Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 26. febrúar 1991


     Guðmundur H. Garðarsson :
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki flytja langt mál um þetta frv. og vísa m.a. til þess að hv. 4. þm. Vestf. Þorv. Garðar Kristjánsson flutti hér allítarlega ræðu um frv. á fyrri fundi. Við fulltrúar Sjálfstfl. í félmn. Ed. munum að sjálfsögðu fjalla um þetta með þeim hætti sem við á í nefndinni. Einnig munum við óska eftir því að leitað verði umsagna fjölda aðila sem hér koma við sögu áður en við tökum endanlega afstöðu til einstakra greina þessa frv. En það liggur í augum uppi eins og hv. þm. er kunnugt um að við sjálfstæðismenn höfum ýmislegt við þetta frv. að athuga. En sem sagt, virðulegi forseti, við munum láta það koma fram við meðferð málsins í félmn.
    Ég vil þó, þar sem ég er kominn hér í ræðustól, vekja athygli á því og undirstrika það að það er greinilega ekki samstaða í stjórnarflokkunum um þetta frv. Hv. 8. þm. Reykn. Jóhann Einvarðsson lýsti hér áðan afstöðu þingflokks Framsfl. til þessa frv. Kom fram í máli hans að sá flokkur er með marga fyrirvara og athugasemdir við frv. Ég vil einnig, virðulegi forseti, vekja athygli á því að með þessu fram lögðu frv. kemur það auðvitað skýrt fram að ákveðin meginforsenda á bak við núverandi skipan húsnæðismála sem felst í því að skylda lífeyrissjóði til þess að kaupa skuldabréf af Húsnæðisstofnun ríkisins fyrir 55% af árlegu ráðstöfunarfé sínu hlýtur auðvitað að bresta verði þetta frv. samþykkt. Frv. gengur í meginatriðum þvert gegn því samkomulagi sem aðilar vinnumarkaðarins og ríkisvaldið gerðu í ársbyrjun 1986.
    Þetta vildi ég, virðulegi forseti, minna á í upphafi umræðu um þetta frv. En fulltrúar Sjálfstfl. munu fjalla nánar um það í félmn. og skila sínum álitum og tillögum að því verki loknu.