Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegi forseti. Hv. 5. þm. Austurl. hefur kvatt sér hljóðs hér utan dagskrár um málefni sem hann hefur valið yfirskriftina ,,Leki á trúnaðarskjölum``. Ég tel reyndar að hér sé tekið nokkuð djúpt í árinni. Þetta er spurning um það hvenær trúnaði er létt af skjölum sem þó eru samin með því fororði til ákveðins aðila. Þegar sá aðili hefur tekið málið til umfjöllunar og meðhöndlunar, hvort þá er ekki af þeim létt þeim trúnaði. Í þessu tilfelli er um að ræða skjal sem samið er að beiðni forsrh. til ríkisstjórnarinnar.
    Með bréfi til Byggðastofnunar 4. febr. 1991 skýrði forsrh. frá því að á ríkisstjórnarfundi hinn 1. febr. hefði verið tekið fyrir erindi Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 28. jan. um aðstoð vegna atvinnumála á Seyðisfirði. Á ríkisstjórnarfundinum var samþykkt að fela Byggðastofnun athugun á erindinu og að skila umsögn til forsrh. Skýrsla Byggðastofnunar um atvinnulíf á Seyðisfirði sem unnin hefur verið er dags. 18. febr. sl. Barst hún forsrh. með bréfi dags. sama dag og skýrslan þá merkt sem trúnaðarmál. Forsrh. tók skýrsluna til umfjöllunar á ríkisstjórnarfundi 22. febr. sl. Eftir það var ekki litið á hana sem trúnaðarmál. Fjölmiðlar gátu því í raun fengið af henni eintak. Í einstaka tilvikum er tekin um það ákvörðun að ræða mál ekki utan funda ef umfjöllun er á viðkvæmu stigi en svo var ekki gert í þessu tilviki. Og þó að skýrslur og gögn séu merkt sem trúnaðarmál er slíkri leynd oft létt af eftir umfjöllun í ríkisstjórninni. Ég lít svo á að það hafi verið gert í þessu tilviki.
    Að ósk svæðisútvarpsins á Austurlandi féllst aðstoðarmaður forsrh. á að senda skýrsluna á föstudagseftirmidag. Svæðisútvarpinu var jafnframt sent bréf Byggðastofnunar sem fylgdi skýrslunni, enda hafði það bréf einnig verið lagt fyrir ríkisstjórnina þegar skýrslunni var dreift þar. Til þessa var þó ekki ætlast af hálfu aðstoðarmanns forsrh. enda yfirleitt ekki háttur í forsrn. að birta bréf sem berast þannig og fjalla um viðkvæm mál heldur fyrst og fremst skýrsluna eins og hún lá fyrir.
    Virðulegur forseti. Það er kannski ekki mikið meira um þetta að segja á þessu stigi. Mál á vinnslustigi eru því miður oft í umfjöllun í fjölmiðlum. Fjölmiðlar eru aðgangsharðir. Það er þeirra eðli og skylda að fylgjast með þjóðfélagsumræðunni. Ég tel hins vegar að hér sé ekki alvarlegt mál á ferðinni þó að í þessu tilviki sé efnislegri umfjöllun um þetta mál ekki lokið í ríkisstjórn.