Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Með lögum nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, var tekið upp það nýmæli í 22. gr. laganna að félmrh. skuli leggja fyrir ríkisstjórn og Alþingi framkvæmdaáætlun á sviði jafnréttismála fyrir fjögur ár í senn. Í áætluninni skal kveðið á um aðgerðir sem fyrirhugaðar eru til að ná fram jafnrétti kynjanna. Samkvæmt greininni skal við gerð hennar höfð hliðsjón af framkvæmdaáætlun sem Jafnréttisráð skal gera, sbr. 2. tölul. 15. gr. laganna.
    Fyrsta framkvæmdaáætlunin á sviði jafnréttismála var lögð fyrir Alþingi í desember 1986 og kom til umfjöllunar í febrúar 1987. Í skýrslu félmrh. um stöðu og þróun jafnréttismála síðustu tveggja ára, sem verður lögð fyrir Alþingi innan tíðar, er m.a. reynt að meta áhrif fyrstu framkvæmdaáætlunarinnar á framvindu mála á þessu mikilvæga sviði.
    Áður en ég geri grein fyrir nýrri framkvæmdaáætlun vil ég nefna nokkur atriði í sambandi við fyrstu framkvæmdaáætlunina.
    Í fyrstu framkvæmdaáætluninni frá 1986 voru sett fram markmið á fjórum sviðum sem stefnt skyldi að á gildistíma áætlunarinnar. Þessi svið voru atvinnu- og launamál, menntun og fræðsla, trúnaðarstöður og ábyrgð og félagsleg atriði.
    Í fyrsta hluta framkvæmdaáætlunarinnar var fjallað um mun á milli launa kvenna og karla. Lagt var til að Þjóðhagsstofnun hraði könnun á launamun kynjanna. Niðurstöður hennar verði rannsakaðar nánar með það að markmiði að finna raunverulegar ástæður launamunar.
    Í janúar 1989 kom út á vegum Þjóðhagsstofnunar ritið Tekjur kvenna og karla. Þar kemur m.a. fram að konur voru u.þ.b. helmingur launþega árið 1986 en hlutur þeirra í heildaratvinnutekjum var rétt um 33%. Styttri vinnudagur kvenna vegur hér þungt. Heildartekjur kvenna í fullu starfi hafa verið rúm 60% af heildartekjum fullvinnandi karla frá árinu 1980. Samanburðarhæfar tölur eru því miður ekki til. Meiri menntun kvenna virðist því ekki hafa skilað sér í auknu launajafnrétti.
    Í könnun jafnréttisnefndar BHM kemur þó fram að laun háskólamenntaðra kvenna í fullu starfi árið 1988 eru tæp 75% af launum fullvinnandi karla. Erfitt er að meta árangur á þessu sviði vegna þess að úrvinnsla talnaefnis tekur alltaf nokkurn tíma. Þó virðist ljóst að á sviði launamála er frekari aðgerða þörf.
    Í fyrstu framkvæmdaáætluninni voru sett fram markmið á sviði menntamála. M.a. var rætt um jafnréttisfræðslu í skólum og í því sambandi vitnað til ákvæðis 10. gr. laga nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Á þessu sviði hefur ýmislegt áunnist. Árið 1987 skipaði menntmrh. starfshóp sem fjallaði um jafna stöðu kynja í skólum. Starfshópurinn lauk störfum og skilaði skýrslu í maí 1990. Verkefni starfshópsins var samkvæmt erindisbréfi m.a. að gera tillögur um fræðslu í skólum og gera tillögur um útgáfu kennsluefnis til foreldra.
    Í framkvæmdaáætlunininni frá 1986 var fjallað um

fjölgun þeirra kvenna sem gegna trúnaðar- og ábyrgðarstöðum hjá ríki og sveitarfélögum. Þar voru sett fram þau markmið að ríki og sveitarfélög vinni markvisst að því að tala kynjanna í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum þessara aðila verði sem jöfnust. Einnig að ráðuneytin vinni að því að konur sem starfa hjá hinu opinbera fái aukin tækifæri til að gegna ábyrgðarstöðum. Hér má nefna nokkrar tölur:
    Konur voru 4% sveitarstjórnarmanna árið 1974 en fjölgaði í rúm 19% árið 1986. Ef einungis er skoðað hlutfall kvenna í bæjarstjórnum, þá var það 8,3% 1974 en er komið í 32,4% 1990. Á höfuðborgarsvæðinu eru konur 45% borgar- eða bæjarfulltrúa. Þær eru í meiri hluta í tveimur nágrannabæjum Reykjavíkur og í borgarstjórn Reykjavíkur sitja nú sjö konur og átta karlar.
    Frá 1971 til 1983 voru aðeins þrjár konur á Alþingi Íslendinga eða 5% en eftir kosningarnar 1983 urðu þær níu eða 15%. Á Alþingi sitja nú 14 konur eða 22,2% þingmanna.
    Í krafti aukinnar menntunar hafa konur sótt inn í embættismannastéttina. Hlutur kvenna í stjórnunar- og ábyrgðarstöðum innan ráðuneyta og ríkisstofnana hefur aukist á aðeins nokkrum árum. Árið 1987 voru konur 32% þeirra sem gegndu ábyrgðarstörfum innan ráðuneyta. Árið 1985 voru þær 24%. Á sl. tveimur árum hefur kona verið í fyrsta skipti skipuð ráðuneytisstjóri og önnur sendiherra.
    Annað sem vafalaust hefur skipt máli og vert er að minna á eru jafnréttisáætlanir ráðuneyta og stofnana. Vorið 1988 samþykkti ríkisstjórnin að öll ráðuneyti og ríkisstofnanir með fleiri en 20 starfsmenn settu sér sérstakar jafnréttisáætlanir til fjögurra ára, þ.e. fyrir tímabilið 1. jan. 1989 til 31. des. 1992. Samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar skyldi koma fram í áætlununum lýsing á núverandi stöðu jafnréttismála innan ráðuneytis eða stofnunar. Enn fremur þau markmið sem sett væru í jafnréttismálum sem stefnt væri að innan tiltekins tíma, t.d. að því er varðar stöðuveitingar, launamál og fleira. Einnig var ákveðið að staðan og árangurinn verði metinn reglulega á tveggja ára fresti. Samtals hafa ráðuneytinu og Jafnréttisráði borist rúmlega 50 áætlanir. Þó úttekt sé ekki lokið tel ég nokkuð ljóst að hér hafi nokkuð miðað áleiðis en Jafnréttisráð er nú að vinna að sérstakri úttekt sem hófst um sl. áramót og tekur til fyrra helmings framkvæmdatímabilsins.
    Í síðasta hluta framkvæmdaáætlunarinnar frá 1986 voru sett fram nokkur markmið á sviði félagsmála sem ríkisstjórnin vildi stefna að. Af mikilvægum atriðum í þessum hluta má benda á lengingu fæðingarorlofs í sex mánuði. Einnig er tekið fram að feður fái aukna heimild til töku fæðingarorlofs, einnig um að heimavinnandi maki njóti sömu réttinda á við þá sem eru úti á vinnumarkaðinum. Enn fremur er kveðið á um það að komið verði á samfelldum skóladegi og að fram fari ítarleg könnun á þörf fyrir dagvistarstofnanir.
    Ýmis mikilvæg félagsleg réttindi hafa áunnist á síðustu árum, réttindi sem skipta konur sérstaklega máli.

Nefna má að fæðingarorlof hefur lengst verulega. Flestallir launþegar eiga rétt til fjarveru frá vinnu vegna veikinda barna. Einnig er líklegt að sveigjanlegri vinnutími sé algengari í dag en fyrir 10 til 15 árum. Engar tölfræðilegar upplýsingar liggja þó fyrir um það.
    Það er alveg ljóst að of hægt hefur miðað, þó ýmislegt hafi áunnist þrátt fyrir allt, á gildistíma síðustu framkvæmdaáætlunar ríkisstjórnarinnar á sviði jafnréttismála frá 1986. En ég vil minna á það, sem ég sagði í upphafi, að ítarleg grein verður gerð fyrir framvindu jafnréttismála í skýrslu sem ég mun leggja fyrir Alþingi innan tíðar.
    Samkvæmt lögum nr. 65/1985 er að því komið að ríkisstjórnin leggi fyrir Alþingi nýja fjögurra ára framkvæmdaáætlun á sviði jafnréttismála. Þetta er gert í því þskj. sem hér er til umræðu. Þessi nýja framkvæmdaáætlun er sett upp með nokkuð öðrum hætti en áætlunin frá 1986 en byggir á því sjónarmiði, sem kemur fram í lögum frá 1976 og 1985, að stjórnvöldum beri skylda til að vinna að bættri stöðu kvenna í samfélaginu. Með lagasetningunni var stjórnvöldum gert að sýna fordæmi og hafa frumkvæði að aðgerðum á þessu sviði. Í framkvæmdaáætluninni er lögð áhersla á skyldur ráðherra og ráðuneyta til að vinna að því að jafna stöðu kvenna og karla hver á sínu sviði. Með þessu er ekki verið að draga úr mikilvægi þess að unnið sé að bættri stöðu kvenna á hinum almenna vinnumarkaði. Í áætluninni er einmitt lögð áhersla á að verkefni ráðuneytanna tengist hinum almenna vinnumarkaði. Stjórnvöld geta og eiga á grundvelli frumkvæðisskyldu sinnar að vinna að bættri stöðu
kvenna á hinum almenna vinnumarkaði. Í áætluninni er einmitt lögð áhersla á að verkefni ráðuneytanna tengist hinum almenna vinnumarkaði. Stjórnvöld geta og eiga á grundvelli frumkvæðisskyldu sinnar að vinna að bættri stöðu kvenna alls staðar í samfélaginu.
    Við samningu framkvæmdaáætlunarinnar hefur megináhersla verið lögð á eftirfarandi atriði:
    1. Aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna á öllum skólastigum.
    2. Launamál kvenna og karla.
    3. Aðgerðir til að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði.
    4. Aðgerðir til að bæta sérstaklega stöðu kvenna í dreifbýli.
    5. Ýmis félagsleg réttindi.
    Ég tel ekki ástæðu til að fara nákvæmlega í einstök atriði í þessari framkvæmdaáætlun sem hér liggur fyrir. Ég vil þó nefna nokkur atriði.
    Í kafla félmrn. er lagt til að skipaður verði starfshópur til að vinna að úttekt á stöðu karla í breyttu samfélagi með jafnari fjölskylduábyrgð. Jafnframt verði áhersla lögð á upplýsingar um jafnréttismál og fræðslu. Unnin verði sérstök áætlun til fjögurra ára um framkvæmd þessa liðar. Ég tel þetta mjög mikilvægt atriði í framkvæmdaáætluninni vegna þess að við verðum að koma í veg fyrir það að árangurinn af baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna verði tvöfalt vinnuálag kvenna.
    Einnig er í framkvæmdaáætlun lögð áhersla á að Ísland taki þátt í norrænu verkefni um starfsmenntun, starfsframlag og stjórnunarhæfileika kvenna og karla hjá opinberum stofnunum og einkafyrirtækjum. Þá er lagt til að félmrn. ráði til reynslu jafnréttisráðgjafa á árinu 1992 til að vinna í tveimur kjördæmum að leiðréttingu á stöðu kvenna í fyrirtækjum og stofnunum. Gert er ráð fyrir að jafnréttisráðgjafi vinni í samvinnu við iðnráðgjafa að fjölgun atvinnutækifæra fyrir konur og jafnréttisnefndir þar sem þær eru starfandi. Ég vil geta þess að reynslan af starfi jafnréttisráðgjafa í Danmörku og Svíþjóð er mjög góð.
    Í kafla félmrn. er gert ráð fyrir að unnin verði úttekt á nokkrum störfum, sem eru hefðbundin kvennastörf, með það að markmiði að skoða áhrif vinnu á streitu, álag og slitsjúkdóma. Sérstakur gaumur verði gefinn að einhæfum störfum, líkamsbeitingu og vinnuaðstæðum. Niðurstöður úttektarinnar verði síðan nýttar til að koma með tillögur til úrbóta þar sem þess gerist þörf. Ég tel eðlilegt að Vinnueftirliti ríkisins verði falið þetta mikilvæga verkefni.
    Í kafla félmrn. er fjallað um hlut kvenna í nefndum, stjórnum og ráðum á vegum ríkisins og er félmrh. falið að beita sér fyrir því í ríkisstjórn að hlutur kvenna í nefndum, stjórnum og ráðum sem skipaðar eru af ráðherra verði a.m.k. 25% í lok gildistíma þessarar áætlunar. Þá er átt við heildarhlutfallið en ekki hlutfallið í einstökum nefndum eða ráðum. Þetta hlutfall er nú einungis 11% og er mun lægra en á öðrum Norðurlöndum. Ég tel það markmið að stefna að aukinni hlutdeild kvenna í opinberum nefndum og ráðum mjög mikilvægt. Með þeim hætti eru áhrif kvenna aukin á ákvarðanatöku í þjóðfélaginu. Það ætti að geta með tímanum leitt til þess að breyta áherslum í þjóðfélaginu konum í vil. Ef vel tekst til gæti það t.d. leitt til þess að breyta mati á hefðbundnum kvennastörfum þannig að munur á launum minnki.
    Af þeim atriðum í kafla félmrn. sem ég vil vekja athygli á er löggjöf um starfsmenntun. Félmrn. hefur unnið að samningu frv. til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu sem væntanlega verður fljótlega lagt fyrir þingið.
    Hvað svo varðar verkefni annarra ráðuneyta vil ég vekja athygli á því sem segir um fjarvinnslustofur í kafla forsrn. Þar er gert ráð fyrir, með hliðsjón af niðurstöðum úr þeirri könnun sem nú fer fram á vegum Byggðastofnunar, Fjárlaga - og hagsýslustofnunar og vinnumálaskrifstofu félmrn., að það verði sérstaklega athugað að koma á fót verkefna- og markaðsstofu á höfuðborgarsvæðinu sem hafi það hlutverk að afla verkefna og miðla til fjarvinnslustofa á landsbyggðinni. Þar fari jafnframt fram samræming og þjónusta við fjarvinnslustofur. Tilgangur slíkrar verkefna- og markaðsstofu á höfuðborgarsvæðinu og fjarvinnslustofa á landsbyggðinni verði að færa störf í ýmsum tækni- og þjónustugreinum til landsbyggðarinnar.
    Í kafla um verkefni menntmrn. eru sett markmið í sambandi við samfelldan skóladag. Þar segir m.a. að

þegar liggi fyrir úttekt á því hversu mikla aukningu á skólarými þurfi til að öll börn búi við samfelldan skóladag, lengri skóladag, þ.e. sex klukkustundir á dag fyrir alla árganga, og skólamáltíðir muni menntmrn. beita sér fyrir markvissri kynningu á mikilvægi þess að sveitarfélög vinni sérstaka áætlun til að ná þessu markmiði. Á gildistíma þessarar áætlunar verði unnið að því að lengja viðverutíma grunnskólabarna í skólanum þar til því marki er náð að daglegur viðverutími allra árganga verði um sex klukkustundir.
    Þessu til viðbótar vil ég vekja athygli á eftirfarandi verkefnum í framkvæmdaáætluninni sem ég hef ekki fjallað sérstaklega um en vísa þess í stað til þingskjalsins.
    1. Á árunum 1991 -- 1992 verði valdar fimm stórar ríkisstofnanir, t.d. á heilbrigðis - og skólasviði, og athuguð kjör karla og kvenna, þ.e. laun, aðrar greiðslur og fríðindi.
    2. Byggðastofnun verði frá og með árinu 1992 tryggð fjárhæð á fjárlögum hvers árs til að styrkja stöðu kvenna í dreifbýli.
    3. Tillögur nauðgunarnefndar komi til framkvæmda á gildistíma áætlunarinnar en frekari grein er gerð fyrir þeim í þeirri skýrslu sem ég hér mæli fyrir.
    4. Gerð verði úttekt á stöðu karla í breyttu samfélagi með jafnari fjölskylduábyrgð, sem ég hef hér lýst.
    5. Námskeið verði haldin fyrir ritara og fulltrúa er hafi það að markmiði að auka hæfni þeirra og veita þeim möguleika á stöðuhækkunum.
    6. Jafnrétti kvenna og karla í lífeyrismálum verði tryggt, sérstaklega réttindi heimavinnandi.
    7. Lög um fæðingarorlof verði endurskoðuð að því er varðar sjálfstæðan rétt fólks til töku fæðingarorlofs.
    8. Stofnuð verði neyðarmóttaka fyrir fórnarlömb kynferðisafbrota og annars ofbeldis.
    9. Sett verði í gang fjögurra ára þróunarverkefni í einu byggðarlagi sem miði að því að fjölga atvinnutækifærum kvenna í iðngreinum.
 10. Jöfnuð verði staða kynjanna á öllum skólastigum, m.a. með fræðslufundum, starfsmannastefnu í skólum, námsefni án kynjafordóma, fjölskyldufræðslu og starfsfræðslu.
    Ég hef hér, virðulegi forseti, drepið á nokkur helstu atriðin í þessari framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna og vona að þau atriði sem hér eru sett fram hjá einstökum ráðuneytum verði til þess að við náum lengra en hingað til í að ná fram jafnrétti kynjanna.
    Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.