn áhuga á og reynt að koma áleiðis bæði í fyrirspurnum og ræðum á Norðurlandaráðsþingum og eins í einkabréfum til norrænna menntamálaráðherra. Samkvæmt þessari ráðherranefndartillögu verða árið 1992 lögð fram drög að norrænum milliríkjasamningi um æðri menntun og þar verða ákvæði um að norrænir umsækjendur um nám við æðri menntastofnanir verði jafnréttháir án tillits til þjóðernis og að ekki verði sérstakir kvótar fyrir norræna umsækjendur. Fleira sem á eftir að koma norrænum stúdentum til góða er talið þar upp en ég læt þetta nægja.
    Eins og fram hefur komið í máli mínu verður næsta þing Norðurlandaráðs haldið í Kaupmannahöfn dagana 25. febr. til 1. mars nk. Þá mun Páll Pétursson skila af sér sem forseti Norðurlandaráðs en hann hefur gegnt því trúnaðar- og virðingarstarfi um eins árs skeið. Þetta ár hefur að ýmsu leyti verið sérstakt í starfi ráðsins. Skipulagsmál hafa verið ofarlega á baugi, e.t.v. vegna þess að mönnum hefur sýnst hið norræna samstarf vera á nokkrum tímamótum m.a. vegna þróunar í Evrópu. Þá hefur umræðan á vettvangi ráðsins færst í æ ríkari mæli á svið utanríkismála þrátt fyrir efasemdir ýmissa um réttmæti þess. Þetta tvennt, skipulagsmál ráðsins og umræða um Eystrasaltsríkin og utanríkismál þar með, mun setja mestan svip á þing Norðurlandaráðs í næstu viku.
    Hæstv. forseti. Ég læt þetta nægja en vísa að öðru leyti til skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.