Evrópuráðið
Mánudaginn 25. febrúar 1991


     Ragnhildur Helgadóttir :
    Frú forseti. Evrópuráðið er ein þeirra stofnana sem sett var á fót nokkrum árum eftir heimsstyrjöldina síðari til verndar lýðræði og mannréttindum á því starfssvæði sem það náði yfir. Um svipað leyti var Norður-Atlantshafsbandalagið stofnað og hafði með höndum öryggi og varnarmál. Evrópuráðið sinnti aftur á móti öðrum þáttum sem vörðuðu ýmiss konar löggjöf um félagsmál, mannréttindi, heilbrigðismál, efnahagsmál, í stuttu máli einfaldlega alla þá þætti sem snerta störf þjóðþinganna og ekki flokkast undir varnarmál. Því hafa ýmsar stofnanir verið settar á fót á vegum Evrópuráðsins sem hafa sinnt veigamiklu hlutverki á þessum sviðum. Helstu stofnanir Evrópuráðsins eru mannréttindastofnanir, Mannréttindadómstóllinn og Mannréttindanefndin, ráðherranefndin og svo þingið.
    Þingið hét lengi vel Ráðgjafarþing Evrópuráðsins og heitir svo reyndar enn í reglum þess, en fyrir fimm árum síðan var tekið upp annað nafn, þing Evrópuráðsins. Því hefur ekki enn verið formlega breytt í reglunum en má ætla að það verði gert fljótlega. Þessi nafngift veldur nokkrum misskilningi oft á tíðum vegna þings Evrópubandalagsins sem heitir Evrópuþingið. Bæði þingin starfa á sama stað, þ.e. þegar sameinað þing hvorrar stofnunar um sig hittist, ef svo má að orði kveða, þá eru þau haldin í sama salnum í Strassborg. Eina viku í mánuði eru það þingmenn Evrópubandalagsins, sem eru kjörnir beinum kosningum í löndum sínum, og svo hinar vikurnar þegar Evrópuráðsþing kemur saman, sem reyndar er ekki nema þrisvar á ári, þá sitja þar þingmenn af þjóðþingum landanna og hefur svo verið frá upphafi í rösk 40 ár, að þetta fyrirkomulag hafi verið haft á.
    Síðustu þrjú árin hafa aðalfulltrúar í nefnd Alþingis á þingi Evrópuráðsins verið auk mín þeir Guðmundur G. Þórarinsson og Kjartan Jóhannsson framan af, en þegar hann varð sendiherra hjá Fríverslunarsamtökum Evrópu í Genf tók við Eiður Guðnason. Varamenn hafa svo verið Ragnar Arnalds og fulltrúi Kvennalistans hefur verið varamaður, framan af Kristín Halldórsdóttir, síðan Þórhildur Þorleifsdóttir, og fulltrúi Borgfl., framan af Hreggviður Jónsson og nú í tvígang Guðmundur Ágústsson.
    Evrópuráðið, sem stendur á þessum gamla merg og er stofnað til verndar lýðréttindum og mannréttindum, hefur á allra síðustu árum, og einkanlega á tveimur síðustu árum, staðið andspænis væntanlegum breytingum í starfi sínu sem helgast af hinum stórkostlegu breyttu pólitísku aðstæðum í álfunni. Það þarf ekki að orðlengja að hinar miklu pólitísku breytingar í Mið- og Austur-Evrópu hafa verið hraðari og merkilegri en nokkurt okkar hefði órað fyrir. Það hefur aftur á móti orðið til þess að þau sömu ríki hafa sóst eftir að verða aðildarríki í þessum samtökum lýðræðisþjóða. Ástæðan er m.a. sú að stjórnendur þessara ríkja hafa talið það breytingum í löndunum til framdráttar á þann veg að það gæti stutt breytingar í lýðræðisátt. Þær hafa ekki getað orðið allar á einum degi, það sér hver maður. Þannig var gripið til þess að reglum ráðsins var breytt gagngert með það fyrir augum að auðvelda hinum svonefndu nýfrjálsu ríkjum þátttöku í samstarfi Evrópuráðsins. Sett var regla um svonefnda gestaaðild en jafnframt sett það skilyrði að þessi ríki fullnægðu tilteknum mannréttindaákvæðum og einnig skilyrðum í sáttmála Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu, þ.e. í lokaþætti Helsinki-ráðstefnunnar.
    Það skilyrði var líka sett fyrir hugsanlegri fullri aðild þessara ríkja að áður skyldu hafa fram farið lýðræðislegar almennar fjölflokka kosningar til þings og af þeim ástæðum voru settar á fót hjá Evrópuráðinu nefndir þingmanna til að fylgjast með því í hinum nýfrjálsu ríkjum að kosningar færu fram með þessum hætti.
    Af því sem ég hef nú sagt er ljóst að aðildarríkjum Evrópuráðsins hefur fjölgað á síðustu árum, jafnframt því sem eitt af þeim ríkjum sem hafði gestaaðild hætti sem slíkt þegar það varð hluti hins nýja Þýskalands, þ.e. þáverandi Austur-Þýskaland
hafði haft aðild að ráðinu en nú eru fulltrúar úr þeim hópi að sjálfsögðu í þýsku sendinefndinni hjá Evrópuráðinu. Ungverjaland og Tékkóslóvakía hafa bæst í hóp aðildarríkja nú í vetur.
    Það er ákveðið í stofnskrá og reglum Evrópuráðsins hversu marga þingmenn hvert ríki hefur á þingi þess. Íslendingar eiga samkvæmt því þrjá fulltrúa á þinginu og þrjá til vara, þ.e. við höfum aldrei fleiri en þrjú atkvæði á sjálfu þinginu. En allir meðlimirnir, sex að tölu, bæði aðalfulltrúar og varafulltrúar, taka hins vegar fullan þátt í nefndastörfum og hafa bæði rétt og skyldu til þess að sinna störfum í nefndum. Af því getur leitt að fulltrúar, sem í nefndum eru og hafa þar með höndum viss verkefni eins og framsögu í einstökum málum, geta líka átt seturétt og málfrelsi á þingunum.
    Það er gerð grein fyrir því í þessari skýrslu á þskj. 688 hvernig störfum þingsins er almennt háttað en þau eru í raun og veru umfangsmeiri heldur en menn hafa oft á tíðum hugsað út í því að þing Evrópuráðsins er ein þeirra stofnana sem yfirleitt gefur ekki tilefni til stórra fyrirsagna, en þar er aftur á móti unnið jafnt og þétt að mikilvægum mannréttindamálum og að ýmiss konar málefnaþáttum sem tengjast löggjöf í ýmsum aðildarlöndum og nokkurri samræmingu á löggjöfinni eftir því sem unnt er. Hitt er svo aftur á móti ljóst að síðustu tvö árin og ekki síst núna er hlutverk ráðsins orðið pólitískt í ríkari mæli og það hefur meiri þýðingu í mótun hinnar nýju Evrópu þannig að vægi þessarar stofnunar, einkanlega þingmannastofnunarinnar, hefur aukist miðað við það sem áður var. Við sjáum það á því hverja áherslu hin nýfrjálsu ríki leggja á það að verða viðurkenndir aðilar í Evrópuráðinu.
    Nefna má líka í þessu sambandi atriði sem reyndar var aðalatriði í máli hv. þm. sem hér stóð á undan mér, hv. 5. þm. Norðurl. v., að á þingi Evrópuráðsins eiga sæti þingmenn frá öllum þeim ríkjum sem stundum er verið að tala um að ættu að hittast undir hatti nýrrar stofnunar. Við í sendinefnd Alþingis á þingi Evrópuráðsins erum öll þeirrar skoðunar að það

sé óskynsamlegt að stefna að því að setja á fót enn nýjar stofnanir til þess að reka samstarf þingmanna. Það hlutverk hinna nýju stofnana yrði ákaflega líkt og hlutverk Evrópuráðsins. Hér var áðan verið að tala um samstarf þingmanna EFTA-ríkja og Evrópubandalagsríkja. Vissulega þyrftu þau málefni að vera rædd sérstaklega á sérstökum samstarfsfundum en til þess þarf ekki nýja stofnun. Við erum þeirrar skoðunar að það væri skynsamlegra að hafa þá fundi óformlega en að hin stærri málefni og ályktanir um margvísleg efni, mannréttindamál, félagsmál, menntamál o.s.frv., ættu að fara fram hér eftir sem hingað til á vettvangi Evrópuráðsins. Það væri hins vegar mjög til athugunar og æskilegt að sérstök umræða gæti farið þar fram um samstarf EFTA og Evrópubandalagsþinganna, rétt eins og núna fer þar fram sérstök umræða um málefni OECD. Evrópuráðið er í rauninni eini þingmannavettvangurinn þar sem OECD-ríkin eiga fulltrúa, þar sem þingmenn OECD-ríkjanna eru allir samankomnir á einum og sama umræðuvettvangi. En vegna þess hversu uppbyggingu ráðsins er háttað og fyrirkomulagi á þinginu er þetta auðvelt í framkvæmd og mér sýnist að þarna sé atriði sem væri vert fyrir Alþingi að hafa í huga, að það væri einnig hugsanlegt að koma þessu svo fyrir með samstarf þingmanna frá EFTA- og Evrópubandalagsríkjunum því að það væri auðvitað augljós sparnaður í því að fara ekki að búa til hverja Evrópustofnunina af annarri sem hefði með höndum svipuð verkefni.
    Sama má segja um umræðu þá sem fram fer nú um að stofnanabinda RÖSE-samstarfið eða fundina sem kallast venjulega Ráðstefnan um samvinnu og öryggi í Evrópu. Þessi ráðstefnustarfsemi hefur haft mjög mikilvægu og vaxandi hlutverki að gegna. Þar eiga sæti m.a. þau ríki sem nú sækja um aðild að Evrópuráðinu og eru sumpart komin þar inn, Mið- og Austur-Evrópuríkin, en auk þess Bandaríkin og Kanada. Þessi starfsemi hefur til þessa farið fram á vettvangi embættismanna og ráðherra en ekki þingmanna. Það er hins vegar nýtt að á síðasta ári hófust umræður og mjög ákveðnar tillögur um það að nauðsyn væri að setja á fót nýja stofnun eða nýtt þing þessara ríkja, einkanlega með tilliti til þess sem stundum er kallað vera innihaldið í þriðju ,,körfunni`` hjá RÖSE en það eru mannréttindi og félagsleg réttindi, eða með öðrum orðum nákvæmlega sömu efnin sem Evrópuráðið hefur haft efst á verkefnaskrá sinni í 40 ár og hefur náð merkum áföngum.
    Við höfum verið þeirrar skoðunar, bæði íslenska nefndin, og ég held Evrópuráðsþingmennirnir upp til hópa svo og þjóðþing þeirra, að það sé afar óskynsamlegt að búa til enn eina þingmannastofnun til að sinna þessu hlutverki með tilheyrandi skrifræði og embættismannakerfi. Við teljum hins vegar nauðsynlegt að koma á slíku þingmannasamstarfi og við teljum að mannréttindaráðstefnan sem haldin var í Kaupmannahöfn nú í sumar, um mannréttindi eða hinn svokallaða mannlega þátt í RÖSE-ferlinu, að allt þetta hafi fært okkur heim sanninn um það að nauðsynlegt sé að koma á slíku samstarfi og þess vegna setti

stjórnarnefnd Evrópuráðsins í gang vinnu sl. sumar til að finna því form og möguleika innan kerfis Evrópuráðsins, að þar gæti slík þingmannasamkunda rúmast án þess að sett væri ný stofnun á fót. Gerð voru drög að þingsköpum fyrir slíkt þing, sem vissulega hefur enn ekki verið ákveðið, en sett var í þessum drögum fram hugmynd um hvernig það gæti starfað. Húsnæði, skrifstofuaðstaða og skrifstofulið er í þinghöll Evrópuráðsins í Strassborg. Það stendur til boða hinni nýju stofnun, ef samþykkt verður, og í fyrsta sinn í sögunni gerðist það nú í haust að þingmannasendinefndir frá öllum þessum ríkjum voru boðaðar til fundar tveim dögum áður en haustþing Evrópuráðsins hófst og þar fór fram umræða um þetta efni.
    Mér er óhætt að segja að menn hafi lokið upp einum rómi um það að það eitt að halda slíka þingmannasamkundu hafi verið afar stórt skref og sögulegt og sýnt okkur það að hugarfar manna úr þessum ólíku, eða a.m.k. til skamms tíma ólíku ríkjum væri miklu nátengdara en menn höfðu áður talið, og það fór ekkert milli mála að þessum hugmyndum var tekið með afar jákvæðum hætti hjá Mið-Evrópuríkjunum sem áður voru kommúnistaríki undir áhrifavaldi Sovétríkjanna. Ég þarf heldur ekki að taka það fram að þarna átti sæti sendinefnd frá Sovétríkjunum sem líka var þessu fyrirkomulagi mjög hlynnt. Það sem hins vegar vantaði á þessa samkundu var sendinefnd frá Bandaríkjunum. Bandaríkjamenn höfðu borið það fyrir sig að vegna anna á þinginu gætu þeir ekki sinnt þessu þingi. Ég get ekki neitað því að þetta var í okkar hópi töluvert gagnrýnt. Okkur þótti nokkurn skugga bera á þennan fund af þessum sökum, því að okkur var ljóst að án þátttöku Bandaríkjamanna í þessu samstarfi væri ekki með réttu hægt að tala um að þar væri RÖSE-þingmannasamkunda. Þess vegna var það að það var unnið áfram að þessu máli. Og þess má geta í sambandi við fjarvist Bandaríkjamanna að það geta stundum verið einhverjir heimilisörðugleikar sem geta valdið miklu á alþjóðlegum vettvangi því að það var lýðum ljóst að það var Bush Bandaríkjaforseti sem hafði á mikilvægum fundi, þ.e. leiðtogafundi NATO-ríkjanna í júlí sl., fyrstur sett fram opinberlega tillögu um að hið nýja hugsanlega þing RÖSE-ríkjanna yrði starfrækt á grundvelli þings Evrópuráðsins eins og það var orðað, orðrétt útlagt. Sá hinn sami Bush Bandaríkjaforseti virtist hafa gleymt að ræða þetta við þingmenn sína áður en hann setti fram tillöguna opinberlega. Við skiljum það þingmenn að við viljum láta ráðherra ræða við okkur og ráðgast um eitt og annað, a.m.k. þannig að þeir hafi möguleika á að fara að ráðum okkar. En það var ekki gert í þessu tilviki og það lá í loftinu að þetta væri hluti ástæðunnar fyrir fjarvist Bandaríkjamanna. En við vonum að þetta standi til bóta. Þessi mál verða næst rædd á fundi í Madrid sem þing Spánverja boðar til nú í byrjun apríl. Þar verða m.a. fulltrúar frá Alþingi og frá öllum þessum ríkjum sem þarna koma við sögu.
    Nokkrar efasemdir hafa komið upp í sambandi við hugmyndir Evrópuráðsins um þingsköp fyrir svona þingmannasamkundu og sú e.t.v. mikilvægust að flestir Evrópuráðsþingmenn voru þeirrar skoðunar að það væri skynsamlegt að úrslitum mála réði meiri hluti atkvæða en mér er óhætt að segja að m.a. Bandaríkjamenn vildu að þar væri málum ráðið til lykta með samhljóða niðurstöðum. En það segir sig auðvitað sjálft að það er mikill munur þá á hraða í afgreiðslu eftir því hvor reglan verður valin.
    Ég vildi, frú forseti, gera grein fyrir þessu atriði sérstaklega því það er alveg ljóst að það er víða um lönd mjög til umræðu hvernig eigi að haga þessu. Menn gætu spurt: Hvers vegna eru þingmenn á Íslandi að fjölyrða um þetta atriði? Má okkur ekki vera mikið til sama, við erum hvort sem er svo fá, hvort hinar stóru þjóðir hittast á þingi, við skulum segja í Strassborg, sem heitir Evrópuráðið eða RÖSE-þingið í Strassborg eða hvort þær hittast á einhverju enn öðru þingi með öðrum nefndum og öðru skrifstofuliði einhvers staðar annars staðar? Sannleikurinn er sá að okkur er alls ekki sama vegna þess að það er mikið hagsmunamál fyrir þing litlu ríkjanna að það sé ekki sett upp hver stofnunin af annarri sem við verðum að taka þátt í ef við ætlum að geta haldið sjálfstæði okkar og reisn í hópi þjóðanna. Þess vegna er þetta atriði sem ég ráðlegg eindregið og við í Evrópuráðsnefnd að verði tekið alvarlega og menn hugleiði og verði búnir að taka afstöðu til þess þegar við verðum spurð að því, því að annars gæti okkur í fljótu bragði leynst hver ókosturinn við slíkan stofnanafjölda væri.
    Frú forseti. Í þessari skýrslu er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum hvers hluta þingsins. Þar er gerð grein fyrir miklum nefndafjölda. Það skal tekið fram að við höfðum ekki tök á því að sækja nærri alla nefndarfundi en gerðum það þó eftir bestu getu því það er ljóst að það er þar sem málefnasamstarfið fer fram. Ef við viljum hafa áhrif á innihald ályktunar frá ráðinu, þá er nefndin aðalvettvangurinn til slíks. Því að við umræðu í þinginu sjálfu, þar sem sitja hátt á annað hundrað þingmanna og umræðan fer fram mjög hratt, þá verður oft erfiðara að koma við efnislegum breytingum. Þó gerist það auðvitað stundum eins og t.d. nú á þinginu í janúar í sambandi við ályktunina um stjórnmálastöðu Evrópuráðsins og þann þátt hennar sem varðaði Eystrasaltslýðveldin. Þeirri skýrslu og þeim ályktunartillögum ráðsins var breytt á seinustu stundu í stjórnmálanefnd þess þar sem tekin var afstaða með Eystrasaltsríkjunum og fordæmdar aðgerðir Sovétríkjanna þar. En hins vegar hafði hv. þm. Eiður Guðnason forustu um það að hnykkja á þeirri tillögu og á þann veg að þar væri berum orðum tekið fram að á atferli Sovétríkjanna bæri að líta sem gróft brot á 7. meginreglu Helsinki-samkomulagsins og Kaupmannahafnaryfirlýsingunni um mannlega þáttinn.
    Það sem þetta orðalag felur í raun og veru í sér er það sama og að segja að Sovétríkin hafi brotið það skilyrði
sem sett er í þingsköpum Evrópuráðsins fyrir gestaaðild. Gestaaðildarákvæðið hefur að geyma reglu um það að greidd skuli atkvæði um gestaaðildina árlega í byrjun hvers þings. En byrjun hvers þings er sú lota sem stendur venjulega um mánaðamótin apríl og maí.

Þetta þýðir að það getur verið mjög vafasamt hvort gestaaðildin verður samþykkt að nýju þegar þar að kemur nema þá að einhverjar verulegar breytingar hafi orðið til bóta að því er atferli þeirra varðar og afstöðu til Eystrasaltsríkjanna.
    Um leið og ég vík að því efni vil ég geta þess að skrifleg yfirlýsing, sem einnig var sett að frumkvæði sama hv. þm., var lögð inn á skrifstofu ráðsins en það er sú aðferð sem þingmenn geta haft þegar umræðan fer fram með þeim hætti sem þarna var, hún endaði ekki með ályktun, en hægt var að senda frá sér skriflega yfirlýsingu. Hún var lögð inn með 18 undirritunum en síðan það gerðist höfum við haft spurnir af að fleiri þingmenn hafi bæst við og seinast þegar við vissum voru 35 undirskriftir komnar undir þessa yfirlýsingu. Hún hafði að geyma ýmis atriði sem raunar komu fram í máli þingmanna í sérstakri umræðu sem fram fór um þetta efni. Nú er reglan sú að aðalatriðin úr umræðunum eru svo tekin saman og þau send til umfjöllunar í viðkomandi nefndum hjá ráðinu og verða oft á tíðum svo tilefni til ályktana síðar.
    Í upphafi þingsins tók stjórnarnefndin ákvörðun um að senda þingmannasendinefnd til þess að kanna ástand mála og sýna samstöðu með frelsisöflum. En það atriði var aldrei borið undir heildarhópinn, allt þingið, en í umræðunum, þar sem fram kom í raun og veru almenn fordæming á atferli Sovétmannanna, skar þó ein ræða sig mjög úr og það var ræða Sovétmannsins. Hann hóf mál sitt á að segja að vissulega hryggði það þá Sovétmenn að orðið hefðu sorglegir atburðir í Eystrasaltsríkjum, einkanlega í Litáen. Hins vegar sagði svo sami fulltrúi að stjórn Sovétríkjanna hefði ákveðið að senda rannsóknarnefnd til þessara ríkja til að kanna hver ætti sök á þeirri móðursýki sem þar ríkti. Hann kvað það vera staðreynd að mikil móðursýki hefði gripið um sig í þessum löndum. Þeir mundu kanna hver ætti sök á þessari móðursýki, þeir mundu finna það út og sá eða þeir sem þar bæru ábyrgð mundu fá makleg málagjöld. Þetta var sá tónn sem heyrðist á þessu þingi og það var vissulega annað hljóð heldur en maður hafði búist við að heyra í þessum sama sal þar sem fögnuður og lófatak kvað við hálfu öðru ári áður þegar þingið, sumarþingið var flutt frá Austurríki til Strassborgar til þess eins að Gorbatsjov gæti framkvæmt þá ætlun sína að koma í heimsókn til ráðsins og ávarpa þingið. Þar var Gorbatsjov fagnað í salnum sem boðbera lýðræðis og friðar en því miður verður það að segjast að sú mikla bjartsýni, sem hafði í raun og veru byggt upp það starf sem fram fór á þessum vettvangi þingmanna í tvö ár, leið nokkuð fyrir þá löngu skugga sem lögðust yfir sviðið vegna þess að nú hafði hramminum verið lyft. Við skulum vona að það starf sem fram fer í lýðræðissamtökum eins og þingi Evrópuráðsins, eins og Norðurlandaráði núna þessa dagana og víðar, verði til þess að bjartsýni okkar geti aftur náð yfirhöndinni og eigi sannanlega fullan rétt á sér.
    Hitt var svo annað mál að sum voru þau ríki sem höfðu af því nokkrar áhyggjur að ályktanir um þessi efni og harðorðar yfirlýsingar gætu haft áhrif á samstarf bandamanna við Persaflóa en niðurstaðan varð þessi eins og ég hef hér greint frá. Það breytti hins vegar ekki því að það var mikil samstaða með einni eða tveimur undantekningum um afstöðu til aðgerða bandamanna við Persaflóa. Um þessi efni fóru fram þær umræður á þinginu sem segja má að hafi verið hvað pólitískastar auk þess sem umræðan um framtíðarhlutverk Evrópuráðsins var mjög pólitísk.
    Við íslensku fulltrúarnir skiptum með okkur verkum og fórum eitt okkar í hverja af þessum umræðum. Það er reyndar sú aðferð sem við höfum yfirleitt reynt að hafa á þessum þingum og ánægjulegt til þess að vita í þeim sundurleita flokkahópi sem við störfum í hér á Alþingi að samstarf fulltrúa frá þessum ólíku flokkum hefur verið með miklum ágætum á þessum vettvangi. Þó höfum við hagað störfum okkar þannig að við höfum tekið fullan þátt í flokkspólitísku starfi ef ég má svo segja. En þannig er að líkir eða svipaðir stjórnmálaflokkar skipa sér saman í heildir, halda fundi og taka eftir atvikum afstöðu til mála og ræða hvað sem meðlimum dettur í hug og við ákváðum að taka fullan þátt í slíku samstarfi þó að okkar flokkar vikju kannski í ýmsu frá því sem sumir aðrir í því flokkasamstarfi væru. Við töldum að með því móti fengjum við aukin tækifæri til að vinna málefnum fylgi, að hafa áhrif á niðurstöðu og skýrðum þá líka þegar Ísland hafði sérstöðu að ýmsu leyti. Þetta hefur reynst okkur vera allnotadrjúgt.
    Ég held, frú forseti, að ég ræði ekki einstök mál þingsins. Skýrslan segir öll aðalatriði um það. Skýrslur og skjöl Evrópuráðsins er hægt að fá hjá Þóru Guðnadóttur sem sér um skjöl ráðsins, ellegar ef þau eru ekki til nú þegar þá er henni vafalaust kært að útvega þau, þannig að ég vonast til að hv. þm. notfæri sér það því mikið af nýtilegu efni er þar að finna.
    Auk þeirra starfa sem ég hef hér greint frá vil ég vekja athygli á því að töluvert starf þingmanna í Evrópuráðinu fer fram á ýmsum ráðstefnum sem annaðhvort ráðið sjálft beitir sér fyrir eða beitir sér fyrir í félagi við Evrópubandalagið eða aðrar alþjóðlegar stofnanir. Íslensku þingfulltrúarnir hafa tekið þátt í nokkrum slíkum ráðstefnum þegar þeir hafa verið til þess kosnir og getað komið því við. Við höfum öll reynt að leggja nokkuð til mála á þessum ráðstefnum eftir því sem tilefni hefur verið til og við vonumst auðvitað til þess að það starf geti síðan skilað sér út í ýmsum upplýsingum sem þingmenn gætu notfært sér.
    Þess má að lokum geta, frú forseti, varðandi samsetningu nefndanna á þingi Evrópuráðsins, að það er ekki ákveðið í eitt skipti fyrir öll með hvaða hætti kosið skuli til Evrópuráðsins. Þess vegna er það að við höfum ekki samþykkt neinar nýjar formlegar tillögur um það, okkar nefnd. Okkur þótti eðlilegra að nýkosnir þingmenn gerðu það á næsta ári. En mig langar til að láta þá skoðun mína í ljós að ég tel afar eðlilegt að hafa slík atriði í föstu formi til að forðast allan vafa og hugsanlegan ágreining um það. Vissulega væri það skynsamlegast, að því er ég tel, að láta kosningu þeirra fulltrúa fara fram í sameinuðu þingi.

Það breytir ekki því að flokkar geta samið sín á milli um það hvernig nefndin er samansett. En gert er ráð fyrir í upphaflegum reglum ráðsins, svo og ályktunum fastanefndarinnar í tvígang í framhaldi af því, að nefndirnar endurspegli pólitískan styrkleika á þjóðþingum sínum.
    Ég þakka fyrir orðið, frú forseti. Ég mun hafa notfært mér það ótæpilega.