Áhættulánasjóður og tæknigarðar
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Flm. (Guttormur Einarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þáltill. á þskj. 644, sem er 367. mál þingsins. Þáltill. fjallar um áhættulánasjóð og tæknigarða. Hún hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að koma á fót sérstakri sjálfseignarstofnun, Áhættulánasjóði Íslands, til að kosta undirbúning og koma af stað framleiðslu samkvæmt arðvænlegum hugmyndum einstaklinga. Sjóðurinn starfræki almenna tæknigarða þar sem veitt er aðstoð við smíði á frumeintökum og þróun þeirra.``
    Þetta mál var flutt á 110. löggjafarþingi af sjö þingmönnum Borgfl. en hlaut þá ekki afgreiðslu. Síðan þá hefur þörfin fyrir áhættulánasjóð og almenna tæknigarða aukist svo að til vandræða horfir og því er málið endurflutt. Öll meginatriði upphaflegrar greinargerðar eru í fullu gildi og verður því stuðst við þau.
    Virðulegi forseti. Ég vel mér það hlutskipti að láta greinargerðina tala sínu máli, en ég vil aftur á móti fjalla um ytri skilyrði þess að hér á landi starfi sérstakur áhættulánasjóður og í tengslum við tæknigarða.
    Það er nú svo að á undanförnum árum hafa allar þjóðir hér í nágrenni okkar kostað kapps um að efla alls konar nýsköpun í atvinnuvegum sínum og lagt til þess fjármuni að það mætti skila árangri. Dæmi sem kemur fram í greinargerðinni bendir á að það er álit manna í Danmörku að tæknigarðurinn ,,Opfinderkontoret`` þar hafi gefið danska ríkinu á sjö til átta árum jafnvirði 74 - faldrar þeirrar upphæðar sem var lagt í þá stofnun í upphafi. Hér um ræðir fyrst og fremst að kanna það sem í boði er af nýjum hugmyndum, meta verðgildi þeirra, smíða frumhugmyndirnar, kanna markaðsmöguleika, koma þeim á framfæri, útvega áhættulánafjármagn til að svo megi verða og sjá til þess að þetta skili ríkulegum tekjum, bæði höfundi hugmyndarinnar en ekki síður að áhættulánasjóðurinn fái hæfilega þóknun fyrir veitta fjárhagsaðstoð.
    Við vitum það samkvæmt upplýsingum sem hér liggja fyrir að á umliðnum árum hafa erlendar þjóðir sótt í æ ríkara mæli til þess að skrá einkaleyfi á Íslandi, talið þörf á því að tryggja réttarstöðu sína hér með því að leita eftir skráningum á einkaleyfum. Síðastliðin 11 ár hafa verið skráð hvorki meira né minna en 411 einkaleyfi á Íslandi í eigu erlendra ríkja. Á sama tíma hafa verið skráð 12 íslensk einkaleyfi. Þó þetta sé nokkuð sérhæft mál, þá segir það engu að síður sína sögu. Af því má telja víst að á 11 ára tímabili hefur verið talin ástæða til að hér væru skráð 430 einkaleyfi, markaður íslenskra aðstæðna teldi þörf á því, en um leið og það gerist eiga Íslendingar ekki nema 12 einkaleyfi, þ.e. af umsóknum sem lagðar voru inn á þessum tíma náðu aðeins 5% skráningu í eigu Íslendinga á meðan 46% af einkaleyfisumsóknum í eigu erlendra aðila náðu hér skráningu.
    Því geri ég þetta að umtalsefni að hér er bent á ýmsar veigamiklar staðreyndir sem gefa til kynna að allur aðbúnaður að nýsköpun í atvinnulífi á Íslandi hefur verið mun lakari heldur en tíðkast með okkar

nágrannaþjóðum. Það ber að vísu að hafa í huga að þegar sótt er um einkaleyfi hér á landi erlendis frá hafa þær hugmyndir hlotið sína eldskírn og náð skráningu erlendis og fyrir þær sakir fyrst og fremst eru þær að mögu leyti mun betur búnar til þess að hljóta slík réttindi hér. En hitt er ekki fyrir að synja að 240 hugmyndir að einkaleyfum komu til skráningar á Íslandi, en aðeins 12 náðu fram að ganga.
    Hér er brotalöm í okkar þjóðríki þegar um ræðir að koma á framfæri nýjungum sem þjóðina geta varðað miklu þegar hún hugar að framtíð sinni í atvinnumálum. Ef ekki má bregða skjótlega við og bæta úr í þessum efnum, þá horfir til stórvandræða því að hinar föstu grundvallartekjulindir þjóðarinnar eru senn fullnýttar og við horfum fram á það að með þeim fáum við tæpast lengur haldið uppi þeim lífsverðmætum sem við höfum tamið okkur á undanförnum árum. Þess vegna er brýn nauðsyn til þess að renna fleiri stoðum undir atvinnulíf, þá helst í framleiðslugreinum með útflutning að sjónarmiði og þar þýðir ekki að fást um hluti nema hafa tryggt sér einkarétt. Þannig segir í greinargerð um áhættulánasjóð og tæknigarða að þar verði faglega að málum staðið, hugmyndir metnar, þeim verði hjálpað áfram með ýmsum úrlausnum eða úrbótum og þær gerðar svo úr garði að af þeim leiði fullkomlega samkeppnishæfan varning til verðmætrar útflutningsframleiðslu um alla framtíð.
    Málum hvað snertir fjármagn og lánsfjármagn á Íslandi er þannig háttað að hér er í nær öllum tilfellum farið fram á fasteignaveð þegar veita á fjármagn í framkvæmdir. Það hefur sýnt sig á umliðnum árum að það eitt kemur stórlega í veg fyrir að tiltölulega lítt efnaðir einstaklingar eigi þess nokkurn kost að ryðja málum sínum braut eða kosta fremur dýrt þróunarstarf borið saman við öflugri fyrirtæki í íslenskum iðnaði. Engu að síður eru hugmyndir einstaklinga sem vilja ryðja sínum málum braut alveg jafnkostaríkar og þær sem öflugri fyrirtæki hafa fram að færa.
    Það er einu sinni svo að í þessu ágæta landi okkar vilja býsna margir vera sínir eigin konungar og fylgja sínum hugmyndum og málum eftir. Er ekki nema gott eitt um það að segja svo fremi sem þeir ráða við þau verkefni, steypi sér ekki í glötun með skuldsetningu og vandræðum sem komast hálfa leið með hugmynd og ekki lengra.
    Virðulegi forseti. Ég gæti haft langt mál um þessa þáltill. en ætla að láta mér nægja að vísa enn og aftur til greinargerðar sem henni fylgir og gera að tillögu minni að hún hljóti afgreiðslu og henni verði vísað til hv. allshn. ( Forseti: Forseti vill benda hv. þm. á að e.t.v. væri eðlilegra að málið færi til hv. atvmn. En um það má eflaust deila. Ég vildi því spyrja hv. flm. hvort hann leggur áherslu á að málið fari í allshn. Það er ekki fjarri lagi, alls ekki.)
    Virðulegi forseti. Áður en ég kom hér og ræddi þetta mál leitaði ég álits virðulegs forseta Nd. og það var hans skoðun að þetta mál skyldi, þó að um væri deilanlegt, að það væri ekki síður skynsamlegt að vísa því til allshn. ( Forseti: Forseti sættir sig algjörlega við það svar.)