Jón Sæmundur Sigurjónsson :
    Virðulegi forseti. Á undan þessari utandagskrárumræðu talaði formaður íslensku þingmannanefndarinnar til EFTA, Matthías Á. Mathiesen, og flutti skýrslu um starf okkar á síðasta ári. Hv. 1. þm. Reykn. Matthías Á. Mathiesen hefur verið formaður þingmannanefndarinnar og gegnt því starfi með miklum ágætum. Með okkur hefur verið sérstaklega gott samstarf og þótt hv. þm. sé ekki í sal í augnablikinu, þá vil ég frá þessum stað þakka honum alveg sérstaklega fyrir það góða samstarf sem við höfum átt í þessari nefnd á undanförnu ári.
    Verkefni þingmannanefndar EFTA hafa verið sérstaklega tvö, eins og kom reyndar fram hjá formanni nefndarinnar. Það er umfjöllun um framtíðarhlutverk þingmanna í Evrópsku efnahagssvæði, sem kemur til með að myndast eftir tilheyrandi samninga, og einnig samstarf allra ríkja í hinni lýðfrjálsu Evrópu, þ.e. allra ríkja innan Efnahagsbandalagsins, allra EFTA - ríkjanna en einnig hinna nýfrjálsu ríkja í Austur - Evrópu, þ.e. allra þeirra ríkja í Austur - Evrópu sem kosið hafa sér þing í lýðræðislegum kosningum. Við héldum fundi með þessum stóra hópi í Vín í maí og einnig nú í byrjun febrúar sl. í Genf þar sem fóru fram mjög uppbyggilegar umræður allra þessara fulltrúa um framtíðarskipan mála í Evrópu, þ.e. í hinni lýðfrjálsu Evrópu, og hvernig hátta megi framtíðarsamstarfi allra þessara þjóða. Það er alveg greinilegt að grundvöllur þess samstarfs verður lýðræði og frelsi sem byggist á starfi að efnahagslegri velmegun allra þessara ríkja.
    Meginstarfið hefur auðvitað verið að fylgjast með þeim samningum sem eiga sér stað hjá ráðherraráði EFTA við framkvæmdaráð Efnahagsbandalagsins. Og það verður að segja ráðherraráði EFTA til hróss að það hefur upplýst þingmannanefnd EFTA mjög vel um allt það sem fer fram á þeirra sviði og höfum við haldið reglulega fundi með ráðherraráði EFTA.
    Það má segja að sérstakt verkefni hinna íslensku fulltrúa í þingmannanefnd EFTA hafi verið að leggja áherslu á sérstöðu Íslands og leita eftir viðræðum og ná skilningi fulltrúa annarra landa á sérstöðu Íslands í þessu samstarfi, í samstarfi allra Evrópuríkjanna. Það hefur komið fram bæði í viðræðum og í umræðum á fundum með þingmönnum Evrópubandalagsins að ríkur skilningur er fyrir því hjá mörgum þeirra að taka verði sérstaklega tillit til þess að á Íslandi grundvallast lífskjör fyrst og fremst á fiskveiðum og það í þeim mæli að ekki þekkist annað slíkt meðal annarra þjóða. En því miður er það auðvitað ekki Evrópuþingið sem sér um samningaviðræður um framtíðarskipulag þessara mála heldur framkvæmdanefnd Efnahagsbandalagsins. Engu að síður er það mjög mikilvægt að auka skilning meðal áhrifamanna í Evrópu á hinni efnahagslegu sérstöðu Íslands.
    Svo ég víki að öðru þá hefur þing Efnahagsbandalagsins hins vegar verið misjafnlega viljugt til að mynda einhvers konar stofnun þingmanna af Evrópska efnahagssvæðinu. Þar hefur þó aðallega komið til, að minni hyggju og fleiri, spenna milli þings Efnahagsbandalagsins og framkvæmdanefndar þess. Spenna um völd og ákvarðanatöku, hver á að ráða hverju og hver tekur ákvörðun um hvaða mál og að hve miklu leyti á að snúa málum til þings Evrópubandalagsins. Oft á tíðum höfum við á tilfinningunni að þingmönnum frá Evrópubandalaginu finnist þeir vera settir á hliðarbekk af þeirra eigin framkvæmdanefnd. Þetta hefur bitnað svolítið á samstarfinu við þingmannanefnd EFTA og EFTA yfirleitt í okkar samskiptum við þingmenn Evrópubandalagsins. Einnig hafa komið upp umræður þar sem þingmenn Evrópubandalagsins hafa vikið að því hvort þeir séu að tala við stofnun þar sem EFTA er, sem yfirleitt komi til með að verða til í framtíðinni þar sem nokkur aðildarríki EFTA hafa annaðhvort nú þegar lýst því yfir að þau sækist eftir aðild að Evrópubandalaginu eða gefið í skyn að þau hyggist gera það í framtíðinni.
    Þingmenn EFTA hafa yfirleitt mætt þessum umræðum á þann hátt að benda á þá sterku samstöðu sem ríkir meðal EFTA-ríkjanna þrátt fyrir umsóknir og áhuga á inngöngu í Evrópubandalagið. Þetta er mjög sterk samstaða og hún kemur til með að halda eftir að samningar um Evrópska efnahagssvæðið eru komnir á. Menn vilja fyrst sjá hvernig þeir samningar reynast, hafa fulltrúar þessara ríkja sagt okkur, áður en fullnaðarákvörðun verður tekin um áframhaldið hjá þeim, jafnvel þó áhuga hafi þegar verið lýst.
    Það hafa þó alltaf verið til sterkir talsmenn Evrópska efnahagssvæðisins innan Evrópubandalagsþingsins og sá vilji birtist e.t.v. sérstaklega í tveimur pappírum frá Evrópubandalagsþinginu sem kenndir hafa verið við Rosetti og Jepsen. En nú hafa þessir tveir þingmenn nýlega lagt fram nýjan pappír, ályktun sem tekin verður fyrir hjá Evrópubandalagsþinginu í byrjun mars, í kringum 10. mars, þar sem þeir hvetja til nýrra athafna á þessu sviði. Það hefur náðst samkomulag milli EFTA og Evrópubandalagsþingsins, að á grundvelli þessarar ályktunar, sem væntanlega verður samþykkt, verði myndaður vinnuhópur þingmanna frá EFTA og Evrópubandalaginu sem athugi gaumgæfilega alla möguleika í sambandi við framtíðarhlutverk þingmanna á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Það er ekki búist við að ríkisstjórnir sem standa að samningum milli þessara aðila leggi sérstaka áherslu á þetta atriði. Því er beinlínis vísað til þingmannahópanna að koma sér niður á eitthvert fyrirkomulag varðandi framtíðarhlutverk þingmanna á Evrópska efnahagssvæðinu. Má segja að sú staðreynd hafi verið undirstrikuð með því að þetta atriði var ekki tekið fyrir í hinni sameiginlegu yfirlýsingu Evrópuráðherranna frá 19. des. sl.
    Það er hins vegar skoðun þeirra, og það hefur komið fram á sameiginlegum fundum okkar með EFTA-ráðherrunum og þær upplýsingar hafa einnig komið fram frá stofnunum Evrópubandalagsins, að það er grundvallaráhugi fyrir því að einhver slík stofnun myndist, þ.e. að Evrópska efnahagssvæðið eigi að hafa einhvers konar þinglega stofnun. Þetta er af öllum hlutaðeigandi aðilum álitið mjög mikilvægt atriði. Þessi vinnuhópur sem kemur til með að verða myndaður hefur því margföldu hlutverki að gegna í sínu undirbúningsstarfi sem á að vera lokið fyrir vorið. Vinnuhópurinn á að leggja fram tillögur um það hvernig þessi þingmannastofnun á að líta út, hvort þetta á að vera sameiginlegur hópur þinganna, þ.e. Evrópubandalagsþingsins og hinna einstöku EFTA-þinga, hvort einungis á að vera um að ræða nefnd þessara þinga, hvort þetta á að vera ráðgjafarnefnd Evrópska efnahagssvæðisins eða einungis lítil ráðgjafarnefnd þingmanna frá þessum svæðum.
    Vinnuhópurinn kemur einnig til með að gera tillögur um hlutverk þessarar þingmannastofnunar. Á hún einungis að hafa upplýsingahlutverk, þ.e. skoðanaskipti milli þingmanna frá Efnahagsbandalagsríkjunum og EFTA-ríkjunum og taka við upplýsingum frá embættismönnum Evrópska efnahagssvæðisins? Á þessi þingstofnun einungis að hafa ráðgefandi hlutverk, þ.e. að ráðfæra sig við stofnanir Evrópska efnahagssvæðisins, að samþykkja þáltill., að leggja fram álitsgerðir og láta fara fram umræður innan hópsins um framkvæmdaatriði sem tekin eru fyrir af framkvæmdastofnunum Evrópska efnahagssvæðisins? Eða ætti þessi þingmannahópur að hafa venjulegt eftirlitshlutverk eins og flestöll lýðræðislega kjörin þing, þ.e. eftirlit með framkvæmdum framkvæmdaaðila Evrópska efnahagssvæðisins, fjárveitinganefnd, eftirlit með fjármunum sem þessar stofnanir fara með og endurskoðun á því sem fer fram á því sviði, beiðnir um skýrslur, beiðnir um sérstaka fundi, um sérstök málefni? Þ.e. að fá fullkomlega það hlutverk sem lýðræðislega kjörin þing, þjóðþing, hafa haft með höndum.
    Vinnuhópurinn þarf einnig að taka til athugunar hvernig samsetning þingsins á að vera. Er það rétt að þarna sé sami fjöldi þingmanna frá Evrópubandalagsþinginu og samtals frá öllum EFTA-þingum, eða á að vera hlutfallsleg skipting þingmanna frá öllum þessum þingum eftir íbúatölu svæða? Það þarf einnig að ákveða eða gera tillögur um heildarfjölda þingmanna, en það fer auðvitað eftir því hvernig hópurinn á að líta út og hvernig stofnunin verður yfirleitt. Það er einnig álitamál sem vinnuhópurinn verður að taka ákvörðun um við myndun þessa þings, hvort fara eigi eftir hlutfallslegri skiptingu þingmanna eftir landsvæðum eða eftir pólitískum skoðunum, líkt og með pólitíska flokka sem sitja á venjulegum þjóðþingum, eða jafnvel sameinuð þessi tvö skilyrði. Þá þarf einnig að ákveða hlutverk forustumanna þingsins, þ.e. forseta, varaforseta, formanna nefnda sem koma til með að vera skipaðar o.s.frv. Þá þarf einnig að taka til athugunar hversu oft slík þingmannasamkunda á að hittast. Á hún að hafa reglulega fundi eða sérstaka fundi? Á hún að hafa fundi með ráðgjöfum frá Evrópska efnahagssvæðinu og ræða skýrslur og taka ákvörðun um framkvæmdaatriði hjá framkvæmdaaðilum? Og svo að lokum spurningin: Hvar á þetta þing að sitja? Ætti það að sitja í Strassborg, Brussel, Genf eða í einhverri Efnahagsbandalagshöfuðborganna eða í einhverri EFTA-höfuðborganna eða á þetta þing að flækjast á milli allra þessara staða?
    Þetta er ærið hlutverk sem þessi vinnuhópur kemur til með að hafa með höndum. Vinnuhópurinn verður sennilega myndaður á næsta fundi EFTA-þingmannahópsins því tilnefningar hafa þegar borist frá Efnahagsbandalagsþinginu. Og eins og ég sagði mun þessi hópur skila tillögum til EFTA og EB-þingsins fyrir vorið þannig að einnig þetta hlutverk verður komið í mótun og getur skoðast ásamt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið þegar hann liggur fullbúinn fyrir þingum hlutaðeigandi aðila.