Stjórnsýsla á miðhálendi Íslands
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Hér er hreyft máli sem oft ber á góma í umræðum manna í millum, en það er hvernig haga skuli stjórnsýslu á hálendi Íslands, hver eigi hálendið, þ.e. það landsvæði sem telst til hálendis Íslands, og hvernig megi treysta löggæslu og eftirlit með mannaferðum á hálendinu og umsvifum mannsins þar og svo ekki hvað síst, hvernig sé hægt að vernda hina sérstæðu náttúru sem einkennir hálendi Íslands. Öll höfum við tekið þátt í að ræða þessi mál hvert á sínum vettvangi. Þessi mál hafa reyndar verið í umræðunni áratugum og jafnvel öldum saman.
    Eitt af verkefnum umhvrn. er að sinna alhliða umhverfisvernd, þar með talin málefni umhverfisverndar á hálendinu. Því var það að fljótlega eftir að umhvrn. var tekið til starfa tókum við að velta því fyrir okkur hvort ekki væri hægt með einhverjum aðgerðum að koma á traustari yfirstjórn mála á hálendinu, hvernig væri hægt að tryggja verndun þeirrar sérkennilegu og sérstöku náttúru sem einkennir hálendið og hvernig væri hægt að hafa betra eftirlit með ferðum manna og umsvifum mannsins á hálendinu. Í samráði við ríkisstjórnina var ákveðið í októbermánuði sl. að skipa sérstaka nefnd til þess að undirbúa aðgerðir til að bæta stjórnsýslu á hálendinu og taka til þeirra atriða sem ég hef hér nefnt. Í þessa nefnd voru skipaðir fulltrúar samkvæmt tilnefningum þingflokka sem eru á Alþingi, samkvæmt tilnefningum tiltekinna ráðuneyta og svo Sambands ísl. sveitarfélaga. Nefndinni var falið að undirbúa tillögur um frv. til laga um stjórnsýslu á hálendi Íslands og verndun þess.
    Þau atriði sem nefndinni var einkum ætlað að taka afstöðu til voru eftirfarandi: Hver eiga að vera mörk þess svæðis sem væntanleg lög taka til, með hvaða hætti á að ákveða þau mörk lögformlega, til hvaða stjórnsýsluþátta eiga lögin að taka, hvernig á að haga stjórnsýslu í einstökum atriðum, hvernig á að haga löggæslu - og eftirlitsstörfum á hálendinu og, eins og ég hef oft getið um, hvernig á að tryggja verndun þeirrar sérstæðu og einkennilegu náttúru sem einkennir hálendi Íslands? Með nefndinni störfuðu ótal fulltrúar og embættismenn þeirra ríkisstofnana sem hafa fjallað um hálendi Íslands, fulltrúar Landmælinga Íslands, Skipulags ríkisins og fleiri stofnana.
    Þegar fjallað er um stjórnsýslu og löggjöf um hálendi Íslands koma upp fjölmörg vandamál. Í fylgiskjali með þessari skýrslu er greinargerð sem Gunnar F. Guðmundsson sagnfræðingur samdi fyrir umhvrn. í tengslum við þetta mál. Þar er að finna mjög skemmtilegt yfirlit yfir hálendi Íslands, hvernig það í aldanna rás hefur öðlast viðurkenningu sem sérstakt hugtak í vitund almennings. Eins og Gunnar bendir á var hálendið hér áður fyrr ekki neitt sérstakt hugtak í vitund almennings né heldur ýmislegt sem við tengjum hálendinu í dag. Óbyggðir og hálendi og skyld orð voru einfaldlega ekki til í málinu. Hins vegar töluðu fornmenn um öræfi í merkingunni eyðiland, en það var eins og allir vita fyrst og fremst tengt landsvæðinu sunnan Vatnajökuls, samanber sérnafnið Öræfasveit.
    Það eru ævafornar lögsögu - og stjórnsýsluhefðir sem eru ríkjandi um afnotarétt á hálendinu og hvernig dómgæslu var hagað þar. Þó voru þau mál ekki í neinum sérstökum farvegi enda var náttúrlega um það að ræða að til forna var að sjálfsögðu mjög sérkennilegt stjórnsýslukerfi og er kannski ekki hægt að bera það saman við það stjórnsýslukerfi sem við búum við nú. Eins gerðu menn sér litla grein fyrir því fyrr en á allra síðustu áratugum hvernig ætti að skilgreina og afmarka hálendi Íslands. Það er þó athyglisvert að vitna til Þorvaldar Thoroddsen sem í riti sínu um lýsingu Íslands fjallar um hálendi Íslands, en þar leggur hann til þá skilgreiningu að aðalhálendi Íslands afmarkist við þá hæðarlínu sem er 2000 fet.
    Um eignarhald á hálendinu eru mjög skiptar skoðanir. Það var því strax í upphafi nefndarstarfa tekin sú ákvörðun að þessi nefnd mundi ekkert fjalla um eignarhald á hálendi né hverjir telja sig eiga rétt á afnotum á því landi sem þar er, heldur skyldi fyrst og fremst hugað að því með hvaða hætti væri hægt að að koma á einhverju kerfi í stjórnsýslu fyrir hálendið. Nefndin varð um það sammála að þetta væri mjög viðkvæmt og flókið mál og bæri því að fara afar varlega í að taka afgerandi ákvarðanir um hálendi Íslands heldur taka stutt og lítil skref í einu og reyna að nálgast niðurstöðu í málinu sem byggði á breiðu samkomulagi allra þeirra aðila sem telja sig þetta mikilvæga mál varða.
    Í fyrsta lagi var fjallað um það af hálfu nefndarinnar hvert skyldi verða umfang löggjafar sem rétt þætti að setja um hálendi Íslands. Í þessari skýrslu er lagt til að fyrsta skrefið í þá átt að setja heildstæða löggjöf um hálendið sé að koma einhverju lagi á það sem nefnt er byggingar - og skipulagsmál á hálendinu. Það er mat nefndarinnar að það sé kannski það verkefni og það viðfangsefni sem sé hvað brýnast að finna skynsamlega lausn á vegna þess að seinni árin hefur það farið ört vaxandi að verið er að reisa ýmis mannvirki á hálendinu. Er þar t.d. um að ræða miklar virkjunarframkvæmdir, lagningu háspennulína, svo og vegaframkvæmdir og síðan fer það mjög í vöxt að félagasamtök séu að reisa alls konar byggingar vegna starfsemi sinnar, fjallaskála bæði ferðafélaga og björgunarsveita sem hafa risið á víð og dreif um hálendið.
    Sú hugmynd kom upp hjá þeim aðilum sem hafa fjallað um þetta, m.a. hjá Skipulagi ríkisins, að ein leið til þess að sinna byggingar - og skipulagsmálum á hálendinu gæti falist í því að framlengja mörk allra sveitarfélaga sem liggja að hálendinu þannig að landinu öllu yrði þar með skipt í sveitarfélög. Töluverð vinna hefur verið lögð í að kanna þessa leið en hún sýnist mjög vandfarin vegna þess að þá gæti komið upp sú staða að sum lítil sveitarfélög gætu haft skika sem væri orðinn allt að 200 km langur inn á hálendið og þyrftu þau þá að sinna stjórnsýslustörfum, t.d. sem tækju til byggingar - og skipulagsmála, í órafjarlægð frá þeirri miðstöð sem stýrir slíkum málum í sveitarfélaginu. Þar sem oft væri um að ræða mjög lítil og fámenn sveitarfélög mundi það eflaust reynast

þeim algerlega ofviða að sinna því svo að viðunandi væri. Þess vegna er komin fram sú hugmynd sem hér er lýst, að afmarka hálendi Íslands sem sérstakt stjórnsýslusvæði. Það mætti þá hugsa sér að inni á þessu afmarkaða svæði giltu sérstök stjórnsýslulög um byggingar og skipulagsmál, sem er lagt til að verði fyrsta skrefið í þá veru að koma á heildarlöggjöf um hálendið. Þeirri hugmynd er síðan hreyft að sérstök stjórnskipuð nefnd fari með byggingar - og skipulagsmálefni þessa afmarkaða svæðis.
    Tillaga nefndarinnar um afmörkun hálendis Íslands er á öftustu síðu skýrslunnar. Þar er lögð fram hugmynd að línu sem afmarki miðhálendi Íslands eins og það er kallað í skýrslunni. Það kann að vera að mönnum sýnist sitt hvað um þessar hugmyndir en þetta eru hugmyndir sem nefndin telur að séu raunhæfar og skynsamlegar. Ég vek sérstaklega athygli á því að ýmsir hálendisstaðir, m.a. á Vestfjörðum og Snæfellsnesi, eru ekki teknir með, en hér ráða að sjálfsögðu hagkvæmnissjónarmið. Ég held að það yrði erfitt að taka tillit til fleiri landsvæða sem væru þar með langt hvert frá öðru, enda kannski auðveldara um vik að sinna stjórnsýslu á þessum tveimur umræddu stöðum, þ.e. á Snæfellsnesi og Vestfjörðum. Ef samkomulag yrði um að þessi leið yrði farin yrði þessi markalína að sjálfsögðu að vera skilgreind í lögunum. Það þyrfti að hnitsetja hana þannig að það væri alveg ákveðið, skýrt og greinilegt, hvar þessi mörk væru.
    Ég vil undirstrika að hér er aðeins um fyrstu hugmyndir að ræða og því er þessi skýrsla lögð fyrir Alþingi til að fá viðbrögð við þessum hugmyndum. En að sjálfsögðu munum við halda þessari vinnu áfram. Gert er ráð fyrir því að á Alþingi, þegar það kemur saman að nýju eftir kosningar í vor, verði eins fljótt og auðið er reynt að leggja fram frv. til laga um fyrirkomulag stjórnsýslu á hálendinu að því er tekur til byggingar - og skipulagsmála.
    Það má benda á að ýmsir hafa hreyft þeirri hugmynd að gera allt hálendi Íslands að friðlýstum þjóðgarði. Það er í sjálfu sér mjög athyglisverð hugmynd, en þar er um að ræða mjög viðamikið og flókið verkefni þar sem að sjálfsögðu þarf að fjalla um eignarhald, afnotarétt og margt fleira sem auðvitað þyrfti að undirbúa mjög vel áður en niðurstaða mundi fást í slíku máli. Því þótti okkur rétt að staldra hér aðeins við, leggja fram þessa litlu skýrslu og fá kannski einhver viðbrögð Alþingis við henni áður en lengra er haldið. Ég tel að á næstu árum þurfi að halda þessari vinnu áfram og með einhverju móti komast að niðurstöðu um það hvernig megi standa vörð um hálendi Íslands, þessa sérkennilegu náttúru sem þar er, og hvernig megi með löggjöf tryggja að löggæslu - og eftirlitsstörfum verði hagað á hálendinu svo að viðunandi sé.