Rækjumjölsverksmiðja á Ísafirði
Fimmtudaginn 21. febrúar 1991


     Flm. (Guttormur Einarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. á þskj. 645, 368. máli þessa þings, till. til þál. um aðstoð við að reisa rækjumjölsverksmiðju á Ísafirði. Hún er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að útvega rækjuvinnslustöðvum á Ísafirði og í nærliggjandi byggðum fjármagn til að reisa rækjumjölsverksmiðju á Ísafirði.``
    Í greinargerð kemur skýrt fram að þessar rækjuvinnslustöðvar hafa nú um nokkurt skeið lagt drög að því að byggja verksmiðju á Ísafirði sem vinnur úr tilfallandi úrgangi frá rækjuvinnslustöðvum. Það kemur einnig fram í greinargerðinni að talið er að sá úrgangur, sem um ræðir og ætlunin er að vinna úr á þessu vinnslusvæði, mun teljast vera um það bil 1200 tonn mjöls, þ.e. unnið er úr 4000 tonnum af úrgangi en það leiðir til 1200 tonna af mjöli sem metin eru vægt 30 -- 34 millj. kr. virði á ársgrundvelli.
    Það er rétt að það komi fram í þessari umræðu að verksmiðjusvæði fyrir slíkar mjölverksmiðjur eru talin hyggileg þrjú hér á landi. Það er í fyrsta lagi svæði fyrir Norðurland þar sem draga má saman nægilegan úrgang til að reka eina slíka verksmiðju. Þá er eðli máls samkvæmt ekki úr vegi að reisa slíka verksmiðju við Ísafjarðardjúp, sem og hér er nú lagt til að aðstoðað verði við. Í þriðja lagi er sýnilegt að tilfallandi hráefni úrgangs fyrir Vesturlandi og allt suður fyrir Reykjanes er nægilega mikið til þess að þar megi einnig starfrækja slíka verksmiðju.
    Þetta mál er þríþætt í eðli sínu. Í fyrsta lagi er hér um það að ræða að nýta úrgang frá fiskvinnslufyrirtækjum sem ella fer forgörðum, úrgang sem í öðru lagi veldur umtalsverðri mengun þar sem honum er hleypt í sjó fram eða honum á annan hátt er kastað og í þriðja lagi að skapa hér verðmætar afurðir sem margir telja nú ljóst að muni stórfellt aukast að verðmætum á allra næstu árum.
    Það sem gerir rækjumjöl hvað verðmætast er hið sérkennilega litarefni rækjuskeljarinnar, svonefnt astaxanthin. Það er hreinunnið sagt vera meira virði heldur en gull miðað við vigt.
    Fram að þessum tíma hafa fóðurframleiðendur komist upp á lag með að nota gervilitarefni, svokallað kontaxanthin, þegar þeir gera fóðurblöndur fyrir fiskeldi eða aðrar þær dýrategundir sem æskilegt er að litarefni berist til. Hins vegar eru heilbrigðis - og náttúruverndarsjónarmið sem óðast að koma hlutum þannig í kring í dag að það er óljóst hvenær til þess kemur að það verði jafnvel bannað að nota þetta gervilitarefni því að það þykir orka tvímælis að gefa það í fóðri dýrum sem síðar fara til manneldis, svo sem laxfiskum og öðrum slíkum dýrategundum, því að ekki er fyrir séð um með hvaða hætti þessi litarefni safnast upp í mannslíkamanum sem aðskotahlutir. Öðru máli gegnir um þetta náttúrlega astaxanthin sem er að finna í rækjuskel.
    Það blasa við nýjar vinnsluaðferðir við að verka rækju. Á sama hátt eru einnig í uppsiglingu nýjar

vinnsluaðferðir til að vinna rækjumjöl. Báðir þessir þættir styðja stórlega að því að auka verðmæti mjölsins, auka innihald þessa dýra litarefnis í mjölinu og þar með erum við komin á fulla ferð við að framleiða verðmæta útflutningsafurð úr úrgangi sem ella er fleygt og veldur mengun.
    Það er hins vegar deginum ljósara eins og staða mála hefur verið í rekstri rækjuvinnslustöðva hér á landi nú síðustu missirin að ekki er fyrirsjáanlegt að hrint verði í framkvæmd þeim góða ásetningi sem rækjuvinnslustöðvar við Ísafjarðardjúp hafa einsett sér: að reisa slíka mjölverksmiðju þar. Þar sem það er engu að síður talið brýnt að málið verði leyst er hyggilegt að leggja það fyrir hæstv. ríkisstjórn með þessum hætti, leysa aðsteðjandi vanda, koma málinu á rekspöl, fá verksmiðjuna reista og starfrækslu hennar komið af stað. Því það má telja nokkuð víst að mjög álitlegur rekstrargrundvöllur verði undir þessari verksmiðju strax frá byrjun. Og ekki er fram hjá því að horfa að til mikils er að vinna að koma í veg fyrir mengunaráhrifin og við slíka aðstoð er eðlilegt að ríkisstjórnin meti þær mengunarvarnaraðgerðir til nokkurs fjár sem þarna er verið að hrinda í framkvæmd.
    Virðulegi forseti. Að svo búnu mælist ég til að þetta mál verði afgreitt úr hv. sameinuðu þingi og því vísað til hv. atvmn.