Ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1990
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Flm. (Árni Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins. Flm. eru sá sem hér stendur ásamt hv. þm. Alexander Stefánssyni, Margréti Frímannsdóttur, Málmfríði Sigurðardóttur og Hreggviði Jónssyni.
    Flutningur þessarar skýrslu er í samræmi við þær ályktanir sem gerðar hafa verið innan Vestnorræna þingmannaráðsins um að koma á framfæri og fá samþykktar á þjóðþingum landanna þær tillögur sem ráðið hefur flutt og samþykkt.
    Í þessari tillögu segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hrinda í framkvæmd eftirfarandi ályktunum Vestnorræna þingmannaráðsins sem samþykktar voru á fundi ráðsins í Þórshöfn í Færeyjum 4. sept. 1990:
    1. Að landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands kanni hvort grundvöllur er fyrir sameiginlegum samningaviðræðum um útflutning á fiskafurðum til landa Evrópubandalagsins.``
    Ég ræddi nokkuð um þetta mál þegar ég fjallaði um skýrslu Vestnorræna þingmannaráðsins fyrir árið 1990 og þarf ekki að fara fleiri orðum um þessa tillögu en hún hefur oft komið upp á borðið innan Vestnorræna þingmannaráðsins og verið þar mikið rædd, enda hygg ég að Færeyingar og Grænlendingar leggi á það mikla áherslu að Íslendingar reyni að hafa einhverja forustu í þessum málaflokki.
 ,,2. Að landsstjórnir Færeyja og Grænlands og ríkisstjórn Íslands vinni að því að komið verði á árlegum, skipulegum kennara- og nemendaskiptum á milli grunn- og framhaldsskóla í öllum aðildarlöndunum.``
    Þessi tillaga þarf ekki frekari skýringar við.
 ,,3. Að ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Færeyja og Grænlands hafi frumkvæði að samningu námsefnis um samfélagsaðstæður, menningu og lífsskilyrði í Færeyjum og á Grænlandi og Íslandi. Námsefnið verði samið til notkunar í skólum landanna í því skyni að auka upplýsingar og gagnkvæma kynningu þeirra þjóða sem byggja þessi lönd.``
    Meginástæðan fyrir flutningi þessarar tillögu, virðulegi forseti, er sú að það varð niðurstaða á síðasta fundi ráðsins að þessar þjóðir legðu kannski enn þá meiri áherslu á að kynna menningu og ýmsa samfélagsþætti annarra landa heldur en þeirra sem næst þeim standa, þ.e. þessi þrjú lönd, og í skólum þessara landa sé lögð á það meiri áhersla að kynna aðrar þjóðir en þær sem þær eiga í raun meira sameiginlegt með en öðrum þjóðum.
 ,,4. Að vestnorrænu löndin meti möguleika á samningum þeirra á milli um gjaldalausar landanir svo að fiskiskip geti óheft selt afla sinn í löndunum þremur.``
    Þessi tillaga þarfnast nokkurra skýringa. Hér á Alþingi hefur legið í salti nokkuð lengi frv. til laga um breytingar á lögum um heimildir fyrir erlend skip til þess að landa fiski í íslenskum höfnum. Gegn þessari tillögu hefur mjög verið þráast og því hefur farið svo að grænlensk og færeysk skip hafa ekki haft

frjálsan rétt til þess að landa fiski hér á landi. Tel ég það mjög miður og að á því þurfi að verða breyting og hvet því mjög til þess að það frv. sem nú liggur fyrir þinginu, og ég hygg að sé nú í sjútvn. hv. Nd., verði samþykkt áður en þing fer heim að þessu sinni.
 ,,5. Að vestnorrænu löndin hefji þegar viðræður um hvernig unnt sé með sameiginlegum aðgerðum að takmarka selastofninn svo að aftur náist vistfræðilegt jafnvægi í sjónum.``
    Þessi tillaga þarfnast engrar skýringar.
 ,,6. Að ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Grænlands og Færeyja hugleiði möguleika á samræmingu á reglum um æskulýðsferðir á Vestur-Norðurlöndum, hugsanlega með ,,Nordrejsekortet`` að fyrirmynd, og kanni einnig möguleika á að samræma þessar reglur reglunum um ,,Nordrejsekortet``. Vísað er til ályktana nr. 2/86 og 3/87.``
    Ekki þarfnast þessi tillaga frekari skýringa.
 ,,7. Að ríkisstjórn Íslands og landsstjórnir Grænlands og Færeyja hefji viðræður um að fjarskiptahljóðvarp og sjónvarpsnet landanna verði bætt svo að allir búi við sömu aðstæður í fjarskiptum.``
    Þetta er mjög mikilvæg tillaga og væri æskilegt að hæstv. samgrh. skoðaði hana fljótlega og léti kanna hvaða möguleikar eru á samstarfi á þessum vettvangi.
    Með tillögunni eru þrjú fylgiskjöl. Það eru yfirlýsingar frá Vestnorræna þingmannaráðinu sem einnig vega nokkuð þungt í afstöðu ráðsins til þeirra málaflokka sem yfirlýsingarnar fjalla um. Ég tel þó ekki ástæðu til þess að fara að lesa þær hér upp. Þær eru nokkuð langar og tef ég ekki tímann meira á því að fjalla um þetta mál.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til hv. utanrmn.