Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Jóhann Einvarðsson :
    Hæstv. forseti. Ég átti þess ekki kost að vera hér þegar hæstv. ráðherra flutti framsögu um þetta mál og þess vegna tel ég rétt að koma hér örstutt í pontuna. Ég er í þeirri nefnd sem kemur til með að fjalla um frv., hv. félmn., og fæ því tækifæri til þess að ræða þetta í smáatriðum. Þess vegna skal ég ekki orðlengja hér mjög mikið um einstök atriði. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að þingflokkur Framsfl. skrifaði hæstv. félmrh. hinn 7. þessa mánaðar svohljóðandi bréf:
    ,,Á fundi þingflokks Framsfl. þann 6. febr. 1991 var samþykkt að heimila framlagningu frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins (stjórnsýslulega stöðu) með fyrirvara. Gerður er almennur fyrirvari um að flytja eða fylgja brtt. við frv. Er þá einkum bent á 3. gr. um skipun húsnæðismálastjórnar og 7. gr. um skipan og verkefni umdæmisstjórna. Einnig er vísað til athugasemda í bréfi dags. 27. nóv. 1990 sem eru svohljóðandi:
 ,,1. Þingflokkurinn tekur undir meginhugmyndir frv. um að flytja þjónustu Húsnæðisstofnunar út á landsbyggðina. Hins vegar er það skoðun þingflokksins að fyrirkomulag þeirra mála tengist framtíðaruppbyggingu húsnæðiskerfisins og hvert verði hlutverk Húsnæðisstofnunar í framtíðinni. Líklegt er að húsbréfaviðskipti muni þróast þannig að bankastofnanir muni í vaxandi mæli taka við þjónustuhlutverkinu. Spurning vaknar því um verksvið umdæmisstjórna og hvort ekki sé heppilegra að stíga skrefið til fulls og fela það bankastofnunum að annast þjónustuhlutverkið og leggja upplýsingaöflunina á herðar húsnæðisnefnda sveitarfélaga sem eru komnar
á laggirnar samkvæmt nýsettum lögum. Vafasamt verður að teljast að leggja á herðar landshlutasamtaka kostnað vegna flutnings þjónustunnar út á landsbyggðina og ljóst er að ekki verður samkomulag um annað en að ein umdæmisskrifstofa verði í hverju kjördæmi, verði þær settar á fót. Skiptar skoðanir voru um stjórnsýslulega stöðu Húsnæðisstofnunar.````
    Þetta eru þeir almennu fyrirvarar sem þingflokkurinn gerði. Aðalatriðið í þeim er að hann áskilur fyrirvara um að einstakir þingmenn í þingflokknum flytji eða fylgi brtt. við frv. er fram kynnu að koma.
    Ég vil svo að lokum líka vitna til þeirra umsagna sem hafa komið frá landshlutasamtökum sveitarfélaga þar sem lögð er megináhersla á að landshlutasamtökunum verði tryggður tekjustofn til þess að mæta þeim kostnaðarauka sem verður af þeim verkefnum sem þeim er falið með þessu, þótt þau séu reyndar flest ef ekki öll því mjög sammála að stofna umdæmisskrifstofur úti í landshlutunum.
    Þá verður líka að segjast eins og er að mjög skiptar skoðanir eru í mínum þingflokki um það hvernig skipun húsnæðismálastjórnar ríkisins eigi að vera, hvort rétt sé núna, á tíma þess samkomulags sem tekist hefur á milli aðila vinnumarkaðarins, þjóðarsáttarinnar, að strika algerlega út aðild þeirra að stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins sem þeir hafa tekið þátt í um

allmörg ár. Var full samstaða, held ég að ég muni rétt, í þinginu þegar lögin 1986 voru sett og þá var fjölgað í stjórninni. Mér er ekki kunnugt um að það hafi orðið til neins baga. Líka má benda á það að fjármögnun húsnæðiskerfisins er nú að miklum hluta við lífeyrissjóði verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda og því a.m.k. ekki óeðlilegt að þeir eigi aðild að stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins áfram.
    Ég vildi að þetta kæmi fram hér. Ég mun svo að sjálfsögðu taka þátt í að vinna þetta frv. í hv. félmn. þar sem ég á sæti.