Norræna ráðherranefndin 1990 - 1991
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Danfríður Skarphéðinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil einnig þakka fyrir þessa skýrslu eins og þá hina fyrri og lýsa því hér sem minni skoðun að mér finnst það vera jákvæðar áherslur sem fram koma í þeim tillögum sem norræna ráðherranefndin mun leggja til á komandi Norðurlandaráðsþingi. Eins og kom fram í máli hæstv. umhvrh., sem einnig er samstarfsráðherra Norðurlandaráðs, eru stærstu póstarnir í samstarfi okkar við Norðurlöndin menningarmál og umhverfismál.
    Ég vil aðeins víkja örfáum orðum að þessum tillögum og byrja á því að lýsa ánægju minni með það að ákveðið skuli hafa verið að efna til nýs norræns kvennaþings. Það var mjög ánægjulegt þing sem haldið var sumarið 1988. Það sem e.t.v. var ánægjulegast við það, burt séð frá því að hlutfallslega var þátttaka Íslands mest á Norðurlöndum, var það hversu þátttakan var almenn af Íslands hálfu, en til Óslóar þyrptust þá konur úr borg, sveit og bæ. Það kom reyndar í ljós að margar hverjar, þó að á miðjum aldri væru, höfðu ekki lagt land undir fót yfir hafið fyrr á ævi sinni. Það tel ég hafa verið sérstaklega ánægjulegt. Þar sem líklegt er að tillaga þessi verði samþykkt vil ég benda á að einmitt sú staðreynd að konur komu úr öllum áttum í þjóðfélaginu og að bakgrunnur þeirra var mjög misjafn varð þess valdandi að sumar gátu ekki notið þeirrar dagskrár sem í boði var í Ósló til fulls vegna þess að ekki var túlkað yfir á íslensku. Ég vil gera þessa athugasemd hér og beina þeim tilmælum til þeirra sem starfa á vettvangi Norðurlandaráðs að ráðstafanir verði gerðar til þess að túlkað verði þegar næsta ráðstefna verður haldin.
    Ég vil líka víkja aðeins að orðum hæstv. ráðherra um samstarfsáætlun um umhverfisrannsóknir og hvernig þær rannsóknir tengjast þjóðfélagsforsendum og efnahagsmálum. Ég fagna þessari áætlun sérstaklega vegna þess að ég tel að Norðurlöndin eigi að geta verið öðrum þjóðum fordæmi á þessum vettvangi og tel mjög mikilvæga þá þætti sem hæstv. ráðherra taldi upp sem eiga að felast í þessari rannsóknaáætlun.
    Ég vil sömuleiðis víkja að gildi samstarfsáætlana um menntun, þ.e. bæði á háskólastigi og framhaldsskólastigi. Ég tel að það geti verið mjög örvandi fyrir skólakerfið hjá okkar, og reyndar á Norðurlöndunum öllum, fyrir bæði nemendur og kennara við háskóla og framhaldsskóla að slíkt samstarf skuli skipulagt. En ég vona þó að það sem kallað er hér menntunarsamfélag á framhaldsskólastigi feli ekki um leið í sér þá kröfu að saminn verði samræmdur námsvísir fyrir Norðurlöndin. Ég þykist vita að svo sé ekki, en ég vara mjög við því vegna þess að aðalatriðið er að sett séu markmið með því námi sem viðurkennt yrði á milli landanna án þess þó að það þyrfti að samræma það í öllum smáatriðum.
    Ég vil víkja einni spurningu til hæstv. ráðherra varðandi þennan lið tillagna hans. Í þessum lið er kveðið á um að ekki skuli krefja um greiðslu ,,fyrir kennslu, kennsluefni og þess háttar sem nemendur frá norrænum ríkjum verða aðnjótandi,`` eins og þar segir orðrétt. Fyrir mér vakir aðeins sú praktíska spurning vegna þess að við vitum að íslenskir nemendur á framhaldsskólastigi eyða tugum þúsunda í bækur á ári hverju, hvort þar með sé verið að segja að hinir norrænu nemendur einir fái ókeypis kennsluefni eða allir nemendur framhaldsskólans, en ég tel reyndar að svo ætti að vera.
    Ég sé svo ekki ástæðu til að víkja að öðrum tillögum í bili. Ég get tekið undir þær allar því að þær eru allar jákvæðar og uppbyggilegar. Ég tel að sú hefð sem komin er á norræna samstarfið sé okkur öllum mikilvæg og við eigum að einhverju leyti orðið okkar rætur í því. Og alveg burt séð frá því hver þróun mála verður í Evrópu tel ég einsýnt að við munum áfram hafa þörf fyrir öflugt samstarf á vettvangi Norðurlanda, ekki síst á sviði umhverfis - og menningarmálanna.
    Hæstv. ráðherra minntist aðeins á vestnorræna samstarfið og tillögu Íslands um að opna hér útibú eða skrifstofu. Ég er hjartanlega sammála honum í því að það þarf að efla þetta starf en það sem ég tel fyrsta og síðasta skilyrðið í þeim efnum er að láta tillögur Vestnorræna þingmannaráðsins ekki daga uppi. Ég er hjartanlega sammála ráðherranum um það að við megum ekki gleyma vestrinu þótt austrið sé nú um stundir nýtt og gefandi verkefni.
    Ég vil að lokum ítreka það hér sem mína skoðun að ég tel að norræna samstarfið eigi framtíð fyrir sér og það sé mjög verðugt verkefni fyrir Norðurlandaþjóðirnar að sameinast um að verða til fyrirmyndar á sviði samstarfs í menningar - , umhverfis - og jafnréttismálum.