Norræna ráðherranefndin 1990 - 1991
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst umræður um skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs hafa þróast með þeim hætti að ég velti því fyrir mér hvort það hefði verið skynsamlegt að fyrst hefði verið mælt fyrir öllum skýrslunum og síðan hefði farið fram almenn umræða. En þetta er nú svona ábending til seinni tíma.
    Mig langar í stuttu máli til að gera grein fyrir þeirri skýrslu sem ég hef lagt fram sem samstarfsráðherra Norðurlanda um störf norrænu ráðherranefndarinnar 1990 og fram til mánaðamótanna janúar/febrúar 1991. Hún byggir að sjálfsögðu á þeirri skýrslu sem ráðherranefndin hefur sjálf gefið út um norræna samstarfið, sem er stór og mikil bók sem ég tók nú með mér hér í pontuna. En ég ætla ekki að lesa mikið upp úr henni heldur fjalla um skýrslu íslenska samstarfsráðherrans í fáum orðum.
    Samstarfsráðherrarnir héldu sex fundi á starfsárinu. Síðasti fundur samstarfsráðherra var 11. jan. sl. í Kaupmannahöfn. Starfsemi ráðherranefndarinnar hefur verið með hefðbundnum hætti og á bak við samstarfsráðherrana eru skrifstofur Norðurlandamála sem eru starfræktar í utanríkisráðuneytum allra landanna. Á skrifstofu Norðurlandamála hjá utanrrn. á Íslandi hafa starfað Jón Júlíusson skrifstofustjóri og Áslaug Skúladóttir deildarstjóri.
    Norrænu fjárlögin eru kannski fyrst og fremst verkefni samstarfsráðherranna, að setja samstarfinu fjárlög, þ.e. þann fjárhagsramma sem þau hafa til sinnar starfsemi. Það kom reyndar fram í máli frummælanda fyrir skýrslu Íslandsdeildarinnar að fjárlögin eru komin upp í tæpar 700 millj. dkr. Sú stefna hefur nú verið tekin upp að þau skuli haldast óbreytt að raungildi milli ára. Það er fyrst og fremst að kröfu Dana og hafa Svíar enn fremur tekið undir þá kröfu að útgjöld verði ekki aukin þannig að segja má að það sé búið að frysta starfsemi Norðurlandaráðs að því leytinu til að fjárlögin munu nú haldast óbreytt að raungildi næstu árin. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir því að það verði miklar tilfærslur innan ramma fjárlaganna eftir því sem verkefnaval breytist og forgangsröðun verði breytt þannig að það megi taka mið af þeim straumum sem eru hverju sinni. Eftir sem áður hafa fjárveitingar verið langmestar til menningarmála svo og umhverfismála. Síðan hefur, eins og undanfarin ár, verið miklu veitt til Evrópumála sem hafa haft nokkurn forgang meðal málaflokka sem norræna samstarfið hefur verið með.
    Það er áfram unnið að gerð sérstakrar áætlunar um stöðu Norðurlanda í samstarfi Evrópuþjóðanna og hefur verið fjallað um það frá flestum hliðum hvaða áhrif vaxandi samvinna Evrópulandanna muni hafa á Norðurlandasamstarfið, bæði innan Evrópubandalagins og eins hefur verið hugað að því hvað muni gerast ef hið sameiginlega evrópska efnahagssvæði verður að veruleika. Samin hefur verið sérstök áætlun um að styrkja heimamarkað Norðurlanda til að búa þau betur undir þetta víðtæka efnahagslega og menningarlega samstarf. Þar hefur fyrst og fremst verið fjallað um sameiginlegan markað, bæði vörumarkað og þjónustu, menningar- og menntunarsamfélag, vinnumarkað, samgöngumál, vinnuverndarstefnu, neytendamál og umhverfismálastefnu. Þá hefur það verkefni að fjalla sérstaklega um samband Norðurlanda og Austur - Evrópu orðið æ meira áberandi í samstarfi Norðurlanda og var stór hluti af störfum ráðherranefndarinnar á starfsárinu 1990 -- 1991. Það var byrjað á að kanna forsendur slíks samstarfs mjög rækilega og var t.d. sérstök skýrsla, sem ráðherranefndin óskaði eftir að yrði samin um málefni Eystrasaltsríkja, birt í haust sem leið. Danskur sérfræðingur var fenginn til að fara í heimsókn til Eystrasaltsríkjanna og kanna forsendur samstarfs við Eystrasaltsríkin og birtist sú skýrsla á haustmánuðum. Þá má minna á Ronneby - fundinn í Svíþjóð sem var haldinn í september 1990, en hann markaði tímamót í samstarfi Norðurlanda og þeirra ríkja sem eiga strönd að Eystrasalti, þar með talin Eystrasaltsríkin. Þar hittust forsætisráðherrar allra landanna og varð samkomulag um sérstaka áætlun, svokallaða Eystrasaltsáætlun, sem miðar að því að reyna að koma umhverfismálum við Eystrasalt í betra horf en nú er. Hefur síðan verið samin sérstök framkvæmdaáætlun Eystrasaltsríkja og annarra ríkja sem eiga lönd að Eystrasalti um hvernig megi ná fram þeim markmiðum.
    Þá hefur ráðherranefndin látið semja sérstaka áætlun um samstarfið milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkja sérstaklega og eins annarra Austur - Evrópuríkja sem eru nágrannar Norðurlanda. Þar má t.d. telja Pólland, Austur - Þýskaland og þau landsvæði Sovétríkjanna sem eru í grennd við Norðurlönd. Þessi framkvæmdaáætlun gerir ráð fyrir að það verði sérstaklega þrjár leiðir samstarfs.
    Í fyrsta lagi verði um norrænt styrkjakerfi vegna menntunar- og menningarsamstarfs að ræða milli Norðurlanda og Eystrasaltsríkja og hefur verið varið um 5 millj. dkr. á árinu 1991 til þeirrar starfsemi. Þá var tekin sú ákvörðun að opna upplýsinga- og menningarskrifstofur í öllum höfuðborgum Eystrasaltsríkjanna þ.e. í Tallinn, Riga og Vilnu, og verður varið 4,5 millj. dkr. árin 1990 og 1991 til þessa verkefnis en að tveimur árum liðnum verður svo árangur metinn af starfsemi þessara upplýsingaskrifstofa. Verið er að ráða forstöðumenn allra skrifstofanna og eru þær að hefja störf sín eða munu verða opnaðar á næstu vikum.
    Þá er í þriðja lagi um að ræða almenn samstarfsverkefni með bæði Eystrasaltsríkjum og öðrum Austur - Evrópuríkjum, grannsvæðum við Norðurlönd eins og ég gat um áðan, og verður varið 4,8 millj. dkr. á árunum 1990 og 1991 til slíkra verkefna.
    Þá má minna á umhverfisfjárfestingarfélagið NEFCO, sem svo hefur verið skammstafað. Það hóf starfsemi sína í október 1990 með stofnfé upp á 36 millj. SDR en Íslendingar greiða sinn hluta af stofnfénu samkvæmt norræna deililyklinum. Þá var líka um að ræða að lánarammi Norræna fjárfestingarbankans var hækkaður úr 700 millj. SDR í 1.000 millj. SDR vegna norrænna fjárfestingarlána, svokallaðra verkefnalána, sem eru fyrst og fremst hugsuð til þess að auðvelda norrænum fyrirtækjum að takast á hendur verkefni í Austur - Evrópu. Má geta þess að íslensku fyrirtækin Virkir-Orkint og sömuleiðis Icecon hafa notið aðstoðar við verkefni sem þau hafa tekist á hendur. Virkir-Orkint í Ungverjalandi og einnig mun Virkir-Orkint hugsanlega taka að sér verkefni í Rússlandi, en Icecon hefur sinnt verkefnum í Arabalöndum og fengið til þess stuðning frá Norræna fjárfestingarbankanum.
    Mig langar til að fara örfáum orðum um þær ráðherranefndartillögur sem ráðherranefndin mun leggja fram til umræðu og afgreiðslu á Norðurlandaráðsþinginu í Kaupmannahöfn í næstu viku.
    Í fyrsta lagi er um að ræða nýtt norrænt kvennaþing. Ákveðið hefur verið að halda annað kvennaþing í líkingu við það sem var haldið í Ósló 1988 og hefur verið samþykkt að verja 13,5 millj. dkr. á tímabilinu 1992 -- 1995 til undirbúnings þessa þings. Gert er ráð fyrir að það verði haldið í Danmörku og munu þátttakendur verða um 10.000 manns.
    Þá er í öðru lagi lögð fram tillaga um norræna umhverfisrannsóknaáætlun. Hún er mjög viðamikil og gerir ráð fyrir þremur meginverkefnasviðum. Það er í fyrsta lagi rannsóknir á loftslagsbreytingum, rannsóknir á umhverfisvandamálum sem tengjast Eystrasalti og síðan eru rannsóknir á þjóðfélagslegum forsendum umhverfismálastefnu þar sem reynt er að tengja saman efnahagslegar forsendur og umhverfisverndarstefnu.
    Af hálfu Íslendinga voru gerðar nokkrar athugasemdir við þessa rannsóknaáætlun meðan hún var í mótun þar sem okkur þótti ekki hafa verið tekið nægjanlegt tillit til þeirra nauðsynlegu verkefna sem tengjast Norður - Atlantshafi. Í sambandi við rannsóknir á loftslagsbreytingum bentum við á að þar er Norður - Atlantshafið og rannsóknir á umhverfismálum sem tengjast Norður - Atlantshafi lykilatriði. Það verður vart fjallað um loftslagsbreytingar á jörðinni nema til komi viðamiklar athuganir á því sem er að gerast í Norður- Atlantshafinu, þ.e. á samspili hafs og lofts, rannsóknir á hafstraumunum í Norður-Atlantshafi og ýmsum öðrum þáttum sem tengjast því hafsvæði. Á þetta var hlustað og sérstök bókun var samþykkt sem segir að það verði tekið fullt tillit til verkefna á Norður - Atlantshafi og það verði séð til þess að fjárframlög til slíkra verkefna rúmist innan þess fjárhagsramma sem þessari áætlun er settur.
    Þá má benda á þriðju tillöguna sem fjallar um samstarfsverkefni á háskólastigi. Þar er um að ræða að breyta og endurbæta svokallaða NORDPLUS-áætlun sem gerir ráð fyrir kennaraskiptum og nemendaskiptum á háskólastigi.
    Fjórða tillagan fjallar um menntunarsamfélag á framhaldsskólastigi. Þar er gert ráð fyrir, sem mér þykir afar athyglisvert, að framhaldsskólanemendur geti ferðast á milli Norðurlanda, stundað nám um stundarsakir í einhverju Norðurlandanna og fengið það að fullu viðurkennt þegar þeir koma heim aftur til áframhaldandi náms við sinn skóla sem þeir hafa áður

verið í. Þarna skapast möguleikar á því að nemendur á Norðurlöndum geti farið í heimsóknir og kynnst námi og samfélagi á hinum Norðurlöndunum án þess að það þurfi að trufla sjálft framhaldsnámið sem að sjálfsögðu er aðalatriðið.
    Framsögumaður fyrir skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, hv. þm. Ólafur G. Einarsson, fjallaði að nokkru um nýtt skipulag norrænna stofnana sem er fimmta ráðherranefndartillagan. Eins og hann gat um er gert ráð fyrir því að dregið verði úr beinu framlagi til slíkra stofnana og reynt í staðinn að finna leið til þess að fjármagna þær með beinum fjárframlögum þeirra ríkja þar sem þessar stofnanir eru svo og þeirra notenda sem nota stofnanirnar.
    Sjötta ráðherranefndartillagan er um ár gigtveikra 1991. Það er ætlunin að árið 1991 verði gert sérstakt átak til þess að vekja athygli á vandamálum gigtveikra og þeim rannsóknum sem eru nauðsynlegar til þess að fjalla frekar um þennan geigvænlega sjúkdóm sem herjar á okkur.
    Sjöunda ráðherranefndartillagan fjallar um öruggari umferð á Norðurlöndunum. Samin hefur verið sérstök framkvæmdaáætlun fyrir árin 1992 -- 1994 til að stuðla að bættu umferðaröryggi og betri háttum í þeim efnum.
    Áttunda ráðherranefndartillagan fjallar um breytingar á Helsingfors - samningnum. Hv. þm. Ólafur G. Einarsson fjallaði einnig um það í sinni framsögu með skýrslu Íslandsdeildarinnar og hef ég litlu þar við að bæta. Ég vildi aðeins geta þess að það varð niðurstaðan að þær tillögur sem skipulagsnefndin lagði fram voru aðeins teknar inn í þessar ráðherranefndartillögur að hluta til og fjalla þær því aðeins um breytingar á starfsemi þings Norðurlandaráðs. Aðrar tillögur og hugmyndir verða aðeins ræddar á þinginu í næstu viku, svo sem að utanríkisráðherrar Norðurlanda taki við störfum samstarfsráðherra og þar með yrði embætti samstarfsráðherra lagt niður. Eins er það hugmynd sem hefur komið fram í skýrslu nefndarinnar að fjármálaráðherrar taki við þeim hluta starfa samstarfsráðherranna að semja fjárlög fyrir Norðurlandasamstarfið. Menn eru mjög efins um að þetta sé skynsamlegt, eða a.m.k. eru mjög skiptar skoðanir um þessar tillögur og geri ég ráð fyrir að það verði fjörug skoðanaskipti um þetta á þinginu.
    Síðasta tillagan fjallar um að komið verði á fót sérstöku rannsóknarráði til þess að fjalla um löggjöf og reglugerðir innan Evrópubandalagsins. Mér sýnist í sjálfu sér ekkert veita af því að um það verði fjallað. Nægir hér að benda á bláskinnuna sem ég sé á borði eins ráðherrans en þar er einmitt fjallað um lög og reglur sem eru í gildi innan Evrópubandalagsins og sýnist nú að ráðlegt væri að fela einhverjum að kafa svolítið ofan í það og kanna hvað þær bera með sér.
    Þá ætla ég að hlaupa hratt yfir aðra starfsemi ráðherranefndarinnar. Þar hefur verið fjallað um mjög mörg og mismunandi málefni. Það hefur átt sér stað mikið samstarf á sviði umhverfismála og væri hægt að flytja langa ræðu um öll þau miklu verkefni sem þar eru í gangi og það fjöruga samstarf sem á sér stað á

vegum ráðherranefndarinnar um umhverfismál. En ég læt mér nægja að vísa til þess kafla í skýrslu minni sem fjallar um þau verkefni. Eins er verkefnið ,,Öflugri Norðurlönd``, sem er tengt Evrópusamstarfinu og sameiningu Evrópu í öflugt markaðssvæði en það er einmitt þessi undirbúningur Norðurlanda til að geta tekist betur á við það samstarf sem er fram undan innan Evrópu.
    Menningar- og menntamál hafa sem áður verið mjög stór þáttur í störfum ráðherranefndarinnar en sá málaflokkur hefur frá fornu fari verið einhver mikilvægasti málaflokkurinn sem samstarfið fjallar um og byggir á. Eins hefur verið fjallað um heilbrigðis- og almannatryggingamál, um sjávarútvegsmál, um norræna líftækniáætlun, um húsnæðis- og byggingarmál og um norrænan vinnumarkað. Vísa ég til skýrslunnar þar sem er fjallað sérstaklega um þessi verkefni.
    Mig langar hins vegar til að fara örfáum orðum um Norræna fjárfestingarbankann. Þetta er ein af þeim stofnunum sem eru í hvað örustum vexti á vegum Norðurlandasamstarfsins. Hefur starfsemi fjárfestingarbankans gengið mjög vel á árinu. Hagnaður á árinu 1990 varð 37 millj. SDR eða um 3 milljarðar ísl. króna. Eftir afskriftir og framlög í varasjóð og tryggingasjóð útlána verður útgreiddur arður um 8 millj. SDR og mun því arðgreiðsla til íslenska fjmrn. verða um 6 millj. ísl. kr. á árinu 1990. Fjárhagsstaða bankans er mjög sterk og hefur hann fengið viðurkenningu þekkts alþjóðlegs fjármálafyrirtækis og fengið flokkun í hæsta lánstraustsflokk, Aaa, en ekkert Norðurlandanna eitt sér kemst í þann flokk.
    Á fyrstu átta mánuðum ársins 1990 hefur bankinn veitt Íslendingum lán samtals að upphæð 16,9 millj. SDR eða rúmlega 1.300 millj. ísl. kr. en útistandandi lán til Íslands frá upphafi stofnunar bankans nema nú samtals 236,8 millj. SDR sem eru um 8,6% af heildarútlánum bankans. Miðað við að hlutur Íslands í bankanum er aðeins 1% verður að segja að sennilega hefur engin norræn stofnun komið okkur eins vel til góða og Norræni fjárfestingarbankinn.
    Þá langar mig til að fjalla sömuleiðis í örfáum orðum um Norræna verkefnaútflutningssjóðinn. Hann var stofnaður árið 1982 og er fyrst og fremst ætlað að hvetja til útflutnings norrænna fyrirtækja á verkefnum til Austur - Evrópu og þróunarlanda. Núverandi forstöðumaður verkefnaútflutningssjóðsins er Þorsteinn Ólafsson viðskiptafræðingur, en hann tók við störfum fyrir u.þ.b. ári síðan. Verkefnaútflutningssjóðurinn hefur m.a. aðstoðað íslensku fyrirtækin Virkir-Orkint og Icecon eins og ég gat um áðan ásamt Norræna fjárfestingarbankanum.
    Þá get ég einnig fjallað örstutt um Norræna þróunarsjóðinn en hann var stofnaður 1. febr. 1989. Hefur sjóðurinn það verkefni með höndum að styrkja félagslegar og efnahagslegar framfarir í þróunarlöndum. Sjóðurinn er til húsa hjá Norræna fjárfestingarbankanum og hefur að stofnfé 100 millj. SDR. Hefur sjóðurinn þegar hafið starfsemi sína og komið inn í ýmis verkefni, aðallega í Afríkuríkjum.
    Þá má geta um önnur samstarfsverkefni svo sem

norrænt samstarf á sviði neytendamála og afnám tæknilegra viðskiptahindrana.
    Í umræðum um skýrslu Íslandsdeildarinnar var fjallað eilítið um Norrænu eldfjallastöðina og tek ég undir með frsm., hv. þm. Ólafi G. Einarssyni, að við þurfum finna lausn á húsnæðismálum þeirrar stofnunar. Það er Íslendingum til vansa að þeir skuli
ekki geta fundið lausn sem aðilar geta sætt sig við á húsnæðismálum stofnunarinnar. Það væri miður ef það yrði til þess að tekin yrði ákvörðun um það að leggja þá stofnun niður. Við vitum að nú er vakað yfir hverri stofnun innan hins norræna samstarfs og ef einhver brotalöm finnst í rekstri einhverrar stofnunar má alltaf búast við því að það verði reynt að hætta starfsemi hennar. Það er alveg ljóst að það er leitað með logandi ljósi að því hvernig megi ná fram sparnaði í Norðurlandasamvinnunni til þess að viðhalda því markmiði að fjárlögin þurfi ekki að aukast að raungildi milli ára. Þess vegna held ég að það sé mjög brýnt að við finnum sameiginlega lausn á því hvernig megi leysa húsnæðismál Norrænu eldfjallastöðvarinnar.
    Það er annað hliðstætt vandamál sem hefur komið upp í sambandi við norrænt samstarfsverkefni um jarðskjálftarannsóknir á Suðurlandi en það er verkefni sem er nánast kostað eingöngu af fjármunum sem samstarf Norðurlanda leggur til. Það hefur borið svo einkennilega við að af rannsóknartækjum sem hafa verið flutt hingað vegna verkefnisins frá Norðurlöndum þarf að greiða fullan virðisaukaskatt. Það þykir hinum norrænu samstarfsaðilunum að sjálfsögðu skrýtið þegar um er að ræða verkefni sem er eingöngu kostað af norrænu fé, að það skuli síðan þurfa að taka hluta af þeim fjármunum og greiða sérstaka skatta til íslenska ríkisins vegna þeirra reglna sem hér gilda um virðisaukaskatt.
    Þá langar mig til að fjalla í nokkrum orðum um vestnorræna samstarfið þó svo við munum heyra skýrslu vestnorrænu þingmannanefndarinnar hér á eftir og hafa þá tækifæri til að fjalla enn frekar um það samstarf. Vestnorræna samstarfið heyrir að sjálfsögðu undir ráðherranefndina og reyndar er starfandi sérstök norræn embættismannanefnd um byggðastefnu, svokölluð NÄRP-nefnd. Í umboði hennar starfar síðan sérstök vestnorræn embættismannanefnd sem hefur einn starfsmann sem hefur aðsetur í Færeyjum. Fulltrúar Íslands í þeirri nefnd eru Jónas Hallgrímsson framkvæmdastjóri, Seyðisfirði, og Bjarni Einarsson, aðstoðarforstjóri Byggðastofnunar. Sérstakur norrænn þróunarsjóður fyrir hin vestlægu Norðurlönd tók til starfa í Reykjavík 1987 og hefur sjóðurinn aðsetur hjá Byggðastofnun. Forstöðumaður sjóðsins er Steinar Bent Jakobsson. Sjóðurinn hefur að auki starfsmenn í Færeyjum og á Grænlandi. Stofnfé þessa sjóðs eru 14,1 millj. Bandaríkjadala og er hluti Íslands í stofnfé sjóðsins 400 þús. Bandaríkjadalir.
    Í nóvember 1990 hafði norræni þróunarsjóðurinn veitt tíu lán alls og voru átta þeirra veitt íslenskum fyrirtækjum en aðeins eitt lán veitt til Færeyja og eitt til Grænlands. Hefur það vakið athygli að erfitt hefur reynst að finna hæf verkefni bæði í Færeyjum og á Grænlandi. Er um það að ræða að bæði hafa efnahagsaðstæður í þessum tveimur nágrannaríkjum okkar valdið því að fyrirtæki almennt eiga erfitt uppdráttar og hafa ekki getað mætt hinum ströngu kröfum sjóðsins um tryggingar, en sömuleiðis hefur líka vantað að kynna betur starfsemi sjóðsins í Færeyjum og á Grænlandi. Er nú verið að kynna starfsemi sjóðsins betur til að vekja athygli á þeim möguleikum sem fyrirtæki hafa til lántöku í gegnum norræna þróunarsjóðinn.
    Þá hefur vestnorræna samstarfið verið sérstaklega tekið til umræðu á fundum ráðherranefndarinnar. Íslenski samstarfsráðherrann lagði fram sérstaka tillögu á síðasta ráðherrafundi samstarfsráðherra þann 11. jan. sl. í Kaupmannahöfn þess efnis að stofnað verði sérstakt útibú frá ráðherraskrifstofunni í Kaupmannahöfn sem yrði staðsett í Reykjavík þar sem yrðu forstöðumaður og aðrir starfsmenn sem hefðu það verkefni fyrst og fremst með höndum að fjalla um hagsmuni vestnorrænu þjóðanna, þ.e. Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga. Þessi tillaga fékk þá afgreiðslu að það var samþykkt að fela embættismönnum norrænu ráðherraskrifstofunnar að semja sérstaka greinargerð um málið og skila henni fyrir næsta fund samstarfsráðherra sem verður í Kaupmannahöfn í tengslum við Norðurlandaráðsþingið. Því miður verður að segjast eins og er að greinargerð embættismannanna er fremur neikvæð. Þeir telja að sjálfsögðu að þetta vestnorræna samstarf sé í góðu lagi eins og það er og ekki nauðsyn þess að stofnuð verði sérstök skrifstofa í Reykjavík til þess að sinna því betur. Engu að síður hef ég þrýst á að þetta verði tekið upp til formlegrar afgreiðslu í ráðherranefndinni. Hef ég fengið vilyrði bæði danska samstarfsráðherrans og fleiri samstarfsráðherra fyrir því að þetta verði skoðað mjög gaumgæfilega, en rökstuðningur minn hefur verið sá að norræna samstarfið beinist nú mjög í austurátt, þ.e. að augu manna á Norðurlöndum beinast mjög til austurs. Það er mikill áhugi fyrir samstarfi við Austur - Evrópu og sérstaklega Eystrasaltslöndin. Við Íslendingar höfum að sjálfsögðu lýst yfir ánægju okkar yfir því að eiga betra og nánara samstarf við bæði Eystrasaltsríkin og sérstaklega þau Austur - Evrópuríki sem nú eru að stíga sín fyrstu skref í átt til lýðræðis í þeim anda sem við þekkjum hér á Vesturlöndum. En þó að þetta séu spennandi verkefni og spennandi tímar, og það sé eðlilegt að þetta heilli hugi okkar, þá mega þjóðirnar hér í Norður - Atlantshafinu ekki gleymast alveg í þessu samstarfi. Við vekjum athygli á því að við erum töluvert langt frá aðalstofnunum og miðstöðvum norræns samstarfs í Skandinavíu. Við eigum erfiðara með að sækja samnorræna fundi sem eru oftast haldnir í einhverri höfuðborg Norðurlandanna, í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og stundum í Finnlandi, og þess vegna væri það mjög æskilegt að hægt væri með einhverju móti að styrkja vestnorræna samstarfið. Ég tel að slík skrifstofa sem lagt hefur verið til að yrði stofnuð í Reykjavík og sinnti fyrst og fremst málefnum þessara þriggja landa, Grænlands, Færeyja

og Íslands, gæti verið mjög mikilvæg í þessu sambandi.
    Hér var nýlega á ferð formaður grænlensku landsstjórnarinnar, Jónatan Motzfeldt, og tók hann mjög undir þessi sjónarmið, en á fundi hans og forsrh. var samþykkt yfirlýsing þess efnis að efnt skyldi til víðtækara samstarfs milli Grænlands og Íslands á sviði efnahags - og menningarmála, sömuleiðis á sviði samgöngumála og annarra þeirra málefna sem varða hagsmuni þessara tveggja ríkja. Og í yfirlýsingunni er um það rætt að bjóða Færeyingum að gerast aðilar að slíku samstarfi.
    Þá má sömuleiðis minna á það að Jógvan Sundstein, sem er nú orðinn samstarfsráðherra eða fulltrúi færeysku landsstjórnarinnar í ráðherranefnd samstarfsráðherra, hefur mjög tekið í sama streng í athyglisverðri grein sem hann birti um efnahagssamstarf þessara þjóða í Norður - Atlantshafinu í tímaritinu Nordisk kontakt nýlega. Ég tel því að það sé mjög tímabært að taka þetta málefni upp til rækilegrar umræðu og fá niðurstöðu sem ég tel að eigi að vera sú að hér verði rekin öflug skrifstofa sem sinni hagsmunum þessara þriggja þjóðlanda og ég er mjög hvetjandi þess og bið um að allir þingmenn leggist á eitt með það að tala fyrir þessari tillögu um að það verði tekið upp víðtækt samstarf þessara þriggja landa, en þau eiga svo margt sameiginlegt.
    Og að lokum, virðulegi forseti, langar mig rétt til að fjalla örstutt um norrænt samstarf almennt og framtíð þess. Það hafa komið upp ýmis vandamál í tengslum við norrænt samstarf núna á seinni árum og ég hef reyndar þegar fjallað um nokkur þeirra. Mig langar aðeins til þess að vekja athygli á einu atriði sem hefur sérstaklega verið til umræðu sl. sumar, en það eru stöðuveitingar hjá norrænu ráðherranefndinni. Íslendingar áttu einn deildarstjóra hjá ráðherranefndinni á skrifstofu hennar í Kaupmanahöfn þangað til í sumar sem leið og þannig áttu þeir einn fulltrúa í æðstu yfirstjórn ráðherraskrifstofunnar. Því miður gerðist það að þegar íslenski fulltrúinn, deildarstjóri menningardeildarinnar sem var Tryggvi Gíslason, skólameistari á Akureyri, hvarf frá störfum og aftur til Akureyrar þar sem hann hefur tekið á nýjan leik við starfi skólameistara, var sú staða að sjálfsögðu auglýst. Þá gerðist það að íslensku umsækjendunum var vikið til hliðar og eftir mikið málþóf var að lokum ráðinn finnskur umsækjandi til þess að gegna stöðu deildarstjóra menningarmáladeildar. Þannig er staðan þessa stundina að Íslendingar eiga engan fulltrúa í æðstu yfirstjórn ráðherraskrifstofunnar sem er miður. Við höfum vakið athygli á þessu og teljum að það sé raunverulega ekki stætt á því að Ísland, þó það sé lítið í samstarfi Norðurlandaþjóðanna, þá er það þó eitt af þeim fimm frjálsu ríkjum sem Norðurlandasamstarfið byggist á, sé án fulltrúa í æðstu yfirstjórn ráðherraskrifstofunnar.
    Sama hefur orðið uppi á teningnum með aðrar stöður, þó svo við höfum aðeins getað rétt hlut okkar nú núverið, en þetta eru hlutir sem við verðum að fylgjast mjög náið með og gæta þess að hinar Norðurlandaþjóðirnar noti sér ekki í krafti þess hvað þær eru stórar að okkur sé nánast ýtt til hliðar í þessu efni. Annaðhvort byggi þetta samstarf á því að hér sé um að ræða fimm jafnréttháar þjóðir, svo og þrjú sjálfsstjórnarsvæði, eða þá það verður að endurskilgreina með hvaða hætti þetta samstarf skuli eiga sér stað.
    Margir halda því fram að norrænt samstarf skili okkur litlum árangri og þetta séu fyrst og fremst fundahöld og mikil pappírsvinna og höfum við öll heyrt ýmsar dylgjur um allt pappírsflóðið sem fylgir Norðurlandaráðsþingunum. En þegar öllu er á botninn hvolft held ég, eins og kom reyndar fram í máli frummælanda, hv. þm. Ólafs G. Einarssonar, að mörgum mundi bregða í brún ef allt yrði tekið frá okkur sem áunnist hefur með norrænu samstarfi, ef við vöknuðum upp á morgun við það að búið væri að skrúfa tímann til baka og taka af okkur öll þau réttindi sem Norðurlandasamstarfið hefur fært okkur, svo sem sameiginlegan vinnumarkað, frjálsan flutning fólks milli landa án vegabréfa og margt fleira. Enda virðist nú vaxandi tilhneiging meðal ríkja sem finna með sér menningarlega samkennd að efna til samstarfs í líkingu við það sem á sér stað meðal Norðurlanda. Núna nýlega hafa þjóðirnar, sem áður voru innan vébanda gamla austurríska keisaradæmisins, ákveðið að taka upp með sér menningarsamstarf í líkingu við það sem Norðurlöndin gera. Það er gaman að segja frá því að sendinefnd frá þessum ríkjum, þ.e. Júgóslavíu, Ítalíu, Austurríki, Ungverjalandi og Tékkóslóvakíu, kom í heimsókn til ráðherranefndarinnar í Kaupmannahöfn til þess að kynna sér starfsemi ráðherranefndarinnar og hvernig samstarfi Norðurlanda er háttað. Þess vegna held ég að Norðurlandasamstarfið hvíli á traustum fótum og það muni verða svo um alla framtíð. Ef eitthvað er, þá spái ég því að fleiri þjóðir sem eiga slíka menningarsögulega arfleifð eins og Norðurlöndin muni efna til slíks samstarfs. Hugsanlegt er að allar Evrópuþjóðirnar muni engu að síður mynda sameiginlegt efnahagssvæði, en það kemur ekki í veg fyrir að ýmsar þjóðir innan þessa sameiginlega efnahagssvæðis Evrópu geti átt með sér samstarf á sviði menningarmála og annarra þeirra málefna sem varða þær þjóðir sérstaklega.