Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Virðulegur forseti. Það er rétt sem hér hefur komið fram hjá sumum hv. þm. í umræðunni að málið sem skýrslan fjallar um þyrfti auðvitað og væri ekki óeðlilegt að það kæmi hér einhvern tíma til efnislegrar umfjöllunar. Það er ekki vettvangur þessarar umræðu í dag. Það var ekki beðið um þessa utandagskrárumræðu undir þeim formerkjum, heldur til að fjalla um meðferð á gögnum. Eins og kom fram hjá hv. 10. þm. Reykn. er þessari umfjöllun ekki enn lokið í ríkisstjórninni og því ekki von á því að skýrslan verði tekin hér til frekari umfjöllunar eins og mál standa.
    En hvað varðar ítrekun á fyrirspurn hv. 5. þm. Austurl. tel ég nú reyndar að ég hafi svarað því í mínu fyrra máli. Skýrsla þessi var ekki af hálfu ríkisstjórnarinnar lengur trúnaðarmál. Því svaraði reyndar hv. 6. þm. Norðurl. e. fyrir mig þannig að ég hef litlu við það að bæta sem hann sagði. ( Gripið fram í: Hver ákvað að létta af trúnaði?) Skjalið var að sjálfsögðu trúnaðarmál þegar það var sent ríkisstjórninni frá þeim sem það semur, en þegar það hefur verið tekið til umfjöllunar af þeim aðila sem bað um skýrsluna og fékk hana, sá aðili, þ.e. ríkisstjórnin, hafði rætt hana, tekið hana til umfjöllunar, þá var það ekki lengur trúnaðarskjal þar sem þá var ekki, eins og ég reyndar tók skýrt fram áðan, tekin sú ákvörðun í ríkisstjórninni að halda umræðu um málið lokaðri og láta það ekki fara út. Það var ekki gert. Það er gert í einstaka tilvikum, ég nefndi það áðan, einstaka tilvikum, ef umræða er talin á viðkvæmu stigi og ekki er rétt að láta fjölmiðla hafa gögn eða upplýsingar um málið. Það var ekki gert í þessu tilviki og þar með er auðvitað þessum trúnaði létt af. ( KrP: Hver ákvað það?) Það er gert á ríkisstjórnarfundinum þegar ekki er tekin ákvörðun um annað, eins og ég hef nú þegar skýrt a.m.k. tvisvar sinnum og þarf væntanlega ekki að gera í þriðja sinn, þannig að þá er trúnaði þessum aflétt.
    Það að þingmenn hafi ekki fengið gögnin er nú svo að þingmönnum er nú alla jafna ekki sendur allur sá bunki sem hverju sinni er dreift í ríkisstjórn. Mikið af því fer síðan, ef ekki er af einhverjum ástæðum talið nauðsynlegt að halda því utan við umræðu fjölmiðlanna, þá fara þessi plögg meira og minna til þeirra og svo er að sjálfsögðu með þessa skýrslu þar sem það var niðurstaðan að ástæðulaust væri að halda henni frá þeim.